Sumar/síðsumar

Í morgun átti ég í erfileikum með sjálfan mig. Eins og venjulega svaf ég mjög lengi eftir að hafa unnið kvöld eða nótt eða hvað það á nú að kallast. Ég er alltaf dauðþreyttur eftir svoleiðis sólarhrings törn þó að ég nái að sofa allt að fimm tíma. En það var ekki það sem bagaði mig í morgun. Vandamálið var hvað ég ætti að gera í dag. Það lágu fyrir tvö megin verkefni. Annað var að vinna við að loka köntunum á nýju veröndunum við Sólvallahúsið og þar sem það er dálítil "að skríða vinna" vildi ég svo lifandi feginn geta klárað það. Hitt verkefnið var að taka til eftir undangengna törn og þar var af all nokkru að taka.
 
Svo fór ég í eina rannsóknarferð kringum vetvanginn og tók ákvörðun. Síðan fór ég inn, leit út um glugga og tók nýja ákvörðun. Svo fékk ég mér morgunverð og var eins og óöruggur táningskrakki og breytti um ákvörðun nokkrum sinnum. Svo skoðaði ég veðrið í tölvunni og til öryggis á textavarpinu líka og væflaðist enn um stund. Síðan tók ég sorteringardallana fjóra sem voru orðnir vel fullir og bar þá út í bíl. Ég fer nefnilega til Fjugesta eftir hádegið til að hitta fólk og ætla að fara á endurvinnslustöðina um leið. Síðan byrjaði ég að taka til því að nú var endanlega ákvörðunin tekin. Taka til kringum húsið og svo kom ausandi rigning. Ég rétt náði að taka inn ullarfeldina mína sem voru til veðrunar á snúrunni.
 
Já, það er ekki alltaf einfalt að vera sveitamaður.
 
Í dag fór hann upp í 30 mm þessi mælir. Ég birti þessa mynd af úrkomumælinum á feisbókinni í gær. Þar talaði ég um úrkomuna, en þessi mynd sýnir meira en úrkomu. Það mætti halda að hún sýni haustlauf líka. Svo var nú reyndar ekki en hins vegar voru stórar bjarkir orðnar mjög vatns þurfi og vissir laufklasar orðnir gulir af þurrki. Svo hreyfði vind og laufið féll til jarðar. Ef ekki verður of þurrt og heitt aftur hverfur þetta lauf bæði af trjánum og af jörðinni og svo verður laufskrúðið fallegt á ný. Þetta hefur gerst áður. Grasflötin grænkar líka óðum og allt er að taka á sig hraustlegan blæ á ný. Það tekur á að vera með Miðjarðarhafshita vikum saman og fá enga rigningu. 
 
Ég skrifaði þetta að mestu í morgun en nú er komið kvöld. Heimsóknin í Fjugesta tókst vel og tiltektin gekk vonum framar. Ég er búinn að horfa á kvikmynd sem mér var gefin fyrir nokkrum vikum, kvikmynd sem er búin að fara sigurför um heiminn meira en flestar aðrar myndir hafa gert. Það var því kominn tími til að ég sæi hana líka og það varð að gefa mér hana svo að ég kæmi því í verk. Það var ekki alveg í gær sem ég gerði þetta síðast og ég ætti nú bara að endurtaka það og líta á þær myndir sem til eru hér á bæ. Ég veit að ég er ekki búinn að sjá allar þær myndir sem til eru. Nú ætla ég að enda þetta kyrrláta kvöld með því að útbúa mér engiferte og fara síðan undir ný viðraðan ullarfeldinn minn. Óli vinur minn mun þá ekki láta mig bíða lengi eftir sér. Það er nú meira hvað hann er tryggur þessi Óli Lokbrá.


Kommentarer
b

Sofðu vel mágur minn.Hér var glampandi sól í dag og heitt,en spáir svo rigningu út vikuna.Góða nótt og líði þér vel.

Svar: Góða nótt til ykkar líka.
Gudjon

2013-08-12 @ 23:11:23


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0