Sólvallapistill

Um miðjan dag í dag var ég í bloggstemmingu og strax eftir kvöldmatinn vistaði ég nokkrar myndir til að nota í blogg í kvöld. Svo horfði ég á fréttir í sjónvarpi og byrjun á einhverjum grínframhaldsþætti. Síðan gekk ég inn að tölvu og fór inn á bloggið og þá var bara allt horfið úr mínu höfði. Ég leit á myndirnar sem ég hafði vistað og hélt að þá kæmi eitthvað upp. En nei, ég var fullkomlega tómur. Svona er það að góna á þetta sjónvarp. Það gerir mann bara náttúrulausan.

En alla vega; þessi dagur hefur hvað mig áhrærir gengið út á það að undirbúa fjarveru okkar þar sem við ætlum að vera viku í Stokkhólmi um jólin. Valdís hefur hins vegar annast það að tína til það sem við ætlum að hafa með okkur og að pakka því niður. Það er orðið langt síðan við höfum hitt Stokkhólmsfjölskylduna en höfum þó getað fylgst svolítið með Hannesi Guðjóni þar sem Rósa hefur verið dugleg við að senda myndir, jafnvel svolitla filmubúta eins og til dæmis þennan hér þar sem Hannes gerir tilraun til að gera við dótakistuna sína: vídeó.

En við eigum fleiri barnabörn og hér er annar filmubútur sem var tilgengilegur á Facebook í gær. Hann er af henni Erlu dótturdóttur okkar þar sem hún leikur á saxófón við píanóundirleik. http://www.facebook.com/video/video.php?v=1775340626146&comments&ref=mf. Þvílík verðmæti sem unglingar hafa tilgang til nú á tímum. Oft hefur mig langað að taka undir þegar fólk syngur en líklega er mikilvægt að alast upp við svoleiðis. En nú aftur á heimsalóð. Ég held líka að ég sé kominn í gang með bloggið.


Valdís á allan heiður skilinn af þessu eins og öllu öðru jólalegu sem lífgar upp á heimili okkar um þessi jól. Það er alveg merkilegt með þessar stjörnur að þær eru alveg eins þegar við horfum á þær, hvort heldur innan eða utan frá. En svo erum við búin að gera margar tilraunir til að taka myndir af þeim og þá eru þær aldrei eins. Og ég skrökva því ekki, þær eru alveg nákvæmlega eins. Við erum að hugsa um að láta lifa á þeim meðan við erum fjarverandi en það er þó ekki alveg ákveðið.


Að vísu verða Sólvellir ekki alveg utan ábúðar meðan við verðum fjarverandi. Þannig var að ég fór kvöld eitt fyrir nokkru með vasaljós út í viðargeymslu og strax þegar ég kom þar inn fann ég greinilega að ég var ekki einn þar inni. Ég átti um tvennt að velja; að taka til fótanna eða kanna hver nærveran væri. Ég valdi að kanna. Og þá komst ég að því að við höfðum fengið nýjan ábúanda sem kallast skata. Skata er að sumu ekki alveg ólík tjaldinum en þó er hún mikill vargur sem tjaldurinn alls ekki er. Þarna hefur hún svo haldið sig á hverju kvöldi síðan að því er ég best veit því að ég hef kannað það nokkrum sinnum. Hún hallar bara höfði og horfir á mig þegar ég lýsi á hana með vasaljósinu. Enginn sem ég hef talað við hefur heyrt um það áður að skata taki sér vetursetu í húsum.


Sólvellir eru nú vel undir það búnir utan dyra að farið sé frá í nokkra daga. Ég hef staðið mig vel við að ljúka öllum smáatriðum úti utan pallinn sem á að koma framan við innganginn og handrið sem síðar á að koma á pallinn. Það finnst nokkuð í Svíþjóð sem kallað er smíðagleði (snickarglädje) og er gjarnan sett kringum aðalinngang. Smíðagleðin er gjarnan mikil útsögun af alls konar slaufum og skreytingum og þá fáar línur beinar og svo venjulega málað með hvítu. Á Sólvöllum verður smíðagleðin við aðalinnganginn með beinum línum en máluð með hvítu og það má segja að þessi smíðagleði sé aðeins komin af stað eins og sjá má.

Það er líka að tilstuðlan Valdísar sem gamla serían okkar frá Hrísey er komin yfir útidyrnar. Hún var þó ekki í stiganum við að hengja hana upp en hún fékk mér seríuna og bað um að nú yrði gengið frá henni. Það var um síðustu mánaðamót. Það er bannað að taka eftir því að ein pera í seríunni er biluð. Ég gaf mér ekki tíma til að skipta um hana fyrr en eftir að ég tók myndina eftir að dimmt var orðið í kvöld.


Úr þessari átt sjást stjörnurnar hennar Valdísar sem eru í svefnherbergisglugganum okkar. Það rýkur úr skorsteini en Valdís hefur kynnt með reyniviði í dag. Það er hlýtt í kotinu en það þarf þó að elda æði mikið til að halda hita í gamla hlutanum sem núna er orðinn miðja hússins. Meira um það síðar.


Þessi mynd er framtak Valdísar. Það er fallegt á Sólvöllum hvort heldur er vetur eða sumar. Húsið hefur líka tekist vel. Það er mjög fallegt og staðurinn er sem sagt alveg bráðfallegur í heild.


Valdís tók líka myndina af þessari unglingseik sem stendur að húsabaki. Þegar við keyptum húsið 2003 var þessi eik ósýnileg inn í þyrpingu af greni og reyniviði. Nú er hún orðin alveg bráðfalleg hvort heldur er að sumri eða vetri eins og ung kona sem skartar sínu fegursta. Meðan hún var í prísundinni lifði hún í sárum af ágangi kröfuharðra nágranna sinna. Að bjarga tré á þennan hátt er hluti af því sem ég kalla að hlú að skóginum sínum.


Tjaldið þarna á miðri mynd er farið að tapa hluta af reisn sinni þar sem jafnfallinn snjórinn er orðinn um hálfur metri á dýpt. Eitt af því sem ég aðhafðist í dag var að moka frá því snjó og hreinsa ótúlega mikinn snjó ofan af því. Það er mikilvægt að láta þetta tjald ekki falla undan snjóþyngslum þar sem því er ætlað hlutverk á nýju ári. Um miðjan janúar ætlum við Anders að ráðast á gólfið í gamla hlutanum og hreinlega henda því út. Gólfbitarnir eru 11x11 sentimetrar og einangrunin milli þeirra er aðeins 5 sentimetrar. Síðan ætlum við að setja gólfbita sem eru 4,5 x 19,5 sentimetrar og svo setjum við 195 mm steinull á milli þeirra. Eftir það þarf ekki að bera jafn mikinn eldivið í kamínuna og áður. Síðan tökum við loftið og hækkum það og endurnýjum og setjum 30 sm einangrun í það. Skiljanlega fá þó sperrurnar að lifa áfram.

Meðan á þessu stendur verður tjaldið að standa sig sem efnislager. Eftir þetta verður Sólvallahúsið algerlega sem nýtt, frekar lítið einbýlishús, með öllum kröfum sem gerðar eru til húsa í dag en þó ekki með neinum íburði. Íburðurinn liggur í því landslagi og náttúru sem við höfum í kringum okkur og sem við reynum að hlú að af bestu getu.



Kommentarer
Þórlaug

Jólahúsið ykkar minnir mig á Jólahúsið í Eyjafjarðarsveit nema þið eruð ekki með sælgæti á þakinu. Það mun standa sig á meðan þið eruð í Stokkhólmi og bjóða ykkur velkomin þegar þið komið til baka.

Ég, Halla og fjölskylda erum á leið til Akureyrar í dag, Jói kemur á fimmtudag eða föstudag. Þar verðum við um jólin.

Gleðileg jól til ykkar allra.

Bestu kveðjur,

Þórlaug

2010-12-20 @ 09:59:27


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0