Þvílíkur laugardagur

Það er búið að ske mikið á Sólvöllum í dag. Að vísu byrjaði dagurinn seint þar sem okkur ellilífeyrisþegunum þykir vænt um rólegan morgunverð og hann getur dregist á langinn svo um munar. En þrátt fyrir það varð vinnudagurinn heilir átta tímar og allt gekk eftir áætlun. Ég var utandyra og gekk til verks með skemmtilega smíðavinnu sem miðaði að að því að draga fram síðustu línurnar sem gefa húsinu okkar þann arkitektúr sem hugsaður var í upphafi fyrir nánast nákvæmlega ári síðan.

En innan við nýju gluggana var húsmóðir Valdís að vinna við eldhúsbekkinn. Hún var að baka úr degi sem hún gerði klárt í gær en svo þegar til kom fannst henni það ekki nóg svo að hún byrjaði að hnoða ný deig og lét sig ekki fyrr en hún var búin að baka allt sem hún hafði ætlað sér að baka til jólanna. Og þó, að því er ég best veit bakaði hún eina umfram sort sem ekki var með á listanum fyrr en seinni partinn í dag.

Er ekki kaffi núna kallaði hún út þegar eiginlega var matartími. Jú, það er kaffi svaraði ég. Þegar ég kom í dyrnar ilmaði bæði mikið og alveg rosalega gott. Sælkerinn og græðgin alveg sturluðust í mér og ég gerði nokkuð sem ég geri mjög, mjög sjaldan nú orðið. Ég fékk mér mjólk í glas og tók til við að smakka volgar kökur. Það er ekki hægt að hæla fyrir baksturinn nema smakka. Og Valdís hafði sett í sérstakan dunk kökurnar sem ekki voru alveg fyrsta flokks fallegar. Þær byrjaði ég að smakka og þegar ég hafði byrjað smökkunina var ég hreinlega dottinn í það. Svo fékk ég mér meiri mjólk og smakkaði aðeins meira. Svo byrjaði ég að skammast mín.

Ég auðvitað þurfti að bregða mér inn oftar til að smakka og alltaf smakkaðist allt vel. Eftir átta tíma vinnu var ég búinn með nákvæmlega það sem ég hafði sett mér fyrir í morgun og þegar ég kom inn var Valdís líka búin með það sem hún hafði ætlað sér að gera og gott betur. Hún hafði hreinlega farið hamförum allan daginn. Klukkan átta byrjaði vikulegur sjónvarpsþáttur sem ég horfi á. Þátturinn er góður en þó hefur hann einn galla. Það koma auglýsingar með svo sem fimmtán mínútna millibili. Ég notaði tímann meðan auglýsingarnar stóðu yfir og gekk inn að tölvu og þóttist vera að gera eitthvað þar. En sannleikurinn var þó sá að ég brá mér þetta til að éta úr dunknum með kökunum sem voru ekki nógu fallegar.

Á morgun er nýr dagur og sem býður upp á skemmtileg verkefni en líka kökudunk að berjast á móti. En ég veit að þó að mér takist að berjast á móti kökudunknum verð ég jafnframt skyldugur að smakka á brúnu lagtertunni sem Valdís ætlar að setja hvítt krem í á morgun. Tertan býður eftir kreminu hér fram á elhúsborði. En hvað sem því líður ætla ég að ljúka við verkið sem ég hef unnið að í dag og annað kvöld verður Sólvallahúsið búið að fá endanlega svipinn. Ég þarf að byrja snemma og því fer ég snemma til fundar við Óla Lokbrá. Á morgun er líka sjónvarpsmessa sem ég vil ekki missa af.

Hver veit nema við birtum myndir af húsi annað kvöld, húsi sem verður búið að fá þann svip sem það á að bera til frambúðar.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0