Margt fínt hefur drifið að í dag

Það eru þrjú ár síðan við fórum inn í K-rauta byggingarverslun í Örebro og keyptum klósett sem er hengt á vegg. Það kostaði 3400 Skr. Viku seinna gengum við í gegnum verslunina og þá sáum við að klósettið kostaði 2400 Skr. Þá fengum við á tilfinninguna að við hefðum tapað fé. Stuttu síðar var verðið komið upp í 3400 kr á ný. Fólkið í versluninni sagðist ekkert vita um svona lagað fyrr en það dytti á án nokkurs fyrirvara, enda væri eins gott að vita ekki um það. Það mundi gera hverja manneskju vitlausa að þurfa að þegja yfir því þegar fólk væri að kaupa að á morgun yrði verðið þriðjungi lægra.

En sannleikurinn er sá að við höfum líka verið heppin all oft. Um daginn vorum við í versluninni í Fjugesta þar sem pósturinn er afgreiddur og við kaupum alla málningu. Þar gengum við að stafla af eikarparketi og einmitt þá bar að Ing-Marie sem vinnur þarna og hefur oft hjálpað okkur. Við fórum að tala um parketið og að það væri mjög vandað miðað við verð. Já, sagði Ing-Marie, við munum aldrei framar geta haft þetta parket á þessu verði. Þessi framleiðsla er ný og verður mun dýrari framvegis. Við kaupum það sögðum við og við þurfum 50 m2. En þá vantar tvo m2 svaraði hún. En sjáum nú til, við reynum að útvega þá en verðið á þeim tveimur verður kannski ekki það sama.


Í dag fórum við til Fjugesta og sóttum þessa 50 m2 af eikarparketi og fengum allt á verði sem aldrei verður hægt að bjóða upp á aftur. Það var alveg ótrúlega gaman að bera þetta inn í nýbygginguna og stafla því snyrtilega undir suðurgluggann. Fimm plötur voru lausar og ég bara mátti til með að krækja þeim saman og taka af þeim mynd. Ég hef ekki minnsta grun um að Ing-Marie hafi bara sagt þetta um verðið. Við komum þarna svo oft og munum taka eftir því verði sem síðar verður boðið upp á. Núna liggur þar frammi parket sem er mun mikið dýrara. Það er gott að finna minni verslanir þar sem verða svolítil persónuleg kynni.

En nú var það svo að við vorum líka að sækja pakka í póstinn og þegar parketið var komið á kerruna tókum við pakkann. Sendandi sýndi sig vera Guðný systir mín á Skagaströnd. Og nú verð ég að birta fleiri myndir.


Meðal þess sem kom upp úr pakkanum voru þessar ótrúlega fínu kúlur. Það var erfitt að ná mynd af þeim þannig að fínleikinn kæmi almennilega í ljós. Hér gerði ég tilraun með að taka mynd af þeim á bútasaumsteppinu sem Valgerður dóttir okkar saumaði. En svona kúlur eiga jú að hanga þannig að við tókum af þeim aðra mynd.


Þá litu þær svona út. Mikið er það fínt þegar fólk tekur sig til þegar það hefur lokið vinnuferli sínum og gerir svona lagað. Við Valdís vorum alveg undrandi þegar við tókum þetta upp úr pakkanum og virtum fyrir okkur þetta fallega handverk. En hér var ekki staðar numið.


Þessi fallega málaða kanna kom líka upp úr kassanum. Við vissum að Guðný væri góð handavinnukona en hér kom hún okkur alveg á óvart. Ég var með fleiri myndir af könnunni og átti erfitt með að velja milli þeirra þannig að ég læt aðra mynd fylgja.


Hér læt ég þessari myndaseríu lokið en segi bara; mikið er gaman að þessu.


Kommentarer
Valgerður

Ég fékk að skoða í gullakistuna hennar Guðnýjar í sumar og þar eru sannarlega margir fallegir hlutir. Hún Guðný frænka mín er mikil handverkskona.

VG

2010-12-18 @ 23:16:39
Guðjón

Ég vissi það að hluta en hér kom hún mér sem sagt var á óvart.

GB

2010-12-18 @ 23:37:29
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0