Laugardagur í sveitinni

Það var nú lag á mér í morgun. Ég sem sofnaði fyrir miðnætti svaf nánast í einum dúr til klukkan tæplega níu í morgun. Þetta heyrir hreint ekki hversdagsleikanum til hjá mér, en ég hlýt að hafa verið þreyttur eftir gærdaginn. Þegar ég kom fram höfðu gestirnir mínir lagt járnbrautarspor í stórum stíl og iðkuðu alls konar flutninga með lest. Eftir morgunverðinn hringdi hún Annelie.
 
Annelie, þessi góða vinkona Valdísar, vill svo gjarnan líta hér við öðru hvoru. Hannes tekur henni líka ljómandi vel og fær það svolítið endurgoldið á einn og annan hátt. Í dag eignaðist hann nokkra litla bíla út á vinskapinn sem hann sýnir henni. Og hvað haldið þið? Auðvitað bakaði húsbóndinn pönnukökur og svo var farið út á nýja pallinn til að borða góðgætið. Hann er magnaður þessi pallur og áður en hann var orðinn að veruleika datt mér í hug að þetta væri eins og heil bryggja. Það leiddi aftur hugann til þess að það væri hægt að dansa þarna þó að ég geti ekki hælt mér af dansfimi minni. Og í framhaldi af því kom upp í huga mér "Det är dans på Brennöbrygga" eða "Það er dans á Brenneyjarbryggju". Svo hef ég talað um þetta aftur og aftur, dansinn á Brenneyjarbryggju.
 
Þegar Annelie var farin settist Rósa út í hengiróluna, hafði sett útvarp út í glugga og með farsímanum lokkaði hún fram músik í útvarpinu. Og hvað annað en að byrja á þessu:
 
Svo ómaði danstónlistin frá nýja útipallinum á Sólvöllum sem með öðru orðinu kallaðist Brennöbrygga.
 
En lífið er ekki bara dans og leikur. Það þarf að borða líka. Ég reyni lítið við matargerð þegar ég hef gestina sem ég hef um helgina núna. Gestirnir fá líka að hafa fyrir því að taka upp kartöflur í matinn. Rósa fylgist þarna áhugasöm með Pétri róta í moldinni og leita eftir kartöflunum. Mitt hlutverk verður svo að ganga frá eftir matinn.
 
Meðan þau tóku upp fór ég út í skóg og tók myndir af flóknu göngustígakerfinu mínu í skóginum næst húsinu. Hannes er ekki alveg kominn upp á lag með að hafa gaman að þesum stígum mínum sem ég gerði með hann í huga. Hann er hreinlega ekki orðinn nóku gamall til að hafa gaman að þeim, eða það er mín kenning.
 
Eftir matinn sem var þorskur frá henni Kiddý skólasystur minni og kartöflur úr heimagarðinum, þá gat ég boðið gestunum mínum upp á afslöppun í hengirólunni -auðvitað á nýja útipallinum. Hann virðist hafa það huggulegt þarna hann nafni minn og þau öll. En Hannes sýndi ekki gleði sína einvörðungu með því að brosa í hengirólunni.
 
Hann breikaði líka fyrir foreldra sína og afa. Nokkru síðar bauð hann afa sínum upp í dans og hvað gerir ekki afi þegar barnabarnið býður upp í dans. Ég dubbaði mig upp og reyndi að brjóta mig í gegnum hlédrægnismúrinn og leika við barnið. Það voru alls konar kúnstir sem við fundum upp á og að ósk nafna míns hljóp ég líka um þarna leikandi vondan dreka. Þó að ég leiki vondan dreka er hann ekki hræddur við mig, hann hlær mikið og veit að afi verður ekki vondur í alvöru.
 
Nú er dóttursonurinn sofnaður og ég vona að hann vakni ekki af vondum draumi í nótt við það að ég sé vondur dreki sem læsi í hann klónum eða spúi eldi.
 
Nú er mál að linni og ég þarf að ganga fyrr til fundar við Óla Lokbrá en ég gerði í gær. Ég þarf að leggja mig fyrr og koma mér fyrr á fætur í fyrramálið. Eigi ég að leika vondan dreka verð ég að vera vel úthvíldur svo að ég fari ekki að verða vondur í leiknum. Alvöruvondir drekar hljóta jú að vera alvöru hættulegir.
 
Dans på Brennöbrygga hefur verið viðloðandi hér mest allan daginn.


Kommentarer
björkin

Gott að eiga góðan AFA,Góða nótt og knús á ykkur öll.

2013-08-17 @ 23:52:47


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0