Íslenskt þjóðlag - sænskt þjóðlag og barnaskólaár

Það var hérna í fyrradag að ég vitnaði í íslenska vorvísu og sagði; "sóleyjarnar vaxa -sunnan við garð."
 
Ég var ekki viss hvort þetta væri rétt og þegar ég gáði að því í morgun komst ég að því að svo væri ekki, heldur væri það "sóleyjar spretta". Ég svo sem svitnaði ekki út af því en komst við þessa athugun að því að vorvísan væri eftir Þorstein Gíslason, en á öðrum stað sagði þó að höfundur væri óþekktur, en að lagið væri þjóðlag. Litlu neðar á sama lista var svo þekkt íslensk söngvísa og þar var sagt að lagið við hana væri sænskt þjóðlag. Ég leitaði þetta uppi á sænsku og árangurinn varð þessi:      Vårvindar      Mér fannst þetta svolítið sniðugt og það eru ófá kvöld sem ég hef dundað mér við svona, að leita uppi í sænskum flutningi sænsk lög sem eru notuð við íslenska söngtexta, suma mjög þekkta.
 
Þessar vísu- og ljóðahugleiðingar minntu mig á ljóðalærdóm minn þegar ég var í barnaskóla hjá Kristjönu Jónsdóttur á sláturhúsloftinu á Kirkjubæjarklaustri. Ég man vel eftir því þegar Kristjana horfði með ánægju á mig og fleiri ryðja úr okkur í einum áfanga Gunnarshólma, Skúlaskeiði eða Fjallinu Skjaldbreiði, öll ljóð upp á einhverjar síður í skólaljóðunum ef ég man rétt. Löng voru þau alla vega og það var keppni milli okkar nokkurra að læra sem lengst ljóð í frívikunni heima. Í skóla vorum við aðra hverja viku eða annanhvern hálfan mánuð, líklega breytilegt frá ári til árs.
 
Einn morgun þegar ég vaknaði heima, daginn sem ég átti að fara með honum Ingólfi Magnússyni á kaupfélagsbílnum í skólann, þá áttaði ég mig á því að ég hafði ekki lært neitt ljóð heima. Hvert í hoppandi! Ekki sagði ég neinum frá þessu en tók skólaljóððin og lærði í flýti lítið ljóð sem heitir "Voða bágt á veslings Rútur". Þegar ég átti svo að fara með stórljóðið mitt fyrsta daginn í skólanum í það skiptið, stundi ég upp þessum þremur smá vísum. Kristjana horfði ekki á mig með neinni velþóknun í það skiptið en þau Ditti í Mörk, Gyða Siggeirsdóttir og líklega einhverjir fleiri nutu þeim mun meiri hylli. Ég man vel hvað ég skammaðist mín innilega fyrir þetta.
 
En það var hann Ingólfur Magnússon, sá prúði maður úr Meðalandi, sem við frá Kálfafelli fórum svo oft með í og úr skóla. Hann bjó í kjallaranum í sama húsi og ég svaf í vikurnar sem ég var í skólanum og einn veturinn þurfti ég að fara gegnum eldhúsið hjá honum til að komast úr og í herbergið mitt. Ég varð fyrir töluverðu einelti eins náunga þessi barnaskólaár mín og eitt sinn þegar ég var að fara úr eða í herbergið og var afar lítill og raunamæddur, þá tók Maggý kona Ingólfs eftir ástandi mínu.
 
Hún lét það ekki framhjá sér fara og talaði hlýlega við mig, tók létt um handlegg minn og gaf mér svo köku og mjólkurglas. Mér hafði fundist Maggý vera fáskiptin kona en eftir þetta vissi ég að hún átti sína hlýju og góðu hlið. Þetta hefur ekki komið upp í huga mér í kannski allt að sextíu ár, en í vísna og ljóðahugleiðingum mínum í morgun var sem þessi atburður birtist mér ljóslifandi. Ég sá fyrir mér litla matarborðið þeirra í einu horni eldhússins og ég sá fyrir mér Maggý, þessa konu sem átti hlýju til að deila til lítils grátandi stráks sem þá var væntanlega tíu eða ellefu ára. Mikið var ég henni þakklátur þá og ég finn til hlýju í hennar garð þegar ég skrifa þetta mörgum áratugum seinna.
 

Voða bágt á veslings Rútur.
Viljið þið heyra hvernig fór?
Hann var lítill labbakútur
en langaði til að verða stór.

 

Oftraustið er oft að meini,
um það sagan vitni ber:
Hræðilega stórum steini
steypti’ hann niður á tána’ á sér.

 

Flest má stærðarlögum lúta,
lítið þýða mun því enn
fyrir litla labbakúta
að langa til að sýnast menn.

 

                Stefán Jónsson


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0