Óli Lokbrá er hér

Ég er of syfjaður til að blogga en hins vegar er ég að æfa mig á tölvu sem er ný í mínum höndum. Ég freistast því til að skora sjálfan mig að gera eitthvað til að geta spurt mig áfram ef ég þarf á því að halda. Ég er í Stokkhólmi hjá Rósu og fjölskyldu og verð hér í nótt. Á morgun fer ég hins vegar heim á leið með kerru og hluta úr eldhúsinnréttingu sem ég ætla að hagnýta mér í bílageymslu/vinnustofu heima á Bjargi.
 
Ef ég hefði ekki þessi hjón til að leiðbeina mér í tölvuheiminum veit ég ekki hvernig ég væri staddur í tölvumálunum. Víst þekki ég fólk sem gæti vel hjálpað en það yrði aldrei á sama hátt. Ég gæti líka keypt mér hellings hjálp en það yrði bara eins og dropi í hafið af allri þeirri þörf sem ég hef fyrir aðstoð ef ég ætla að nýta mér tölvuheiminn eins og ég geri.
 
Líklega var það 1985 sem ég eignaðist fyrstu tölvuna og þá var ég æði mikið sjáfum mér nógur. Þá fannst mér líka að ég væri maður að meiri ef ég væri tölvufróður. Svo skal ég viðurkenna að ég reyndi að taka þátt í umræðum um þessi mál og reyni þá að leyna því hversu lítið ég vissi. Víst var ég barnalegur þá. Í dag þykir mér mörg önnur gildi verðmætari lí lífinu en svo kem ég þó aftur að því að ég er í þörf fyrir að einhverjir hjálpi mér.
 

Einbúalífið byrjar nú aftur. Það verður fróðlegt að sjá hvernig það gengur. Það gekk ágætlega áður en ég fékk gestina á Sólvelli en nú er ég orðinn ofdekraður þannig að ég verð að byrja upp á nýtt. Á mánudaginn kemur hann Anders smiður til að stilla upp veröndinni. Hann ætlaði að koma á miðvikudag í þessari viku en svo varð ekki. Svo vildi hann koma á fimmtudag eða föstudag en þá sagði ég að það væri best að hann kæmi á mánudag og þá mundi það líka þýða að koma á mánudag og engan annan dag.
 
Anders er besti kall og velviljaður maður. Ég verð að baka pönnukökur svo sem einu sinni handa honum. Í fyrra vantaði mig gröfumann til að grafa fyrir Bjargi og undirbúa fyrir sökkulinn. Svo kom hann að kvöldi til, til að líta á verkið og ræða það. Þegar við höfðum lokið vetvangskönnun settumst við við borð úti og drukkum sódavatn og borðuðum einhverja köku með. Svo sagði gröfumaðurinn allt í einu: Anders segir að það sé gott að vinna hérna.
 
Það var auðvitað gaman að heyra það. Ég vil að þeir sem koma til að vinna finni það að þeir séu einhvers metnir. Ekki að þeir séu bara einhverjir einhverjir sem svo bara drulli sér í burtu þegar þeir eru búnir með sitt. Valdís gerði oftast eitthvað til tilbreytingar þegar ég var búinn með einhvern áfanga af einhverju tagi. Hún gerði það líka þegar hún hafði lokið við eitthvað og svo gerði hún líka við þá ókunnu menn sem komu til að aðstoða okkur. Ég finn mér eitthvað jákvætt til að segja við þá, en þá verður það líka að vera byggt á sannleika. Annars heyra þeir að ég er að smjaðra fyrir þeim.
 
Nú er það bara þannig að mér hefur gengið ágætlega við að skrifa þetta. Ég hef spurt Rósu einnar spurningar og ég fékk greiðlegt svar við því. Ég get ekki ennþá sótt nýjar myndir til að birta á blogginu en ég get sótt einhverja gamla mynd. Ég ætla að gera það að lokum. Það verður hluti af æfingaprógrammi kvöldsins.
 
Ég er þakklátur öllum sem rétta til mín hjálplega hönd og ég er þakklátur öllum sem víkja að mér vinalegu orði, hlýlegu orði eða vilja vera vinir mínir. Ég veit ekki hvers vegna þetta kom upp í huga mér meðan ég var að skrifa þetta, en það var eins og þetta þakklæti styrktist eftir því sem línurnar í blogginu urðu fleiri. Þegar ég er að enda við að ganga frá þessu bloggi er klukkan á Íslandi að verða hálf níu. Það er því mál að ég segi góða nótt og ég er ánægður yfir því hversu vel mér gekk með þetta blogg á mína nýju fartölvu. Innsláttarvillurnar eru sjálfsagt nokkuð margar núna en það er ekki bara nýju tölvunni að kenna, það er líka Óla Lokbrá að kenna. Hann vill fá völdin yfir mér ekki seinna en núna.
 
 
Hér er svo æfingamynd kvöldsins tekin fyrir nokkrum árum þegar við Valdís fórum í hópferð til Stokkhólms og í siglingu út í Stokkhólmsskerjagarð. Þarna var verið að sigla undir eina af afar mörgum brúm sem byggðar hafa verið yfir hin mörgu sund sem prýða sænska höfuðstaðinn.


Kommentarer
Björkin.

Takk fyrir bloggið kæri mágur.Góða nótt og kram til hjálplegu fjölsk.Gott að eiga góða að,segir máltækið.

2013-08-04 @ 00:28:34


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0