Fyrst smá grín að sjálfum mér og svo rammasta alvara

 Á sunnudaginn sneri ég heim frá Stokkhólmi vegna þess að ég átti að vinna mánudag og þriðjudag þann 10. og 11. febrúar. Klukkan eitt var ég frammi í Vornesi og gekk inn þar sem ráðgjafagrúppan og dagskrárstjórinn sátu og réðu ráðum sínum. Jahá, svo þú ert hér, sagði dagskrárstjórinn. Ég leit á vinnuskemann og sá að það var ekki reiknað með mér í vinnu. Mín fyrsta hugsun var að þarna hefði dagskrárstjórinn bleytt buxurnar sínar. Ég fór inn á tölvu og skoðaði meilið frá honum. Ég hafði verið beðinn að vinna mánudag og þriðjudag þann 10. og 11. mars. Það munaði mánuði og það voru sem sagt mínar buxur sem voru blautar.
 
Ég gerði mitt besta úr ferðinni og hitti marga í Vornesi og við spjölluðum um allt mögulegt og ég tafði fyrir. Síðan fór ég inn í Vingåker og gerði innkaup í kaupfélaginu. Meðan ég var þar inni datt mér töfrakonan í Vingåker í hug. Ég hringdi til hennar, en hún er smávinnandi ellilífeyrisþegi eins og ég. Komdu eftir hálftíma sagði hún og svo gerði ég. Svo nuddaði hún bakið á mér, stakk í mig mörgum nálum og nuddaði svo á mér fæturna. Síðan velti hún mér við, stakk nálum í mig frá hvirfli til ylja, fitlaði við hnakkan á mér og svo sofnaði ég.
 
Síðan fór ég heim, bara harð ánægður með daginn þrátt fyrir allt og í morgun var ég með harðsperrur. Hún virkaði sem sagt að vanda töfrakonan í Vingåker.
 
 
 
Í gærkvöldi ætlaði ég að fara snemma að sofa og hvíla mig vel eftir meðferðina hjá töfrakonunni. Ég svo sem lagði mig snemma undir ullarfeldinn og tók mér bók í hönd til að lesa smá stund. Ég var að lesa um þann raunveruleika sem finnst þarna langt út í heimi, svo langt í burtu að ég er mörg þúsund kílómetra frá því að heyra neyðarópin þeirra sem verða fyrir nauðgunum, barsmíðum, snörum um hálsinn, svipuhöggum á bak og bringu eða eru sprengdir meira og minna í tætlur.
 
Ég var svo spenntur vegna hugsanlegrar velferðar þeirra sem efnið snerist um -en trúlegra þó vaxandi þjáninga- að ég var að hugsa um að setjast á rúmstokkinn, en nei ég gerði það ekki því að ég var hræddur um að renna fram af rúmstokknum af æsingi. En að setjast frekar fremst á stólbrún? Nei, það var best að reyna að tolla undir ullarfeldinum.
 
Af hverju verkaði þetta svona sterkt á mig. Ég var bara að lesa skálsdögu. Fallbyssurnar af Navaróne var líka skáldsaga og þó að ég yrði spenntur við að lesa þær bækur, þá komst það ekki í líkingu við þetta. Nei, ég var ekki að lesa skáldsögu heldur skáldsögu um svo dagsannan raunveruleika. Nöfnin voru væntanlega flest eða öll ekki til en atburðirnir höfðu samt átt sér stað, ópin og þjáningarnar höfðu átt sér stað, óttinn og lömuð andlit barna sem upplifa brjálsemi hins fullorðna heims, á svo skelfilegan hátt að þau munu aldrei bera þess bætur. Konur sem eru barðar ef þær hafa skoðun, fólk sem missir hendur ef það er að ganga í öfuga átt.
 
Þar sem brjálsemin ríkir er tilveran svo sannarlega brjáluð.
 
Svo ligg ég hér undir ullarfeldinum mínum og les um þennan ógnarlega sannleika, undir ullarfeldinum sem kostaði mig fleiri krónur en þetta fólk vinnur fyrir á mörgum árum. Svo á ég bágt, mig langar að upplifa sólskinið, fegurðina, vináttuna, fjölskyldusamveruna á sama tíma og hitt fólkið á sér bara þá ósk að drápunum, barsmíðunum og þjáningunum linni. Ég var að lesa um það sem fréttirnar segja frá en það er búið að segja þessar fréttir svo oft að það er komið upp í vana.
 
Svo tekur rithöfundur sig til og færir mér þennan heim upp í rúm til mín og gerir hann svo lifandi að ég er kominn í þungamiðju brjálseminnar og er á mörkunum að brjálast sjálfur af því að upplifa þetta með aumingjans fólkinu.
 
Ég talaði við Pál bróður minn í síma áðan. Ég sagði honum að ég færi nánast í fýlu ef það væri ekki til granatepli heima. Ég valdi skáp undir handlaug um daginn. Svo vann ég óvænt eina nótt og þá tók ég dýrari skáp sem nam næstum laununum fyrir nóttina. Ég valdi sturtuhurðir nokkrum döngum seinna og svo vann ég óvænt aðra nótt og þá valdi ég dýrari sturtuhurðir, næstum því sem nam laununum fyrir þá nótt. Ég sem sagt velti mér upp úr vellystingunum.
 
Þegar klukkan var orðin hálf tólf var ég að lesa um brjálæðiskast í heimahúsi þar sem eiginmaður var að berja konur sínar tvær. Hann var 30 árum eldri en önnur þeirra og 45 árum eldri en hin. Þær voru ekki nákvæmlega eins og hann vildi og þess vegna voru þær barðar þetta kvöld -af sömu ástæðu og öll hin kvöldin. Það stefndi í manndráp og þess vegna var ég næstum að velta út úr rúminu af skelfingu. Klukkkan var rúmlega tólf þegar annarri þeirra tókst að drepa manninn með skóflu og þá komst á kyrrð, ekki bara í ákveðnu húsi út í Kapúl, það komst líka á kyrrð hér heima og stuttu síðar sofnaði ég, löngu seinna en til stóð.
 
I fallbyssunum af Navaróne var sagan upplogin til að vera afþreying fyrir mig. Í gærkvöldi var ég að lesa um lífið eins og það er á ákveðnum stað út í heimi.
 
 


Kommentarer
Anonym

Takk fyrir rúgbrauðið,það var mjög gott og núna bíð ég eftir nýrri sendingu eða að konan baki eftir þinni uppskrift.

Svar: Já, hvort heldur sem er. Ég hef gaman af að baka rúgbrauð og er alltaf vel birgur af því. Bara að láta vita.
Gudjon

2014-02-12 @ 17:46:00
Björkin

Er að borða granatepli hér á bælinu í fyrsta sinn.Mjög góð.Kær kveðja .

Svar: Þegar ég las þetta var ég að borða epli. Svo ætla ég að lesa bók um stund og sennilega að fá mér granatepli eftir svo sem klukkutíma lestur. Kveðja til baka.
Ps. Það væri gaman að heyra hverju granateplið var blandað í á heilsuhælinu,
Gudjon

2014-02-13 @ 20:27:15
Anonym

Granateplið var blandað í melónubita,rosagott.Örugglega mjög gott með rjóma eða grískri jógúrt,en það er ekki í boði hér.Kveðja á þig mágur sæll.

Svar: Þá veit ég það. Ég held að ég muni nú velja jógúrt en kannski ætti ég að prufa hitt líka. Lætur samt svolítið magurt. Kveðja til baka.
Gudjon

2014-02-14 @ 20:48:47


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0