Öðruvísi dagur

Jahérnanahér! Það hefur ekki verið gert svo mikið á Sólvöllum í dag þar sem við  höfum verið á mannamótum inn í Örebro. Fyrst hittum við íslendinga sem eru staddir í Örebro og komu með sendingu til okkar frá Valgerði og  fjölskyldu. Við hittumst í Sveppinum en Sveppurinn er svamplaga vatnsgeymir norðarlega í Örebro. Hann er 58 metra hár og rýmir 9000 tonn af vatni. En efst upp í Sveppinum er líka veitingahús og þar hittum við Íslendingana til að taka við jólasendingunni frá Eyjum. Það voru teknar nokkrar myndir þarna og ég ætla að láta þær tala.


Hér eru nefnilega þrjár kynslóðir á ferðinni. Ef við byrjum til hægri er jú Valdís fjærst. Síðan kemur Guðbjörg Guðmndsdóttir sem er saumaklúbbsfélagi Valgerðar í Vestmannaeyjum og hún er mamman í hópnum. Við hliðina á henni er svo amman. Á móti þeim sitja börnin hennar Guðbjargar og fjær er Guðmundur sem býr í Örebro það var hann sem fékk þessa stórheimsókn frá fósturlandinu. Nú var það svo óréttlátt að þegar þessi mynd var tekin var amma að hagræða gleraugunum sínum þannig að við birtum aðra mynd.


Hér vantar Guðbjörgu þar sem hún var jú að taka myndina en ég má til með að tala svolítið um ömmu. Þegar við vorum öll komin að borðinu áttaði amma sig á því að hún hafði farið rangt með eitthvað sem hún hafði pantað í afgreiðslunni þannig að hún sneri við og sagðist ætla að segja þeim það. Eitt augnablik hugsaði ég sem svo að hvernig hún ætlaði að gera það. Svo var ekkert meira með það. Síðar í spjalli okkar þarna við borðið fór amma að tala um Stensunds lýðháskóla og þá fór ég nú að sperra eyrun. Það hafa svo margir nemendur frá þessum skóla komið í starfsæfingu í Vornesi. Já, sagði amma, þegar ég innti hana meira eftir þessu, ég var þar við nám. Þessi skóli er skammt frá Trosa við austurströndina og það er afskaplega fallegt þar. Ég kannaðist vel við þetta að skólinn er skammt frá Trosa og það er orðlögð fegurð á þessu svæði.

Það var nú orðið svolítið gaman að þessu og þó að það sé orðin hálf öld eða meira síðan amma var þarna talaði hún nefnilega reiprennandi sænsku. Þar með skildi ég hvernig hún hafði leiðrétt sig við kassann. En hvað sem þessu líður, þá var gaman að hitta þetta fólk og ekki síst vegna þess að Guðbjörg þekkir okkar fólk í Eyjum.


Svo verð ég auðvitað að birta þokkalega mynd af öllum. Guðmundur er nýlega orðinn pabbi og það hefur líklega verið ástæðan til að systirin, mamman og amman komu í heimsókn einmitt núna. Læt ég þetta hér með nægja um Íslendingamótið í Svampinum í Örebro


Við Valdís fórum beint úr Svampinum og í gömlu kirkjuna okkar á hinn álrega jólakonsert. Þar gleymdi ég gipsplötum, steinull, sög og hamri og hlustaði hugfanginn á tónlistarfólkið með skáröndótta bindið mitt um hálsinn og í dökkbrúna flaujelsjakkanum minum. Það urðu fagnaðarfundir með Valdísi og kórfélögunum hennar, en hún hefur ekki tekið þátt í kórstarfinu síðan við fluttum á Sólvelli. Ég held að þetta hafi hálf kveikt í henni að byrja aftur og ef hún vill gera það sé ég um ferðirnar.

Eftir konsertinn var svo jólaborð í kirkjunni. Ekki fór mikið fyrir hangikjötinu eða ofnsteikta lambshryggnum en það var nóg að borða samt sem áður. Ég byrjaði að vanda á síldinni, graflaxinum og ferska laxinum. Svo fór ég að fá mér meira og fór þá í síldina, graflaxinn og ferska laxinn og eftir það gat ég ekki borðað meira. Svona er það alltaf þegar ég fer á jólaborð, ég fer aftur og aftur í síldarrétti og laxarétti og svo er ég saddur. Kynlegur kvistur ég.

Ég heyri hér fyrir aftan mig að Valdís er komin í félagsskap með Óla Lokbrá og það er best fyrir mig að koma mér þangað líka. Ég er búinn að bursta og pissa svo að það er ekki eftir neinu að bíða enda er klukkan orðin hálf eitt. Takk fyrir stundina í Svampinum þið Íslendingar og eigið góða helgi í Örebro.


Kommentarer
Valgerður

Fínar myndir úr svampinum.

vG

2010-12-13 @ 10:05:39


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0