Vatnakráin og rifsberin áttu daginn í gær

Eins og í gærmorgun er sólin á leið sinni upp á himinhvolfið í austri. Hingað og þangað í skóginum eru upplýstir flekkir þar sem sólin nær að senda geisla sína í gegnum lauf- og barrþykknið. Svo færast þessir flekkir til og skapa nýjar og nýjar myndir héðan frá glugganum mínum séð. Eftir klukkutíma eða svo verður sólin orðin svo óhindruð af skóginum að ég verð að lækka gardínuna til að sterk birtan stingi ekki í augun. Í gær reyndi ég að ná góðum myndum af þessu en ég verð bara að taka ofan hatt minn og viðurkenna að ég ræð ekki við það. Trúlega er þar bæði um kunnáttuleysi að ræða og að myndavélin ræður ekki við það. Nú verð ég að láta mér nægja að láta sólstafina mála sínar fallegu myndir þarna úti og eiga þær myndir sem fallega og verðmæta minningu.
 
Í gær skruppum við Sólvallafólk af bæ og skruppum á veitingastað sem ég uppgötvaði við Hjälmaren fyrir nokkrum vikum og kallaði hann einhverju skrýtnu nafni þegar ég bloggaði um hann þá. Nú er ég búinn að finna þessum stað íslenskt nafn sem ég sætti mig við. Ég er búinn að breyta sænska nafninu Sjökrogen í íslenska nafnið Vatnakráin. Rósa, Pétur og Hannes Guðjón eru þarna við næsta borð og við bíðum veitinganna sem við vorum búin að panta. Við vorum löngu búin að skipuleggja þessa ferð og svo gekk allt samkvæmt áætlun.
 
Þessi staður er ekkert ókeypis og eins og ég sagði um daginn, en í góðum félagsskap er hann í mínum huga mikið ódýrari. Þarna í seilingar fjarlægð frá stólunum gutlar vatnið Hjälmaren við bryggjustólpana, eða nánar til tekið vík frá Hjälmaren. Það er bara hægt að segja það að þessi staður býður upp á mikil notalegheit og ekki dregur það úr að stúklurnar sem þarna vinna eru viðmótsþýðar og viljugar að gera dvölina sem besta. Svo er sá matur sem ég hef smakkað þarna bara hreina lostætið.
 
Í baksýn á myndinni sér í lítinn hluta af litlu íbúðarhverfi. Við fórum i stutta gönguferð þangað eftir matinn og hittum einn íbúanna. Þar komumst við að því að hann er að selja húsið sitt og flytja upp í Dali og við komumst einnig að því að þessi hús eru alls ekki seld á neinu gjafaverði. Hann er að flytja upp í Dali vegna þess að dóttir konunnar hans býr þar og þau vilja komast nær henni og barnabörnunum. Ég spurði hann hvers vegna dóttirin hefði flutt upp í Dali, hvort hún hefði hitt myndarlegan mann. Hann svaraði því til að hún hefði alla vega hitt mann. Svo er hægt að spá í hvað það svar gaf til kynna.
 
Vatn og skógur fara vel saman og minn draumur í mörg ár var að eignast hús þar sem vatn væri í sjónmáli. Nú er ekkert vatn í sjónmáli frá Sólvöllum en ég er afar sáttur við Sólvelli eigi að síður. Vötnin eru fyrir hendi til að heimsækja eins og þarna í gær að borða við strönd þessa fjórða stærsta vatns Svíþjóðar.
 
Eftir tveggja mínútna gönguferð frá Vatnakránni blasir þetta útsýni við. Breytileikinn er mikill á örstuttri vegalengd.
 
Hinu megin við Vatnakrána stendur þessi eik. Hún er ekki fædd í gær þessi eik þar sem heil fjölskylda getur stillt sér upp fyrir framan hana og samt sést í tréð báðu megin við fjölskylduna. Það er nýbúið að saga gríðarlega stórar greinar af henni og eitt sárið eftir þá aðgerð sést þarna aðeins ofan við Rósu til hægri.
 
Einhvers staðar á þessu svæði býr systir hennar Elísabetar Eir Corters, vinkonu Rósu og Péturs. Elísabet, eða Dúdda eins og hún er kölluð, er mikil sómakona og málvísindamaður. Dóttir Dúddu er Embla sem bakar alveg ótrúlega góðar kladdkökur. (Eða heita þær kannski klessukökur? Nei, það getur ekki verið, þær eru svo góðar.)
 
*          *          *
 
En heima beið verkefni. Hann Ívar nágranni í þriðja húsinu norðan við brá sér hér inn á lóðina hjá okkur um daginn. Hann sneri sér að Rósu og spurði hana hvort hún vildi ekki tína ber heima hjá sér, nóg væri til af þeim þar. Rósa gerði það þá strax og kom heim með einhvern slatta af berjum sem hún gerði eitthvað úr. Svo var hún búin að fara þangað aftur og í gær fórum við Rósa til Ívars til að tína ljós rifsber. Þessi bláu ber, ja hvað á ég að segja. Blá rifsber, ég eiginlega veit það ekki. Rauð rifsber voru þarna líka. Nú baukuðu þau við að gera ýmislegt úr þessu langt fram á kvöld en ég hélt mig í mátulegri fjarlægð. Ég var líka orðinn dauðþreyttur snemma í gær þar sem ég byrjaði minn dag mjög snemma í gærmorgun.
 
En ég tók þó alla vega myndir af berjavinnslunni. Þarna er mikið af krukkum, berjum, berjasíu og einbeittri konu við sultu- hlaup- og saftgerð. Þegar ég tók þessa mynd voru Pétur og Hannes að munda sig til fundar við Óla lokbrá í herberginu þeirra.
 
*          *          *
 
Enn hefur skógurinn fengið á sig nýjar birtumyndir. Ekki veit ég hvernig á því getur staðið, en mér finnst þessar myndir í dag vera allt öðruvísi en í gær. Nú er sólin komin svo hátt að ég er búinn að lækka gardínuna. Það liggja fyrir ýmis verkefni í dag og svo liggur fyrir Stokkhólmsferð á morgun. Þá fer fjölskyldan sem hefur nú dvalið hér í tæpar fimm vikur. Við förum á bílnum mínum og svo tek ég til baka hluta af eldhúsinnréttingu sem féll til þegar þau skiptu um eldhúsinnréttingu í vetur.
 
Hann Ívar sem bauð upp á berin á lóðinni sinni gengur ekki heill til skógar. Hann uppgötvaðist með krabbamein í andlitinu í vor og síðar kringum skjaldkirtilinn. Ég vonaði það besta fyrir Valdísar hönd alveg fram á það síðasta. Ég vona það líka fyrir Ívars hönd. Hann hefur oft stoppað hér framan við á göngu sinni framhjá Sólvöllum. Hann býr einn. Hann hefur oft sagt að hann vilji vera hjálplegur og að hann vilji reynast fólki vel. Hann sýnir það oft í verki.
 
Verðmætin sem lífið býður upp á finnast víða en það er líka töluvert af erfiðleikum að takast á við. Megi þér vegna vel í þínum átökum Ívar.
 


Kommentarer
Björkin.

Alltaf nóg af verkefnum á Sólvöllum.Gott blogg mágur minn.Líði ykkur öllum vel.Krammmmmmm.

Svar: Takk sömuleiðis.
Gudjon

2013-08-02 @ 12:17:09
Dísa gamli nágranni

Mikið er gaman að skoða allar þessar fallegu myndir, og líka að sjá hana Rósu litlu í eldhúsinu þónu Guðjón minn.

2013-08-05 @ 18:44:20


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0