Vafasamt fyrir viðkvæma

Ég var á fótum fyrir klukkan sjö í gærmorgun þar sem pípulangingamaðurinn ætlaði að koma klukkan sjö eða fljótlega þar á eftir. Ég reyndi að gera það mesta tilbúið sem ég hafði ekki gert þegar og grauturinn beið mín heitur á matarborðinu. Svo nálgaðist klukkan átta og þá kom pípulagningmaðurinn að bakdyrunum og bankaði. Á sama augnabliki hringdi Ove frá Vornesi og spurði hvort ég gæti unnið kvöldið. Með annan manninn í útidyrunum og hinn í símanum tók ég þá ákvörðun að biðja um að fá að hringja upp þann sem var á línunni.
 
Og hafragrauturinn var farinn að kólna á matarborðinu.
 
Því næst afgreiddi ég pípulagningamanninn og hugsaði minn gang varðandi vinnuna. Svo hringdi ég í Maríu sveitunga minn til að athuga hvort hún gæti opnað AA fundinn í kvöld þar sem ég yrði í Vornesi. Hún svaraði ekki þannig að ég hringdi víðar en án árangurs. Svo gekk ég á næsta bæ til að skrúfa fyrir vatnið. Píparinn ætlaði að byrja á því að ganga frá stoppkrananum inni á Bjargi. Í bakaleiðinni sá ég Lennart nágranna vera aðeins á undan mér á leiðinni heim til mín með sínu jafna taktfasta göngulagi. Hann gekk beina leið inn til píparans og ég var því feginn. Ég var í spreng!
 
Ég sem er vanur að gera eins og konurnar og setja mig á klósettið þegar ég pissa sleppti því í þetta sinn þar sem mér lá svolítið á. Ég, einbúinn, lokaði ekki heldur hurðinni á eftir mér þannig að ég stóð þarna býsna óvarinn. Svo var bankað á þvottahúshurðina og ég merkti samstundis að Lennart gekk inn örstutt fyrir aftan mig og ég blasti við honum. Hann bauð góðan dag og byrjaði að tala við mig, en hann sagðist geta beðið og hélt svo áfram að tala. Píparinn kom líka og stillti sér í röðina á eftir Lennart því að hann vildi líka hafa tal af mér. Það var mikið að tala í gær og þetta var svo sannarlega að verða spaugilegt.
 
Þar sem ég rembdist við að hitta í klósettið undir þessu ónæði byrjaði svo síminn að hringja í vasa mínum. Þá byrjaði ég að telja og var reiðubúinn að telja upp til hundrað ef á þyrfti að halda. Allt gekk þetta svo upp að lokum og ég svaraði í símann. Það var María sem var reiðubúin að opna fyrir fundinn. Þar með var allt klappað og klárt fyrir mig að fara í Vornes þegar ég væri búinn með ákveðin verkefni sem sköpuðust af vinnu pípulagningamannsins.
 
Svo helgaði ég mig þeim verkefnum eftir bestu getu, flýtti mér mikið, og dagurinn hélt áfram að vera margir hlutir í einu alveg þangað til ég varð að fara í sturtu og drífa mig af stað. Mín reynsla er að sumir dagar eru bara svona. Þegar ég fór var ég orðinn hundþreyttur en það var ögn seigt í gamla. Að koma í Vornes var eins og ég hef svo oft sagt áður eins og að koma í aðra tilveru. Ég vann þar mín verk fumlaust og kom svo heim um hádegi í dag.
 
Nánast um leið og ég steig út úr bílnum heima byrjuðu umræður og ráðagerðir með píparanum og mér, og áður en mér tókst að skipta um föt var ég kominn í byggingarvinnu á Vornesfötunum mínum, með hamar og sög og skrúfur og tól. En nú er pípulagningamaðurinn farinn fyrir fjórum tímum og kyrrðin ríkir ein á Sólvöllum ef ég nota orð Kiljans. Ég er þreyttur en nokkuð notalega þreyttur og ég ætla að láta kyrrðina ráða áfram á Sólvöllum.
 
Á næstu fimm dögum kem ég til með að vinna tvær nætur og hvor nótt tekur mig rúmlega sólarhring. Eftir það ætla ég um skeið að helga mig ýmis konar tiltekt, þrifum og endurskipulagningu á Sólvallaheimilinu. Það verður fróðlegt fyrir mig að vera mitt í þeirri þróun.
 
Það er greinilega einfaldast fyrir mig framvegis að loka baðhurðinni þegar ég er þar inni, jafnvel þó að ég sé einbúi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0