Hvíldardagur

Það er orðið langt síðan, mikið langt síðan. Það var síðast í september sem ég gerði ekkert heilan dag. Það var þegar Rósa og fjölskylda fluttu og við vorum hjá þeim til að reyna að hjálpa. Svo þegar allt var komið í hús í Stokkhólmi fóru þær mæðgur út til að kaupa pizzu handa fólkinu en þar sem ég er of fínn til að borða pizzu bað ég um lazanja. Daginn eftir gerði ég ekkert þar sem ég varð veikur af að borða lazanja. Ég fékk að borga hressilega fyrir að vera sérstakur.

Það var búið að standa til um tíma að gera ekkert í dag. Það var vegna heimsóknar sem Valdís fékk í dag og meiningin var að ég mundi vera henni svolítið hjálplegur í heimilishaldi, enda átti hún það skilið af minni hálfu eftir allar þær máltíðir sem hún hefur framreitt handa mér. Nú er ég kannski að gefa í skin að það sé að gera ekki neitt að hjálpa í heimilishaldi, en sannleikurinn er bara sá að Valdís stóð sig svo vel að mitt framlag var hreint ekki neitt -finnst mér svona eftir á.

Annars hef ég unnið ansi sleitulaust við nýbyggingu okkar og stundum ekki alveg laust við að ég hafi hugsað sem svo að ég þurfi að fara að gæta mín. Það var hérna á laugardaginn var að ég var alveg steinhissa á starfsgetu minni. Ég meira að segja bloggaði um það. Svo var það aðfaranótt sunnudags að ég vaknaði um hálffjögurleytið og þá fannst mér sem það væri ekki allt með felldu. Eitthvað sofnaði ég eftir þetta en þegar venjulegur fótaferðatími var gengin í garð var ég ekki nema hálfur maður. Ég fór samt rólega af stað og hélt að ég mundi komast í gang eftir sjónvarpsmessuna en ég hélt samt áfram að vera hálfur maður. Ég var farinn að velta fyrir mér hvort ég væri að verða veikur.

Eftir að hafa gert eitt og annað sem ég hafði verið búinn að skipuleggja daginn áður hætti ég nokkuð snemma og gekk inn til Valdísar og sagðist vera hættur. Ég stóð í sturtunni upp úr klukkan sex og fann að ég hafði gott af því. Ég horfði fram í glerskerminn framan við sturtuna og virti fyrir mér hvernig vatnið speglaðist í glerinu þannig að það var eins og það væri vatn á gólfinu framan við. Skrýtið, hugsaði ég og hélt áfram að slappa af undir sturtunni. Eitthvað fékk mig svo til að líta niður á tærnar á mér og þá sá ég nokkuð sem var alveg skelfilegt. Ég stóð í svo sem tveggja sentimetra djúpu vatni. Nei-nei-nei! Þetta mátti bara alls ekki ske og síst af öllu einmitt núna þar sem ég hafði orðið að gefa mig vegna þess að ég orkaði ekki meir.

Ég kallaði á Valdísi og bað hana að hala niður úr klósettinu. Þá fékk ég staðfestinguna sem ég óttaðist. Loftið bubblaði upp um svelginn í sturtunni. Jú, það var ekki um að villast að frárennslið var stíflað. Þá bað ég æðruleysisbænina. Ég hélt ró minni og þegar ég var búinn að klæða mig -í drullugallan aftur- byrjaði ég á nokkrum tilraunum. Árangur: Enginn. Frárennslið er nýtt hugsaði ég og ég skal aldrei segja frá því að það hafi stíflast. Svoleiðis má bara ekki henda hjá okkur á Sólvöllum og enginn skal fá að vita. Aldrei.

Það var um þrjá staði að ræða. Milli húss og rotþróar, frá rotþró að jarðvegssíu og að lokum á leið frá jarðvegssíu og út í skurð. Til að komast að fyrsta hlekknum var ekkert annað að gera en líta niður í þróna þó að það væri ekkert sem mig langaði til að gera rétt fyrir matinn. Þegar ég hafði hrært með trélista í skítasúpunni niður í þrónni sá ég að það rann glatt frá húsinu. Þar með fékk ég fyrsta svarið, það gat runnið frá húsinu en það rann ekki frá þrónni. Ég vann að því þarna í náttmyrkrinu að halda ró minni og bað æðruleysisbænina aftur. Svo tók ég ákvörðun: Ég hringi í hann Peter gröfumann á morgun og ræði þetta við hann og trúlega mundi niðurstaðan verða að biðja hanna  koma með gröfuna sína og hefja viðgerð í frosti og snjó. Tíu til tuttugu þúsund mun það kosta hugsaði ég og það var bara að sætta sig við það, ég fengi því ekki breytt. Svo -svo undarlegt sem það nú var- svaf ég vel um nóttina og vaknaði sem nýr maður.

Daginn eftir sagði Peter í símann að ég skyldi kíkja niður um loftventilinn á jaðrðvegssíunni og ef það væri vatn þar væri ástæðan að innihald síunnar kæmist ekki frá henni. Oooo, af hverju þurfti ég að láta segja mér þetta. Ég gekk út að loftventlinum og lýsti niður með vasaljósi. Þar stóð uppi vatn. Þar með gekk ég með skófluna út að skurði og mokaði snjónum ofan af útfallsrörinu. Það var ístappi í rörendanum! Takk, takk, takk! Ég fór inn og sótti tíu lítra af heitu vatni, helti niður á rörendann og fylgdist eftirvæntingarfullur með. Ekkert skeði, og þó, jú, víst, það byrjaði að seytla fram vatn. Ég sló með skóflunni í rörið og það seytlaði hraðar. Eftir svolitla stund flaug tappinn út úr rörendanum og ég hefði getað öskrað af gleði. Innihald jarðvegssíunnar streymdi fram í svo miklum mæli sem bara rörið leyfði.

Þetta var mánudagur og þann dag var ég alveg rosalega glaður yfir þessari einföldu lausn og eftir því var ég duglegur líka. Svo kom þriðjudagur. Á miðvikudag ætlaði smiðurinn að koma og ég var ekki nærri tilbúinn með það sem til stóð. Þá fann ég að bæði stress og þreyta ásóttu mig og ég vann að þvi að halda ró minni. Þegar smiðurinn kom á miðvikudagsmorguninn hélt ég áfram við að vinna við það sem átti að vera tilbúið en hann fór í það sem við ætluðum að gera báðir. Það var ekki fyrr en eftir hádegi sem ég var tilbúinn og fór að vinna með honum. Það varð tíu tíma viðstöðulaus vinna en árangurinn var góður. Það er nú meira hvað hús breytast þegar gipsplöturnar koma innan á veggina. Það eru góð verðlaun fyrir vel unnin störf að sjá þá breytingu.


Anders klæddi með 12 mm krossvið þegar ég var tilbúinn með síðasta lagið af einangrun, 45 mm steinull, en það var það sem ég hamaðist við að gera þannig að hann þyrfti aldrei að bíða eftir mér.


Suðurgaflinn klæddur með krossvið og þar undir samtals 19 sm af steinull. Það skal verða hlýtt í okkar húsi.


En sjáið bara hvað skeður þegar gipsplöturnar koma upp. Húsið fær hreinlega annan persónuleika. Valdís var líka ánægð með þetta og sem verðlaun fengum við lummur hjá henni með eftirmiddagskaffinu, en þær bakaði hún úr afganginum af grjónagrautnum sem við fengum í hádeginu. Það var búkonulegt af henni.

Fyrsta frídeginum mínum í mjög langan tíma er lokið og fundurinn með félaga Lokbrá er á næsta leyti. Á morgun verður byggingarvinna á ný og ég býst við að þá muni ég finna að ég hafi haft gott af hvíldardeginum í dag. Einhvern veginn hefur mér fundist í dag sem það væri laugardagur.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0