Að uppgötva heiminn

Það er skrýtið hvernig eitthvað sem maður heyrir eða sér setur í gang hugsun sem síðan leiðir hugann að einhverju öðru og að lokum getur hugurinn verið kominn að einhverju sem er með öllu óskylt því sem var í gangi í upphafi. Ég leit í orðabók og komst að því að þetta væri kallað hugmyndatengsl en var þó ekki alveg ánægður með niðurstöðuna en annað virtist ekki að hafa.

Í gærkvöldi horfði ég öðru hvoru á langan sjónvarpsþátt sem nefndist Sænskar hetjur. Þar var fólki sem hafði sýnt hugdirfsku við viðsjárverðar aðstæður veitt verðlaun. Það út af fyrir sig væri efni til að blogga um þó að ég láti það kyrrt liggja. En eitthvað í þættinum fékk mig til að hugsa um hann Hannes Guðjón nafna minn sem er fimmtán mánaða þegar hann fyrir stuttu horfði á hann pabba sinn ýta á hnappinn á ryksugunni án þess að hún færi í gang. Minn maður tók þá í klóna á rafmagnsleiðslunni og gekk með hana að næstu innstungu og vildi setja í samband. Ég get ímyndað mér að foreldrunum hafi þótt skemmtilegt að vera með um þetta þar sem það er skemmtilegt að sjá þegar börn eru að uppgötva heiminn.

Þar með fór ég að hugsa um það þegar fjölskyldan flutti frá Uppsala til Stokkhólms í september og allt var meira og minna á rúi og stúi og strákur notfærði sér aðstæðurnar og fór í feluleik, en þá var hann einmitt rétt orðinn eins árs. Já, einmitt. Ég mundi allt í einu eftir þvi að ég átti myndir af honum í þessum feluleik, myndir sem ég hafði ætlað að sýna á bloggsíðunni minni en svo hafði ég bara gleymt öllu saman. Ég vistaði því myndirnar inn á bloggsíðuna í gær og hugsaði mér að gera svo mat úr því þegar ég kæmi heim frá vinnunni í dag.


Það var svo gaman að geta látið sig hverfa bakvið stólinn þarna á myndinni og bíða eftir þvi að við færum að kalla á hann og koma þá fram hinu megin við stólinn og sjá viðbrögð okkar.


Og svo þegar verið var að búa hann í háttinn kom hann allt í einu hlaupandi og byrjaði aftur á leiknum bakvið stólinn og það var alveg rosalega gaman fyrir hann að gera okkur alveg stein hissa.


Svo var það hvíti skápurinn sem ekki var settur alveg út í hornið. Þar gat hann líka látið sig hverfa og beið svo eftir því að við undruðumst yfir því hvar hann væri. Svo var alveg rosa gaman þegar hann kíkti fram og sýndi sig og ég veit ekki alveg hvort hann eða við höfðum meira gaman að þessu. Mér fannst hann vera ótrúlega ungur að vera byrjaður á þessu, en eitthvað minntist ég svona leikja á Bjargi í Hrísey fyrir einum fjörutíu árum og þaðan af meira. Ég vil svo aftur taka fram það sem ég sagði í byrjun að þegar þessar myndir voru teknar þá var allt á rúi og stúi þar sem búslóðin var nýkomin inn úr dyrunum. Og í framhaldi af því vil ég segja eitt; Það var eins og hann finndi sig heima þarna á nýja heimilinu fjafnskjótt og hann gekk þar inn í fyrsta skipti.


Svo var auðvitað alveg nauðsynlegt að klípa hann pabba sinn í eyrað og ekki skemmdi það gleðina ef pabbi skrækti svolítið.


En það var ekki allt bara leikur hjá honum kringum þessa flutninga skulið þið vita. Þarna var hann orðinn rauður í kinnum við að hjálpa á sinn hátt en það fólst í því að keyra ferðatöskur fram og til baka um íbúðina upp í Uppsala og það ekki á neinum smá hraða, það var bara á fullri ferð.


Svo að lokum síðsumarmynd frá Sólvöllum þegar mamma og drengur voru í heimsókn. Þarna er meiri afslöppun ríkjandi og þarna er annar blær yfir öllu en nú er í hörku frosti og snjó hér um slóðir.


Kommentarer
Rósa

Já, hann fylgist vel með hvernig hlutirnir virka hann nafni þinn. Þau segja líka á leikskólanum að hann hafi gaman af að fylgjast með þegar þau eru að gera svona praktíska hluti (t.d. undirbúa morgunmatinn, skipta um bleyjur).



Gaman líka að sjá þessar myndir aftur. Hlakka til að geta notað stofuna. Málarinn vonar að hann verði búinn fyrir jól...



Kveðja,



R

2010-12-15 @ 09:19:28
Guðjón Björnsson

Ég skil vel að þið hlakkið til að fá allt í stand aftur. Hér er líka ansi mikið á öðrum endanum en það er ekki lítill drengur hlaupandi innan um hlutina hjá okkur. Þá væru ýmsir erfiðleikar í gangi.



Kveðja,



pabbi

2010-12-15 @ 10:00:03
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0