Að tapa fé

Ég var í Coloramaversluninni í Fjugesta í morgun, sama sem Málning og járnvörur, og var að borga sparslfötu sem ég keypti. Ég spurði Ing-Marie hversu mikið ég ætti inn á bónusreikningnum mínum. Hún fletti upp á kennitölunni minni og sagði að ég ætti inni 100 krónur. Svo bætti hún við að 31. október hefðu 289 krónur fallið út af því að tíminn var útrunninn. Jahá! Ég fann hvernig það var í þann veginn að þykkna í mér þegar mér tókst þó að segja; og þá fer ég á hausinn. 289 krónur sænskar eru nefnilega 5020 krónur íslenskar og svoleiðis hendi ég bara ekki frá mér sí svona. En leiðinlegt sagði Ing-Marie með hluttekningu. En því var ekki hægt að breyta þar sem Colorama er verslunarkeðja um alla Svíþjóð og það eru höfuðstöðvarnar sem hafa með þetta að gera.
 
Það eru orðin félagskort um allt og það kemur svo mikið af bréfum og tölvupósti út af þessu að það er orðinn hreinn frumskógur. Í fyrra var ég í TheBodyShop í Marieberg að kaupa birgðir af baðsápu og sjampói sem átti að kosta upp undir 1000 krónur. Viltu vera félagsmaður? spurði táningskona. Þá kostar þetta 650 krónur og þú færð þar að auki eina flösku í viðbót af baðsápunni. Og hvað gerir ellilífeyrisþegi? Nú, gerist félagsmaður og ég á ennþá nóg af baðsápu en sjampóið er að verða búið.
 
Svo var ég seint í haust að kaupa í Blomsterland og var með kort upp á bónus sem nam nokkur hundruð krónum. Þá rétti ég fram öfugt kort og afgreiðslustúlka sem var nánast á táningsaldri leit á kortið og sagði að þetta væri TheBodyShop kort. Fyrirgefðu sagði ég og ég sagði ennfremur að ég hefði fengið sms frá TheBodyShop daginn áður þar sem mér hefði verið boðið að koma á snyrtivörukynningu. Heldur þú að það hefði ekki verið skemmtilegt að sjá mig þar meðal smástelpna sem voru að láta mála á sér augabrúnirnar. Konan leit á mig samúðarfullu augnaráði og sagði að það hefði að vísu orðið svolítið neyðarlegt. Mér fannst það hógvært svar.
 
Og heima nú. Ég var að vinna út á Bjargi í gær. Nokkrar gipsplötur voru óvart 10 sm styttri en til stóð og það var mín eigin yfirsjón. Þetta horn kemur til með að lenda bakvið fasta skápa og er þar að auki í bílageymslunni. Eitt augnablik hugsaði ég sem svo að það sæi enginn að plöturnar næðu ekki niður í gólf. En sú hugsun varði ekki lengi. Síðan setti ég renninga í bilið.
 
Svo kem ég trúlega til með að renna málningarrúllunni yfir þetta líka. Ég kannski sparsla ekki vandlega þarna niður við gólfið bakvið skápana, en mér líður ekki vel með að kasta hendinni til þess sem lendir á bakvið -jafnvel þó að það lendi á bakvið. Svoleiðis er ekki að hafa hreint hús. Ég veit líka um konu eina í Stokkhólmi sem horfði á smiði  sem ætluðu að leggja eldhúsbekk á fastan sökkul án þess að ryksuga fyrst bakvið sökkulinn. Hún bað þá að hinkra við og gera hreint fyrir sínum dyrum; ryksuga fyrst. Svoleiðis geri ég líka. Ég vil gera hreint fyrir mínum dyrum eftir bestu getu. Ég var líka að vinna á Bjargi í dag.
 
Fyrstu helgi í mars fæ ég heimsókn. Kannski vinnum við líka saman þá nafnarnir eins og við gerðum í fyrra og þessi mynd sannar. Það er enginn kæruleysissvipður á okkur nafna mínum þarna. Það skal vanda til verksins og þá verða pönnukökurnar góðar. Það eru alltaf góðar pönnukökur á Sólvöllum. Kannski ég taki hálfrar uppskriftar æfingabakstur á morgun eða sunnudag til að vera í þjálfun þegar gestirnir koma. Ég get sjálfsagt rennt niður nokkrum pönnukökum hjálparlaust um þessa helgi en ekki væri verra ef einhver birtist til að sitja á móti mér við matarborðið.
 
Að lokum. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur flutti nokkur eða mörg af lögum Everts Taube til Íslands og gerði texta við þau. Ég birti hér eitt kunnuglegt sem Taube syngur sjálfur, fyrir meira en hálfri öld vænti ég. Þetta lag er til hér í afar mörgum útgáfum og mjög fallegum en þetta er vafalaust elsta útgáfan.    Vorkvöld


Kommentarer
Rósa

Þegar maður verslar í BodyShop þá láta þær alltaf vita ef maður á inni bónus og spyrja hvort maður vilji nota hann!

Svar: Það líkar mér vel. Ég fer þangað í næstu viku. Þetta er eins og í Coop, alltaf spurt hvort maður vilji nota bónusinn.
Gudjon

2014-02-22 @ 15:21:06
Björkin

Ekki væri slæmt að fá eina pönnsu.Hér er bara hrökkbrauð og bruður.Er að hugsa um að fara í bakaríið á morgun og svindla aðeins,,,,frétti að það væri komnar BOLLUR þar.Kveðja frá heilsubælinu.....Vandað handverk hjá þér að vanda.Krammmmmmmmm.

Svar: Dríbbðu í þessu með bollurnar mágkona. Kveðja frá Sólvöllum.
Gudjon

2014-02-22 @ 21:57:02


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0