Grænn vangadans

Ég kom heim úr sólarhrings vinnu rétt fyrir hádegi í dag og gekk nokkurn veginn raka leið gegnum húsið, inn í herbergið mitt, út um dyrnar á því skógarmegin og út á nýja pallinn. Svo tók ég stólinn með rauðbleika segldúkslíka efninu sem er strengt milli hliðanna í stólnum og fékk mér sæti. Svo mjakaði ég mér til þangað mér fannst stellingin og hallinn á stólbakinu uppfylla óskir mínar um þægilegheit á þessari stundu. Svo slappaði ég af og horfði nokkurn veginn út í mitt laufþykknið fyrir framan mig. Eiginlega horfði ég ekki á neinn ákveðinn stað í laufþykkninu, heldur langt út í eilífðina þar sem skóginn bar á milli.
 
Síðan lét ég hugan reika og velti fyrir mér tilvist minni á þessari stundu. Ég var sáttur, forvitinn, fann fyrir einskonar mildri eftirvæntingu til lífsins eins og það blasti við mér í dag. Ef til vill var mér ekki alveg ljóst hvernig það blasti við mér. Kannski var ég eins og unglingur sem var að byrja að leggja land undir fót þegar hann kvaddi foreldrahús. Kannski var ég bara voða lítill þó að fólkinu sem ég vann með síðasta sólarhringinn þyki oft að ég sé gríðarlega stór. Þá á ég ekki við vinnufélaga mína, heldur skjólstæðinga mína sem ég reyni að rétta út hendina til í tilraun þeirra til að finna nýjan flöt á lífi sínu.
 
Þar sem ég sat þarna í notalegri stellingu og horfði út í eilífðina gegnum einhvern punkt í iðandi skóginum, þá byrjaði ég smám saman að skynja hvernig allt laufverkið iðaði í suðvestan golunni. Ég horfði ekki beint á það en skynjaði að utan punktsins sem ég horfði í gegnum var allt á notalegu iði. Græn ásýnd heimsins dansaði hægan vangadans þarna allt í kring og ég forðaðist að sleppa auga af græna punktinum sem ég horfði út í gegnum til eilífðarinnar. Ég vildi framlengja eins og mögulegt var þessa stund, andartak eftir andartak, helst hversu legni sem helst, láta lifandi og iðandi blaðgrænuna láta blítt að sjáöldrum mínum eins og tónlistarunnandinn óskar sér þess að tónar sínfóníunnar sem hefur svo undursamleg áhrif á hljóðhimnur hans taki ekki enda. Svo tók stundin enda. Ég hafði fengið minn skerf í þetta sinn.
 
 
*          *          *
 
 
Það var spurning hvernig mér tókst þetta. Ég veit að ég ætti að geyma það og lesa yfir og lagfæra eftir nokkra daga, þá yrði ég mun ánægðari með það. En ég reyndi eftir bestu getu að lýsa því hvernig stuttur dagdraumur getur litið út þegar allt er í góðu lagi og amstur heimsins er ekki alveg inn á gafli. Fyrri hlutinn er skrifaður um hádegisbil en nú er komið kvöld og ég ætla að enda þetta blogg og birta það svo.
 
Ég borðaði síðbúinn hádegisverð, tók mér svo skóflu og haka í hönd, sótti hjólbörurnar og ákvað að grafa fyrir hellurönd sem ég ætla að setja framan við útipallinn áður en trappan verður smíðuð. Ég ætlaði að vísu bara að byrja til að sanna fyrir mér að þessi gröftur væri ekki svo alvarlega mikill. Svo þurfti ég að grafa dýpra en ég hafði reiknað með en ég var líka duglegri en mig óraði fyrir. Svo gróf ég mikið meira en til stóð og fann eins og oft áður að það er gott að taka til við líkamlega vinnu eftir vinnuna í Vornesi.
 
Svo fór ég inn til að taka til kvöldmat handa mér. Frosna rauðsprettu hafði ég lagt á disk þar sem hún skyldi þiðna. Þegar ég ætlaði að fara að matreiða hana sá ég að stór hluti af henni hafði verið vatn. Ég tók því upp meiri rauðsprettu til að ég yrði þokkalega mettur eftir kvöldmatinn. Meðan þessi viðbót þiðnaði fór ég að tölvunni og þá var hún afar hægvirk, minnst sagt. Ég reyndi ýmsar vísar leiðir til fá ferð á tölvuna en ekkert gekk. Að lokum varð ég að slökkva á henni með valdi og svo taldi ég að hún yrði fljótari eftir það. Ekki get ég sagt að svo yrði en hún varð þó alla vega nokkurn veginn nothæf.
 
Ég tók fiskinn út úr ofninum eftir sjö og hálfa mínútu þar og þegar ég leit á fatið sá ég að fiskurinn hafði enn rýrnað. Ég borðaði slatta af rúgbrauði með til að máltíðin yrði meira mettandi. Það var ýmislegt fleira sem reyndi á mig og ég fann að ef ég ekki reyndi að gæta stillingar gæti þetta endað með því að ég færi í fýlu. Ég hins vegar aftók ég það með öllu þar sem dagurinn í heild hafði verið svo góður. Ekkert skyldi fá mig á fall. Nú sit ég með nýju fartölvuna og lýk þessu bloggi. Því næst ætla ég að útbua mér engiferte og setjast með að í hengiróluna úti á palli. Hver veit nema að hann Broddi eða jafnvel Broddarnir gleðji mig með nærveru sinni.
 
Því næst skal ég kúra mig snemma undir ullarfeldinn minn þar sem ég þarf að vakan mjög snemma til að taka þátt í venjulegum dagvinnudegi í Vornesi á morgun, Ég þarf að vera vel úthvíldur til að ég geti beinn í baki mætt skjólstæðingum mínum. Ég á líka að halda fyrirlestur um bata og þá má ég ekki vera þreyttur og illa haldinn, þá væri ég ekki góður fulltrúi edrúmennskunnar. Svo halda margir að ég sjái í gegnum fólk og sá sem sér í gegnum fólk verður auðvitað að vera í góðu formi.


Kommentarer
björkin

Gangi þér vel kæri mágur og sofðu vel.

2013-08-20 @ 22:41:51


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0