Þegar eldurinn verður að glóð

Ég var búinn að setja mér það markmið að vera kominn í rúmið fyrir hálf ellefu. En fyrst ég er byrjaður á bloggi er það hæpið. Ég hef þá bara 10 mínútur til stefnu.
 
Ég kveikti upp í kamínunni eftir frekar síðbúinn kvöldmat. Síðan var ég á röltinu svona fram og til baka eins og oft gerist hjá mér. Ég þurfti að leita að orði í orðabókinni, að mæla smávegis út á Bjargi, var að hugsa um að senda málaranum tölvupóst, fékk mér granatepli í jógúrt og fór í ferðalag á netinu. Svo var auðvitað þetta að bursta og pissa og ég velti fyrir mér á meðan hvað það var í morgun sem var svo mikilvægt að ég hafði hugsað mér að blogga um það. Nú man ég það ekki.
 
Þannig er kvöldið farið. Annars hittumst við fimm Íslendingar heim hjá Auði og Þóri sí svona til að fá okkur eftirmiðdagskaffi. En viti menn, það varð ekkert sí svona því að Auður var búinn að baka tvær þessar líka góðu og orkumiklu kökur. Eplakakan var með miklu af eplum alveg eins og mér finnst að eplakökur eigi að vera. Og súkkulaðikakan var með miklu súkkulaði, líka alveg eins og súkkulaðikökur eiga að vera.
 
Þegar Auður bauð mér að taka tertusneiðar með mér heim sagði ég nei takk með munnvatnið takandi boðaföll upp í munni mér. Svo þegar ég var búinn að borða kvöldmatinn heima hjá mér sá ég eftir að hafa ekki tekið með tertusneið til að hafa í eftirrétt. En nokkuð ánægður lét ég svo granatepli í 15 % feitu kremfres duga.
 
En nú er ég kominn inn að rúmi þar sem tölvan mín er. Eftir smá stund ætla ég að leggjast á koddann og lesa í bók þangað Óli L hefur tíma til að vagga mér í svefn. Á meðan ég les ætla ég að gera eins og svo oft áður; ég ætla að líta öðru hvoru fram að kamínunni þar sem ég hef hurðina þangað fram opna. Þannig ætla ég að fylgjast með eldinum smá hjaðna og þegar ég sé að hann er orðinn að kyrrlátri glóð veit ég að nóttin er líka að taka yfir í kamínunni.
 
Bókin sem ég ætla að lesa heitir á sænsku Ved, viður. Bók sem hún Fanney Antonsdóttir, búsett í Ósló en er ein af dætrum Hríseyjar, bara sendi mér fyrirvaralaust og án þess að það væru jól eða stórafmæli. Hún er búin að gefa mér skýringu á nafninu sem með hennar eigin orðum er á þessa leið: "Orginaltitillinn á bókinni er "Hel ved" sem er líka lýsing á manneskju sem er heil, ekta, hægt að treysta. Fannst það svo fínt." Svo sagði Fanney.
 
Og víst var þetta fínt hjá Fanneyju. Við getum einfaldlega sagt að þess betur unninn og verkaður sem viðurinn er, þeim mun auðveldara er að fá upp góðan eld í kamínunni, hann brennur með fallegri loga, hitar betur, glóðin dansar með meiri þokka í lokin og reykurinn sem kemur upp úr skorsteininum er hreinni, næstum ósýnilegur. Hann sem sagt er vistvænn og sótarinn hefur minna að hreinsa. Það er "hel ved".
 
En hvað er þá heil manneskja? Jú, Fanney sagði það, hún er ekta og hægt að treysta. Og hver ræður því hvort við erum ekta eða hægt að treysta? Hver getur verið meira ábyrgur fyrir því að ávaxta mína góðu eiginleika en ég sjálfur? Enginn. Ég hef með mína eigin verkun að gera en ég verka líka viðinn sem er nú að brenna út í kamínunni.
 
Svo horfði ég á sjónvarpsmessu í morgun og presturinn sem predikaði var ekki svo mikið meirta en tuttugu og fimm ára kona. Hún talaði um að þó að við séum trúuð geti efinn sótt okkur heim, vafið okkur um fingur sér, en að okkur beri að óttast ekki. Svo víkur efinn og trúin verður einlæg á ný. Hún talaði um að vera heil manneskja. Mér þótti afar notalegt að hlusta á hugleiðingar þessarar ungu konu. Svo þegar ég stóð upp úr stólnum að messu lokinnni datt mér í hug bókin frá henni Fanneyju og þar með er ég aftur kominn að því sem ég hugsaði í morgun en var búinn að gelyma. Orðin sem ég lindaði hugsanir mínar inn í í morgun hafa hins vegar ekki komið til baka, þau eru önnur núna.
 
Ég þarf ekki að flygjast lengur með því frá koddanum að eldurinn í kaminunni verða að glóð. Hann er þegar orðinn að glóð og dansinum er lokið. Aðeins örlítil kyrrlát glóð er eftir. Ég kem til með að leggja mig 70 mínútum seinna en ég hafði lofað sjálfum mér.
 
Pastor Eleonore Gustafsson, sú sem predikaði í messunni í morgun. Myndin er tekin við predikunina og blómaskreytingin er sú sama. Þegar ég horfi nú á myndina af þessri konu hugsa ég; hún var ótrúlega flott og áheyrileg í messunni


Kommentarer
Rósa Jónasar

Bloggið þitt hefur sömu áhrif á lesandann, maður fer seinna að sofa en maður ætlaði því það er svo gaman að lesa það :)
kveðjur frá Gautaborg.

2014-02-24 @ 23:12:56
Guðjón

Nei komdu sæl Rósa. Gaman að heyra frá þér og gaman að þér þyki gaman að lesa bloggið. Ég er alltaf að tala um að fara norður í land en ég þyrfti endilega að koma mér suður í land líka. Ég þarf að fara mikið og endilega með góðan eldivið í farangrinum líka.

Með bestu kveðju til ykkar allra.

2014-02-24 @ 23:39:59
URL: http://www.gudjon.blogg.se
Rósa Jónasar

Mikið væri nú gaman ef þú kíktir til okkar. Vertu ævinlega velkominn, gestarúmið bíður þín.

2014-02-25 @ 23:32:12
Guðjón

Þakka þér fyrir Rósa mín. Bestu kveðjur til ykkar allra.

2014-02-26 @ 00:18:26
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0