Rugludallur

Ég kom hálf ringlaður heim undir hádegið í dag eftir all skarpa vinnutörn. Þrjár nætur nánast í röð breytir aðeins tímaskyninu. Ekki það að ég sef þegar ég vinn svona en bæði fer ég þá seint í bólið og snemma upp. Nú er törnin á enda og engin vinna aftur fyrr en eftir þrjár vikur. Það væri berta heldur jafnara en ég tek því sem að höndum ber í þessu sambandi.
 
Tími stutterma nærskyrtunnar virðist vera liðinn. Það er bara orðið of hlýtt til að ég geti klætt mig þannig, alla vega ef ég fer í vinnu. Á kaldasta tímanum var það hins vegar nauðsynlegt. Ég byrjaði á að líta á tíu daga veðurspá sænsku veðurstofunnar á netinu þegar ég kom heim. Einhverjar tvær nætur af þessum níu sem sjást í spánni er spáð eins og tveggja stiga frosti. Síðan leit ég á fimm daga spána á textavarpinu og hún bara staðfesti hina spána. Þetta eru hreinu hlýindin miðað við árstíma.
 
Það var gott að koma heim. Ég byrjaði á smá yfirlitsferð hér heima og varð harla glaður. Mig langaði að skipta strax um föt og drífa mig svo út til að vinna að nauðsynlegum hlutum. Svo glímdi ég við mig í fáeinar mínútur og ákvað svo að vera skynsamur og ganga frá þvotti sunnudagsins. Ég þarf að strauja fimmm skyrtur og einar buxur og brjóta saman öðrum þvotti. Ég er svolítið gjarn á að finna út að annað sé mikilvægara "akkúrat núna" en þá verður útlitið ekki svo skemmtilegt á heimilinu mínu. Í dag verður það því þvottur og innanhúsverk. Ég er búinn að fá mér léttan hádegisverð, öfugt við það sem ég á að gera. Síðan verður það þyngri kvöldverður, líka öfugt við það sem ég á að gera.
 
Ég gerði sultu á sunnudaginn var. Svo smakkaði ég á sultunni aðeins volgri og mér fannst þetta bara vera sykurleðja. Þá varð ég svolítið svekktur og trúði því að mér hefði mistekist. Þegar ég var að leggja af stað í vinnuna í gær sneri ég við í útidyrunum og sótti pínulitla krukku með sultu og tók með mér. Í morgun þegar ég var búinn að skila af mér húsinu leit ég inn í eldhúsið til að athuga hvernig stæði á. Jú, það stóð vel á.
 
Ég fór í töskuna mína, sótti litlu sultukrukkuna og með hendur fyrir aftan bak gekk ég inn í eldhðúsið og sagðist eiga leyndarmál. Þær þrjár í eldhúsinu urðu forvitnar. Ein þeirra var 22 ára, önnur 45 ára og sú þriðja 66 ára. Svo rétti ég fram krukkuna og spurði hvað hægt væri að gera þegar sulta væri of sæt. Sú elsta sagði að það væri ekki svo mikið að gera annað en láta sig hafa það. Svo vildu þær smakka en spurðu fyrst hvort sultan hefði ekki verið köld þegar ég smakkaði á henni. Nei, hún var volg.
 
Ég sótti þrjár teskeiðar og fyrst smakkaði sú yngsta. Þetta er fínt sagði hún. Þetta verður sko fínt ofan á ristað brauð með osti. Svo smakkaði sú elsta og sagði, Guðjón, láttu ekki svona, þetta er fín sulta. Að lokum smakkaði hún sem er 45 ára og hún var hinum tveimur sammála. Svo vildu þær vita hvað væri í sultunni og það voru jú persimónur, mandarínur, sykur, engifer og sítrónusafi.
 
Mér fannst þetta svolítið sniðugt. Ég smakkaði sultuna líka eftir að hún kólnaði og fannst hún allt of sæt þá líka og svo fékk ég að heyra þetta hjá þaulvönu starfsfólki í eldhúsi. Nú kemur rúsínan í pylsuendanum. Létta hádegisverðinum mínum lauk ég með ristaðri brauðsneið með osti og sultunni minni ofan á. Og viti menn; sultan er fín! Ætti kannski frekar að kallast marmelaði.
 
Ég var búinn að bíta í mig að hún væri of sæt og eftir það sagði heilinn að hún væri of sæt. Nú er ég harðánægður með sultuna mína. Í staðinn báðu svo Vorneskonurnar um rúgbrauðsuppskriftina sem ég nota. Mín var ánægjan
 
Hér með er ég tilbúinn í innanhúsverkin.
 
Litla sultukrukkan. Rósa og Pétur eiga krukkuna EN ÉG Á SULTUNA!


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0