Ef hann verður vandvirkur fær hann rúgbrauð með smjöri og osti.

Í dag og undir kvöldið var ég svo sannarlega ákveðinn í því að það yrði ekkert blogg í kvöld og kannski ekki næstu daga. En hér sit ég nú og er byrjaður. Píparinn sem átti að koma í morgun kemur ekki fyrr en á morgun. Svo var samið um í gær og það var eftir beiðni pípulagningafyrirtækisins. Þá fékk ég hugmynd; að mála hornið í bílageymslunni áður en hitadúnkurinn verður settur upp. Það hafði ég ekki hugsað út í áður sem mér þótti allt í einu býsna skrýtið.
 
Svo sparslaði ég hornið tvisvar sinnum í gær, og slípaði og málaði í morgun. Síðan fór ég að taka ærlega til. Það var öðru vísi að taka til núna. Ég leit á lista og hugsaði með mér að nú þyrfti ég ekki lengur á svona að halda því að allt væri að verða búið. Listinn fór því í eldinn. Svo tók ég plötuafganga og sama með þá. Ég nota ekki svona meira hugsaði ég og þá sagaði ég litlu krossviðarafgangana í eldinn. Gipsónettplöturnar fóru í stóran pappakassa úti í horni sem síðan fer í endurvinnsluna. Svona gekk tiltektin mín í dag, að ég var að velja milli þess að henda eða nota í eldinn, núna vegna þess að allt er að verða búið. Áður lagði ég það mesta til hliðar því að ég er þokkalega nýtinn. Það er í fyrsta skipti í nokkur ár sem ég get hugsað svona, allt er að verða búið. Mikið er það notalegt.
 
Meðan ég var að snurfusa þarna úti hugsaði ég aðeins um það að ég gæti orðið sérvitur og einrænn í einverunni. En stundum ske hlutirnir í svo undarlegu samhengi. Ég rölti með fyrra móti inn til að fara í sturtu og síðan að útbúa mat. Svo ætlaði ég á AA fund og ég er með lykilinn þannig að ég þarf að mæta fyrr en venjulega til að renna á könnuna þar. Þegar ég kom inn gekk ég fyrst að tölvunni og kíkti á skjáinn. Jú, það var eitt bréf til mín. Það var frá Vornesi þar sem ég var spurður hvort ég væri tilbúinn að leysa af á sumarleyfatímabilinu. Svo fór ég í sturtu í ánægjulegum hugleiðingum
 
Þá sá ég fram á það að ég væri ekki orðinn einrænni eða skrýtnari en svo að ég væri spurður eftir þessu. Ég upplifði spurninguna sem heiður því að með henni sá ég að yfirfólk í Vornesi sæi mig ennþá sem fullgildan starfsmann þrátt fyrir að í sumar verði ég sjötíu og tveggja ára. (Þetta með aldurinn hlýtur að vísu að vera misskilningur :) Ég var líka spurður eftir þvi hvenær ég ætlaði að njóta sumarsins sjálfur og það var tillitssamt. Ég mun svara spurningunni um afleysinguna játandi.
 
Þegar ég kom heim af AA fundinum skipti ég um föt og fór út til að mála aðra umferð í hornið bakvið hitadúnkinn. Þegar ég sá vegginn þarna í bílageymslunni fá á sig þessa fallegu áferð var eins og ég áttaði mig ennþá betur á því hverskonar stórkostleg eign þetta hús er. Allir hlutir eru vel úthugsaðir, vel frágengnir og útlitið eftir því. Ég fann mig verulega ánægðan með lífið og árangur erfiðis míns undanfarið skilaði sér í hreinni vellíðan.
 
Ég er sem sagt búinn að ljúka góðu dagsverki, kominn inn aftur og úr rykugum vinnubuxunum, búinn að smakka á rúgbrauðinu sem mallað hefur í ofninum í dag og það var gott að vanda. Og nú er ég búinn að blogga. AA fundinum má ég heldur ekki gleyma. Ég er ábyrgur og stend undir því, þess vegna fer ég á þessa fundi aftur, aftur og aftur. Nú er að bursta og pissa og fara snemma á fundinn með Óla lokbrá. Píparinn, ungur maður að nafni Sebastian, kemur snemma í fyrramálið og ég ætla að vera ungur líka og taka þátt í athöfnum morgundagsins með honum. Ef hann verður vandvirkur fær hann rúgbrauð með smjöri og osti.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0