Ringlaður ellilífeyrisþegi og matargerð hans

Það er ekki alltaf auðvelt lífið í höfuðstöðvum Mammons í Marieberg, ekki fyrir ráðviltan ellilífeyrisþega. Þar var ég í dag og ætlaði að velja spegil eða skáp yfir handlaugina á nýja baðinu. Ég byrjaði í K-rauta og tók hitadunkinn en skoðaði ekki skápinn þar, ég hafði gert það áður. Svo fór ég í Bauhaus og eftir frekar stutta stund þar var ég orðinn alveg kol ringlaður. Það var um allt of margt að velja.
 
Hvað skyldi það eiga að vera? Skápur með spegli og ljósi ekki innstungu eða bara spegill með ljósi yfir og innstungu við hliðina . . . . og innan skamms voru möguleikarnir orðnir fleiri en mér hafði með nokkru móti getað dottið í hug áður en ég kom þarna inn. Svo var verðið frá einhverju aðgengilegu og upp í alveg svimandi upphæðir. Þarna þótti mér erfitt að vera einn og ég varð dauðþreyttur. Ég yfirgaf Bauhaus og fór yfir í IKEA.
 
Ekki lagaðist það í IKEA og ég varð ennþá ringlaðri. Svo leit ég í spegil á skáp sem hafði ekki áfast ljós og enga innstungu og leit allt í einu á sjálfan mig. Mér fannst ég vera orðinn gamall maður! Mér féllust hendur og fór beina leið yfir í stóru verslunarmiðstöðina, Galleríuna, og leit á matinn í veitingahúsinu við innganginn á neðri hæðinni. Nei, ég var ekki ánægður. Ég fór upp einn stiga og leit inn á veitingahúsið beint fyrir ofan það fyrra. Við Valdís borðuðum stundum þar og á móti mér kom veitingamaðurinn og það var eins og hann kannaðist við mig.
 
Svo keypti ég mig inn á hlaðborðið og fékk alveg dúndur máltíð. Ég hefði getað borðað meira en ég var bara búinn að borða svo mikið að mér fannst ekki koma til greina að halda áfram. Á leiðinni út gekk ég til veitingamannsins þar sem hann stóð meðal starfsfólks síns og spjallaði. Ég sagði honum að þetta hefði verið alveg meiri háttar máltíð. Hann sagði að ég mætti alveg koma aftur. Meðan ég var að borða hugsaði ég mér einmitt að gera það.
 
 
 
Í gærkvöldi var veisla á Sólvöllum. Fyrst brytjaði ég einn og hálfan hvítlauksfleyg, engifer á stærð við tvær sveskjur, einn rauðlauk, einn gulan lauk, einn charlottenlauk. Steikti þetta á pönnu í hreinu smjöri við frekar vægan hita. Meðan þetta var að steikjast brytjaði ég einn vænan tómat og tvö epli og setti á pönnuna þegar laukurinn hafði steikst í svo sem tvær til þrjár mínútur. Reif piparrót yfir allt saman. Lét allt hitna og helti svo á smávegis rjóma, þremur teskeiðum af creme fraiche með parmesan og hvítlauk og tvær kúfaðar teskeiðar af kaldhrærðri týtuberjasultu (lingonsultu). Þegar ég byrjaði að steikja þetta setti ég norskan lax í 170 gráðu heitan ofninn með mæli í fiskinum. Lét laxinn hitna upp í 65 gráður. Þá var veislumaturinn tilbúinn. Þó að ég ætti ekki í ísskápnum það sem ég hefði viljað eiga var pönnurétturinn alveg frábærilega góður, mikið betri en ég átti von á.
 
Fyrr í vikunni var það sem hér segir: Fyrst brytjaði ég einn og hálfan hvítlauksfleyg, engifer á stærð við tvær sveskjur, einn rauðlauk, einn gulan lauk, einn charlottenlauk. Steikti þetta á pönnu í rapsolíu við frekar vægan hita. Meðan þetta var að steikjast brytjaði ég niður einn tómat, eina rauða papriku, eina kalda kartöflu, eina frekar stóra palsternaka, hálft brokkólíhöfuð, setti þetta á pönnuna og reif piparrót yfir. Þegar allt var orðið heitt bætti ég á smávegis tómatsósu, ennþá minna af sinnepi, og þrjár teskeiðar af creme fraich með sólþurrkuðum tómötum og fetaosti. Þegar þetta var tilbúið sótti ég tvö væn kryddsíldarflök niður í kjallara og svo borðaði ég virkilega nægju mína.
 
Þegar ég fæ mér miðdegiskaffi sýð ég oft fáeinar kartöflur, brokkóli, rósakál og palsternaka og á þetta svo kalt í ísskápnum til að nota í pönnuréttinn. Einn og hálfur hvítlauksfleygur, engifer á stærð við tvær sveskjur, einn rauðlaukur, einn gulur laukur, einn charlottenlaukur er eiginlega fasti upphafspunkturinn í þessa pönnurétti sem ég borða með því mesta. Ef ég ætla að hafa ýsu eða þorsk með nota ég meiri tómatsósu. Það er eins og týtuberjasultan sé alltaf góð til að blanda í þennan pönnurétt. Rjómann nota ég eftir lundarfarinu.
 
Svo er það stundum svo einfalt að ég sýð þorsk eða ýsu og kartöflur. Svo stappa ég það saman með gaffli og set væna flís af ekta smjöri saman við. Svo gerði ég þegar ég man fyrst eftir mér og mér finnst þetta stórgott enn í dag. Svo er það margt fleira en heita kjötmáltíð hef ég ekki útbúið í marga mánuði.
 
Af hverju er ég svo að birta þetta? Jú, ég er ekki að kenna matargerð en ég svara öðru hvoru spurningum um hvort ég borði nægjanlega. Meira að segja presturinn Nisse vildi vita þegar hann kom í húsvitjun hvort ég hirti um að borða góðan mat. Væri ég kona mundi fólk ekki spyrja eftir þessu, en ég er einfaldlega ánægður yfir að fólk lætur sér annt um mig. Þakka ykkur fyrir það.
 
Sá sem getur giskað á hvað þetta er mun við heimsóln á Sólvelli fá að smakka granatepli í íslensku skyri sem framleitt er í Svíþjóð. Svona leit síðbúinn eftirrétturinn út á Sólvöllum þetta laugardagskvöld, það er að segja áður en ég blandaði skyrinu í hann.


Kommentarer
Björkin

Mikið er þetta gyrnilegt hjá þér ,fæ bara vatn í munninn.Krammmmmmmmm

Svar: Þetta svíkur engan.
Gudjon

2014-02-01 @ 22:31:41
Svanhvit

Þú ert duglegur Guðjón Hríseyingur. Sit núna og borða morgunmat í Gambíu og les Blogg

Svar: Já Svanhvít Gambíi. Gaman að fá kveðju frá þér. Mig grunar að það sé dálítill munur á hitastiginu hjá okkur. Hér er einhver gráða í plús og auðvitað allt hvítt af snjó þó að það hafi hurnið af þakinu hjá mér í gær. Ég sá mynd af Tryggva á fb fyrir fáeinum dögum í félagsskap innfæddra. Nú panta ég líka mynd af þér, endilega. Svo vona ég að þetta verði góð ferð hjá ykkur. Ég las líka á fb að þú hefðir fundið þig sem 45 ára og svo hefðir þú farið á ströndina. Þetta lítur vel út.
Með bestu kveðju til ykkar frá Guðjóni
Gudjon

2014-02-04 @ 09:58:49


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0