Aldursforsetinn, en samt finnst mér sem ég sé ekki elstur

Síðasta blogg skrifaði ég á fimmtudagskvöldið var þann 6. febrúar. Ég var í dálítilli tímaþröng og birti bloggið óvenju lítið yfirfarið. Þá var kannski ónauðsynlegt að birta það en ef ég hef kjark til að blogga verð ég bara að standa undir því. Klukkan hálf eitt um nóttina var ég svo að strauja þvott í tilefni þess að ég ætlaði til Stokkhólms daginn eftir. Þegar ég lagði mig svo um eitt leytið datt mér bloggið í hug í svefnrofunum og velti því fyrir mér hver ósköpin ég hefði verið að birta þarna. Svo sofnaði ég og svaf vel.
 
Ég vaknaði ekki út frá neinum draum morguninn eftir, eða ekki fannst mér svo. En bókstaflega áður en ég opnaði augun var eins og örlög vinnufélaga minna í ráðgjafahópnum í Vornesi þegar ég byrjaði að vinna þar í ársbyrjun 1996 blöstu við mér og mér varð talsvert um. Mikið hafði verið á flesta lagt og þó að ég hafi fengið minn skerf var það ekkert annað en það sem má alveg búast við fyrir mann á mínum aldri. Ég þakka fyrir að þau örlög sem urðu hlutskipti allt of margra í þessum hópiu urðu ekki örlög mín. Mér fannst eins og einhver dulin tengsl væru milli bloggsins frá kvöldinu áður og þessarar upplifunar. Svo datt mér í hug að lesa bloggið en þorði ekki að horfast í augu við bullið í mér og ákvað að fresta því þar til ég kæmi heim úr Stokkhólmsferði minni.
 
 
Á leiðinni til Stokkhólms kom ég við í Västerås hjá henni Kristínu skólasystur minni. Af mikilli þolinmæði gaf hún mér nokkrar klukkustundir af tíma sínum. Ég segi svo vegna þess að mér fannst þegar ég fór þaðan sem ég hefði talað bróðurpartinn af tímanum. En hún kvartaði ekki og af hlýju fylgdi hún mér til dyra þegar ég loks ákvað að halda ferð minni áfram. Þá var komið svartamyrkur og það rigndi. Það sem eftir var af ferð minni til Stokkhólms gekk á með kröftugum rigningarskúrum og slydduéljum og ekki eina mínútu var alveg þurrt. Mér fannst samt að þessi notalegi tími með Kristínu réttlætti að ferðast við þessar aðstæður. Hefði ég ekki komið þar við hefði ég komið í björtu á leiðarenda.
 
Ég var að vona að þegar ég nálgaðist Stokkhólm mundi þorna heldur en svo varð ekki. Stórir regndropar og slydduslettur á bílrúðunum endurköstuðu götuljósunum og í myrkrinu og regninu, þrátt fyrir götulýsingu, þá bókstaflega þekkti ég mig ekki í Stokkhólmi. Staðir sem höfðu verið mér viðmiðun í öllum ferðum áður voru ósýnilegir, vegaframkvæmdir breyttu leiðinni og áður en ég fann Celsíusgötuna hafði ég ekið nokkra aukakílómetra og krókaleiðir á staði sem ég kannaðist alls ekki við að hafa sótt heim áður. Ég var mikið feginn þegar ég gat stoppað í Celsíusgötunni, hringt upp og sagt að ég væri kominn. Svo kom öll fjölskyldan og við hjálpuðumst við að bera inn fullfermi af eldivið.
 
Stokkhólmsferðin var góð og þarna heima hjá Rósu, Pétri og Hannesi hittust all margir Íslendingar eins og gjarnan gerist þegar ég er þar á ferðinni. Þá er líka það mesta íslenskt sem borið er á borð. Ég ætlaði ekki að nefna að ég hefði farið með við, en ég er búinn að sjá að Rósa er þegar búinn að segja frá því á feisbókinni. Svo þurftu þau að losna við þennan fína skáp sem eiginlega varð innlyksa hjá þeim þegar þau létu endurgera eldhúsið í fyrra. Þetta er mjög vel smíðaður og all stór skápur og nú er hann kominn hingað heim á Sólvelli og fer á alveg frábæran stað í dagstofunni.
 
Bílferð til Stokkhólms var því vel verð mæðunnar í þetta skiptið. Það var verðmætur farmur bæði fram og til baka. En ég er búinn að lofa mér því að koma ekki oftar akandi á bíl mínum til Stoklkhólms í myrkri og allra síst í rigningu. Næst ætla ég að fara með lest og njóta hvíldar á leiðinni.
 
Ég kom heim upp úr klukkan sex nú á sunnudagskvöldinu. Eftir að hafa kveikt upp í kamínunni og litið aðeins í kringum mig hér heima vogaði ég mér að lesa bloggið frá því á fimmtudaginn var. Mér fannst það ekki eins mikið rugl og ég átti von á og það er sterkt samband milli bloggsins og þess sem flaug gegnum huga minn í svefnrofunum morguninn eftir. Í fyrramálið fer ég í vinnu og ég er alltaf aldursforsetinn á þessum góða vinnustað. Aldursforsetinn, en samt finnst mér sem ég sé ekki elstur.
 
Mikið kvaddi Hannes mig vel áður en ég lagði af stað heim.


Kommentarer
Björkin

Ekkert er betra en barnsfaðmurinn.Svo fallegur og saklaus.Stórt krammmmmm.

2014-02-09 @ 22:18:10


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0