Þegar hjartalagið er gott og kærleikurinn ræður ríkjum

Ég er í Vornesi ásamt 19 innskrifuðum sem við köllum sjúklinga. Það eru óvenju fáir í húsinu eins og stendur. Núna milli klukkan sjö og átta að kvöldi sitja þau öll með sína fundi sem þau leiða sjálf. Ég er einn strafsfólks á staðnum og einmitt þessi tími er tími sem ég get haft fyrir sjálfan mig í flestum tilfellum og í dag er einmitt svona tilfelli sem ég þarf ekki að skipta mér af neinu af því að allt er í góðu lagi í húsinu.
 
Í morgun fann ég fyrir svolitlu mótlæti yfir því að þurfa að fara hingað í Vornes. Ég fann á tímabili að ég nennti því hreinlega ekki og ég vildi bara vera ellilífeyrisþegi í næði heima í dag og sýsla við mitt þar. Ég reiknaði með að þetta mundi breytast áður en langt um liði. Svo þegar ég vr búinn að fara í sturtu og borða hafragrautinn minn fann ég að eitthvað gott var að fæðast. Svo ók ég af stað í tíma en þó fyrr en venjulega. Sá sem vinnur helgina á móti mér þurfti að komast fyrr heim til sín í dag en stundaskráin gerir ráð fyrir og ég brást auðvitað við því og mætti fyrr sem þeim tíma nemur.
 
Þegar ég var kominn fyrstu fimm kílómetrana tók ég eftir því að farsíminn var ekki í vasa mínum og af gömlum vana fann ég mig knúinn til að snúa við og sækja hann. Svo gerði ég. Þegar ég var búinn að setja hann í vasa minn og gekk út að bílnum á ný sá ég að þetta var alls ekki svo nauðsynlegt. Það var nauðsynlegt meðan Valdís var ein heima og þá mátti það að mínu mati bara alls ekki bregðast. Þetta situr í mér ennþá.
 
Þegar allt var nú örugglegsa klappað og klárt og ég kominn vel af stað fór ég að taka eftir því hversu landið er ótrúlega grænt og fallegt með alla sína fallegu og hraustlegu skóga eftir sólríkt sumar og mátulegar rigningar upp á síðkastið. Svo inn á milli birtust slétturnar sem sums staðar voru akurlönd með fullþroskuðu korni sem beið bara þreskivélarinnar og annars staðar biðu þeir plógsins. Á vissum stöðum var þegar búið að plægja og á öðrum stöðum var verið að plægja. Svo birtist Hjälmaren með sínum skógi vöxnu eyjum og sólin baðaði þetta allt saman með sínum óþrjótandi, hlýju geislum. Það var alls ekki svo fráleitt að vera á leið í Vornes.
 
Þetta fólk sem ég hef verið með í dag er með afbrigðum góður hópur. Fyrir löngu, löngu síðan var ég spurður hvort ég væri nógu frakkur í munninum tiil að ráða við þetta stjórnlausa fólk. Ekki man ég hverju ég svaraði en það er ekki að vera frakkur í munninum sem styður við bakið á þessu fólki. Ef því finnst að ég sé sannur verður vinna mín létt. Svo hefur það verið í dag. Ef allir heimsins leiðtogar gætu talað í sannleika frá hjartanu eins og fólkið mitt í Vornesi hefur gert í dag, þá væri ekki barist á banaspjótum.
 
Það er mikil gæfa fyrir mig að geta unnið við þetta við og við og finna fyrir þeim kærleika sem finnst á einu meðferðarheimili fyrir alkohólista og eiturlyfjaneytendur þegar stemmingin er góð og atburðarásin jákvæð.


Kommentarer
Rósa

Mér finnst voða gott að þú sóttir símann :-)

Svar: Já, það er nú reyndar best svo.
Gudjon

2013-08-24 @ 20:19:19


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0