Hannes og fjölskylda eru farin en Broddi kominn til baka

Upp úr hádegi í dag, sunnudag, lögðu þau af stað heim Hannes og fjölskylda. Hann var mikið ljúfur drengur og þau öll mikið velviljuð með heimsókn sinni. Þeim líður vel hér, það fer ekki milli mála, og þau meta mikils þá kyrrð og náttúruna sem umvefur þennan stað. Það er misjafnt hverju fólk sækist eftir í fríum og á ferðalögum og þeir sem vilja koma á Sólvelli og njóta þess einfaldleika sem staðurinn býður upp á, já hvað á ég nú að segja? Þeir eru nú ríkir á sinn hátt. Kannski lætur þetta hrokafullt af minni hálfu að segja svona, en ég þori þó að segja um sjálfan mig að þó að ég hafi mína annmarka, þá er ég ekki hrokafullur. Sólvellir eru bara einfaldur og mjög góður staður og hér tala ég af alvöru.
 
Það var nokkuð undarlegt sem Hannesi tókst með mig. Hann fékk mig til að dansa, alla vega hálfdansa. Og hann fékk mig til að leika ófreskju og ýmislegt fleira. Svo settum við saman magnaðan legóvörubíl. Reyndar tókum við öll þátt í því. Ýmsir af þeim leikjum sem hann tælir mig út í gera mig móðan og eins og hann hljóp í gær hér úti á nýja pallinum við Sólvallahúsið, þá fær það mig til að langa að eiga svolítið af þeirri orku sem hann getur leyst úr læðingi. Þá mundu mörg af mínum verkum ganga hraðar en þau gera.
 
*          *          *
 
Það var hérna um daginn að ég átti ekkert avakadó og engin egg. Hvað á þá að gefa honum Brodda? Jú, ég reyndi að gefa honum epli. Ég sá fljótt að það fannst honum léleg framkoma gagnvart sér. Svo fór ég og vann einn sólarhring í Vornesi svo að ekkert fékk hann þann daginn heldur. Svo hvarf Broddi og félagi hans, sá sem var skaddaður undir auga. Nokkrum dögum síðar frétti ég frá nágrannna í húsinu suðvestur í brekkunni í svo sem tvöhundruð metra fjalægð að þeir félagar hefðu setst þar að.
 
Ég varð alveg eyðilagður yfir þessu, Broddi og Broddi farnir að halda framhjá mér. Svo gafst ég upp á að gefa þeim félögum þar sem maturinn bara rotnaði niður í grasið. Í dag var ég að vinna úti og datt þá í hug að það væri kannski mál að gera nú eina tilraun og ég sótti avakadó og losaði það í grasið bakvið húsið. Svo þegar ég var að borða þorskinn minn í kvöld datt mér allt í einu í hug að skreppa út og gá hvort þeir félagar hefðu gert matnum skil. Nei, svo var ekki.
 
Þar sem ég var að snúa mér við úti á lóðinni sá ég hreyfingu út undan mér. Og hvað haldið þið? Rétt innan við hliðið í grjótgarðinum í svo sem fimmtíu m fjarlægð sá ég hvar Broddi, sá stærri, kom kjagandi og stefndi beint á gamla matarstaðinn. Ég dreif mig inn og fylgdist með. Jú, hann kom þarna rakleiðis, þefaði og snuðraði og svo fann hann sitt avakadó og át upp til agna. Ég er búinn að fyrirgefa honum framhjáhaldið.
 
*          *          *
 
Ég fékk heimsókn í dag eftir að Hannes og fjölskylda fóru. Hann Lennart sem á heima neðst suðvestur í brekkunni kom með plastpoka. Forvitinn bauð ég honum upp á molakaffi sem hann þáði. Yfir kaffinu tók hann upp innihald pokans og lagði á borðið. Þarna kom hann með eina krukku af títuberjasultu og aðra af moltuberjasultu. Namm, namm. Þau reynast mér mjög vel Anni og Lennart. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þau gauka að mér sultu. Þau voru líka dugleg við að heimsækja Valdísi síðustu mánuðina og fyrir það met ég þau að verðleikum sem aldrei verða frá þeim teknir.
 
Eftir þessa afhendingu byrjaði Lennart að spila á fíngerða og aldeilis frábæra en ósýnilega strengi. Hann fór að lýsa fyrir mér stöðum langt, langt norður í landi, stöðum sem mig hefur lengi dreymt um að sækja heim vegna þess að svo margir hafa talað um þessa staði sem aldeilis einstaklega fallega. Hann lýsti fyrir mér fjöllum sem ganga í sjó fram með breið fljót við fjallsræturnar og skóga sem tengja saman fjallsrætur og fljót. Hann lýsti fyrir mér veitingastað uppi á fjalli einu með útsýni inn yfir norðlenska fjallaveröld, skóga, vötn, fljót, og svo sjálft Eystrasaltið í gagnstæðri átt. Margt fleira talaði hann um og hann gerði það á þann hátt að það gekk mér beint í hjartastað.
 
Ja Lennart, hvað mig þyrsti í ferðalag, ferðalag sem mig hefur lengi dreymt um og nú er lag fyrir mig að undirbúa. Ég mun ekki rasa um ráð fram og æða af stað. Ég hef veturinn fyrir mér til að undirbúa þetta, panta stugu og svo kannski aðra stugu, velja leiðir, lesa um þær, og verða vel undir þetta búinn. Ég byrjaði að blogga um svona lagað fyrir nokkrum árum. Nú er ég alveg að verða búinn að ganga frá mér á Sólvöllum og nú get ég farið að neyta ávaxtanna. Því miður var ekki hægt að fara svona ferð á allra síðustu árum. Við Valdís vorum oft búin að tala um það en kraftinn vantaði, því miður. Þannig var það bara.
 
Lífið heldur áfram og það er ekki um svo mikið annað að ræða en að taka þátt í því.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0