Morgunstund gefur gull í mund

Það voru engin vettlingatök hér á Sólvöllum í dag eins og það var í gær þegar ég tók nýjar og nýjar ákvarðanirn og breytti ákvörðunum fram undir hádegi og enginn gangur var á neinu. Dagurinn í dag byrjaði svalur en svo fór hitinn í 20 stig þannig að það var ekki yfir neinu að skæla.
 
Klukkan átta í morgun stóð ég þarna með myndavélina og tók heimildarmynd í morgunsólinni. Kerran mín og þessir tveir haugar þarna eru á lóð ungu nágrannanna. Það var gert með leyfi þeirra og þau sögðu að mér lægi ekkert á að taka þetta því að það bagaði þau alls ekki. En mér fannst þetta mjög óskemmtilegt og þó að ég vildi mikið heldur fara að smíða ákvað ég að drolla ekki lengur og setti í gang. Þó að haugarnir virtust ekki stórir voru þetta einar tuttugu ferðir út í skóg berandi eða dragandi greinar svo mikið sem ég komst með í hverri ferð.
 
En þar með var útlitið orðið heldur betur allt annað. Viðurinn sem liggur eftir á balanum er nágrannanna. Þetta eru aspir sem ég felldi á þeirra lóð áður en gröfumaðurinn kom um daginn til að ganga frá lóðinni við Bjarg.
 
Á bakvið Bjarg leyndist svo þetta. Þessi haugur er ógnar flækja og ég segi aftur flækja. Þarna liggja nokkrar minni aspir og hlutar af tveimur eikum. Gröfumaðurinn kom með kló og dró þetta saman, lagði það bakvið Bjarg og þjappaði því vel niður. Þegar ég leit yfir hauginn um hádegi í dag fannst mér sem frágangurinn þarna yrði aldrei búinn.
 
En eftir nokkra klukkutíma var hann þó búinn. Þá var ég líka búinn að fara einhverja tugi ferða út í skóg með greinar. Eftir er að raka saman laufi ef ég þá læt það ekki vera og hugsa það sem fæðubótaefni fyrir jarðveginn. Ég er sjálfsagt ógnar einfeldingur en bæði þessi verk eru svo skemmtileg þegar þau eru búin. Það verður svo mikil breyting til bóta. Gamla gönguleiðin út í skóg er nú opin á ný.
 
*          *          *
 
Þetta er blóm á graskersjurtinni hennar Rósu. Inni í blóminu er einhver ógnar fjöldi af smá kvikindum. Kannski
það sé þessu blómi nauðsynlegt, hver veit.
 
 
Svo setti ég farsímann minn hjá einu graskerinu, því sama og ég birti mynd af fyrir stuttu. Það hefur stækkað gríðar mikið á fáeinum dögum.
 
Graskersjurtin er þarna að nálgast tré sem er aldeilis til hægri á myndinni. Það verður gaman að sjá hvort hún reyni að klifra upp það.
 
Nú er ég mikið syfjaður og þreyttur eftir annasaman dag, en ég er líka harð ánægður með daginn. Nokkrum lítrum af grasfræi sáði ég líka í skalla sem eru í sáningunni kringum Bjarg og ekki var verra að komast yfir það líka. Ég er ónýskur á grasfræið og vil láta það ganga fyrir að grasrótin verði sterk svo fljótt sem auðið er.


Kommentarer
Björkin.

Ekki vantar dugnaðinn í Sólvallarbóndann.Krammmmmmm.

Svar: Góðan daginn og takk.
Gudjon

2013-08-14 @ 13:35:47


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0