Hvað er sálarró

Það var til umræðu í sjónvarpi um daginn að ótrúlega mörgu gömlu fólki leiddist og það sá engan tilgang með lífinu. Ekki var það nú björgulegt og vera sjálfur að eldast. Ég velti þessu dálítið fyrir mér þangað til eitthvað annað tók yfirhöndina. En áður en þetta eitthvað annað tók yfirhöndina skrifaði ég minnispunkt á umslag sem ég svo lagði til hliðar og hugsaði með mér að ég ætti kannski að takast á við þetta á blogginu mínu. Jafnframt hugsaði ég sem svo að þá hugsanlega tæki ég mér vatnið yfir höfuðið.

Svo var ég eitthvað á ferðinni út og inn seinni partinn í dag og þá var þáttur í sjónvarpinu sem fékk mig til að stoppa aðeins og horfa á stutta stund. Þátturinn fjallaði um það hvað fólk gæti fundið sér til dundurs um jólin. Maður nokkur benti á einhverja kvikmynd um jólasvein sem væri alveg sérstaklega skemmtileg þar sem jólasveinninn var fullur í myndinni allan tímann. Svo kynnti ung kona tölvuspil sem gekk eitthvað út á að dansa eins og Mikael Jackson en meira skildi ég ekki af því.

Í framhaldi af þessu varð mér aftur hugsað til þáttarins um gamla fólkið sem bara leiddist og sá engan tilgang með lífinu. Það var nefnileg þannig að hluti af því sem ég velti fyrir mér eftir þann þátt var hvort óhamingja í ellinni gæti ekki verið afleiðing af því að lífinu væri lifað í andlegri fátækt. Mér fannst það vera innantómt að horfa á jólasvein á löngu fylleríi. Það er einhvern veginn önnur mynd af jólasveinum en sú sem ég hef haft, en hún er að hlutverk jólasveina sé að gleðja börn. Ef það á svo að fara að gleðja börn með því að láta þau horfa á jólasveininn fullan, þá finnst mér sem það sé verið að kenna þeim að fyllerí sé hversu eðlilegt sem helst. Þau geti þá líka farið að venja sig á að það sé hlægilegt þegar mamma eða pabbi eru full. Og svo þetta með tölvuspilið. Ég er svo gamaldags að ég finn að ég á ekki að tjá mig um það.

Þegar ég var smá patti kom verksmiðjuframleiddur leikfangabíll að Kálfafelli. Þetta var vörubíll sem ég get ímyndað mér að hafi verið upp undir hálfur metri að lengd, að miklu leyti rauður og framhjólin gátu tekið beygju. Mikið ef það var ekki hægt að sturta með honum líka. Þessi bíll var á leið austur í Öræfi til stráks sem þá var að alast upp í Skaftafelli. Löngunin eftir svona bíl varð ólýsanleg.

Ég lék mér aldrei með svona bíl og gleymdi honum fljótlega en ég reyndi að smíða bíla og smíðaði reyndar einfalda bíla en þeir nálguðust ekki bílinn sem sendur var í Skaftafell. Ég var oft einn og leið oft mjög vel þegar ég var einn en ég man aldrei eftir því að mér hafi í raun fundist að ég væri einn. Ég á afar fallegar og góðar minningar um þær mörgu ferðir sem ég skokkaði austur ævintýralegan Lambhagann og síðan inn með Djúpá þar sem dulúðin og ósnortin náttúran höfðu fallist í faðma í árdaga. Ég sé enn í dag fyrir mér marga svona staði og finnst sem ég geti fundið hvernig það var að strjúka hendi varlega yfir dýjamosa þar sem vatnsdropi endurkastaði sólarljósinu eins og dýrmæt perla.

Ég upplifi í minningunni að þetta voru mikil andlegheit fyrir mig. Síðar í lifinu leitaði ég andlegheitanna á annan hátt en fann þau ekki. Þegar ég gafst upp á þeirri leit fann ég þau á ný. Það er kannski þess vegna sem ég finn enga þörf fyrir að horfa á kvikmynd um jólasveininn á fylleríi eða dansa í tölvuspili við Mikael Jacksom dauðan um jólin. Kannski lætur þetta hrokafullt og ef ég nefni orðið alvara fer ég kannski að verða leiðinlegur fyrir alvöru. En fyrir mér er alvaran svo mikill þáttur í því að geta lifað góðu lífi. Hugsandi maður sem heitir Martin Lönnebo segir í bók að skammsýni og skortur á alvöru séu hræðilegar dauðasyndir. Svo vil ég segja um andlegheit að þau krefjast ekki alltaf guðstrúar. Heiðarleiki og sannleikur eru líka andlegheit.

Að taka mér vatnið yfir höfuðið sagði ég í byrjun og það hef ég kannski gert, en þá í fyrsta lagi á þann hátt að ætla mér að fjalla um alvarlegt efni í fáeinum orðum. Ég ætla að lokum að nota mér vís orð lífsreynds eftirlaunamanns sem heitir Karl-Erik Elmquist en hann segir:

Ég er kristinn. Að trúa á Guð er eðlilegt og einfalt fyrir mig.
Ég skil ekki allt um Guð og Jesús
og það sem stendur í Biblíunni.
Þess vegna ræði ég oft við sjálfan mig og aðra.
En ég er samt tryggur í minni kristnu trú. Ég tilheyri Guði.
Ég treysti honum. Ég er hans.
Ég er með honum á margan hátt.
Helst vil ég vera einn.

Stundum þegar það er kyrrt á kvöldin, um ellefu leytið,
setst ég við litla fótstigna orgelið.
Það er næstum alltaf dimmt í herberginu og
ég get spilað utan að sjá.
Ég spila oft sönginn
“Enginn þarf að óttast síður
en Guðs barna skarinn fríður”.
Þennan söng lærði ég sem barn.
Hann gefur mér ró og hvíld og gerir mig glaðan.
Einhvern veginn upplifi ég eins og þegar ég var lítill.
Guð kemur til mín áður en ég sofna.
Ég loka augunum. Hvað sem skeður er Guð hjá mér.
Ég vakna kannski ekki næsta morgun. Samt er ég öruggur og
geng rólega með Guði yfir landamærin.

                Þýðingin er mín. Hvað er sálarró ef ekki í þessum línum?



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0