Er þetta ekki stórkostlegt?

Í nótt var ég hjá lækninum góða sem getur læknað hin ótrúlegustu mein og það veldur líka hinum verstu meinum ef við hittum hann ekki. Eftir sjö tíma svefn í nótt varð ég var við það að Valdís fór fram á bað. Ég mátti ekkert vera að svoleiðis því að ég ætlaði að halda áfram að sofa. Ég varð ekki var við það þegar Valdís kom til baka, en eftir tæplega níu tíma svefn sá ég þó að hún var komin. Þá var ég líka orðinn sem nýr maður og þótti sem ég hefði bloggað af erfiðleikum og trega í gærkvöldi. Ekki þarf ég að kvarta undan litlum samvistum með þessum lækni heima hjá Rósu og fjölskyldu heldur þar sem ég svaf næstum álíka lengi fyrstu þrjár næturnar og ég svaf í nótt. Samt tókst magapestinni að slá mig um koll. En svona er lífið. Við getum fengið skilaboð um það þegar best gengur að við séum ekki alls ráðandi.

Það er komið fram yfir hádegi en ég er þó ekki búinn að fara út í morgun en ég er búinn að skima heilmikið út og virða fyrir mér þann heim sem úti fyrir er. Ég þreifaði líka á skorsteininum áður en ég klæddi mig en þá höfðum við ekki kynt í tíu tíma. Hann var ennþá merkjanlega volgur. Svo kveikti ég upp. Strax eftir heimkomuna í gær tók ég nokkrar myndir og ég skoðaði þær í morgun og þær vöktu skemmtilegt hugarflug.



Þannig leit vegurinn heim að Sólvöllum út við heimkomuna í gær, en húsið er hægra megin við mig þaðan sem ég tók myndina og sést ekki. Það þykir kannski ekki öllum að þessi ruðningur sé neitt til að tala um, en fyrstu snjókornin sem byggja hann upp byrjuðu að falla fyrir einum sex vikum síðan og síðan hefur ekki komin einn einasti frostlaus dagur. Á þeim tíma hefur líka vegurinn hækkað upp, því að þó að Mikki sé duglegur við að ryðja þá treðst niður og verður eftir dálítið lag á viku hverri. Það á nokkuð örugglega eftir að snjóa á þennan snjó mis marga sentimetra á viku hverri eitthvað fram í mars. Á þeim tíma má reikna með að hitastigið verði mínus núll til mínus tuttugu stig, það er að segja órofinn frostakafli og venjulega all nokkuð neðan við núllið.



Það eru Kilsfjöllin sem sjást þarna við sjóndeildarhring. Þegar ég tók myndina sáust þau svo ótrúlega skýrt með berum augum að ég hélt reyndar að þau yrðu ennþá skýrari á myndinni. Snjóa og frostakaflinn sem ég talaði um með myndinni fyrir ofan getur með svartsýni virst óyfirstíganlegur. En í raun er er hann hversu náttúrulegur sem helst og kannski eins og það raunverulega á að vera. Undir þessum hálfa meter af snjó sem við sjáum svo langt sem séð verður er mikið að ske. Þar er jörð í hvíld og jörð að undirbúa sig fyrir nýtt sumar. Þar er líka mikið smádýralíf í gangi þó að það verði okkur kannski ekki allt að skapi þegar sumrar á ný. Þar leynist mikið af skógarplöntum sem kviknuðu til lífs í sumar og njóta nú þess að snjóþekjan gefur þeim frostlausan vetur.

Margar svoleiðis plöntur koma til með að verða á vegi okkar Sólvallabúa þegar vorar og maður spyr sig; hvers vegna sáum við ekki þessa plöntu í fyrra? Skógurinn báðu megin við opið niður á sléttunni er laufskógur. það er engin snjór sem liggur á greinunum þar en þegar ég lít yfir tölvuskjáinn og út í sólvallaskóginn er skógurinn þungur af snjó og útsýnið út í hann er mjög stutt. Skógurinn á myndinni fær á sig nógu mikið af norðan- og austanáttum til að snjórinn hreinsist af honum. Sólvallaskógurinn er í skjóli við skóga til norðurs og enn meira til austurs, skóga sem ná út í kílómetra fjarlægð. Þetta er skýringin á veðursældinni á Sólvöllum. Í mestu hitum í maí til ágúst er erfitt að hugsa sér að þetta geti verið aðlaðandi, en þegar það er komið get ég alla vega spurt sjálfan mig hvað sé fallegast, vetur eða sumar.



Hún Þórlaug stórvinkona okkar er iðin við að koma með innlegg á bloggið mitt. Eftir bloggið mitt í gær sagði hún "Velkomin heim í jólahúsið ykkar". Þetta er hreint ekki fyrsta myndin af þessu húsi hjá mér upp á síðkastið en það er þó sú nýjasta. Undir snjóþekjunni er jörð í hvíld og mikið smádýralíf í gangi og að nýgræðingurinn fær þar skjól sagði ég með myndinni næst fyrir ofan. Það sama má segja um hlutverk þessa húss. Þar inni er hægt að fá hvíld og þó að við Valdís séum kannski ekki beinlínis nein smádýr fáum við þar skjól. Eftir "ofurlitlar" endurbætur á gamla húsinu sem nú er undir miðju þakinu kemur þetta hús ekki til með að láta sig muna um það að skýla okkur þó að frostið fari í 30 stig.

Og svo þegar loftvarmadælan verður komin á austurvegginn verður kyndingin einföld og ódýr og freistar okkar ekki til að taka of mikið af skóginum til að elda upp. Ef við viljum yfirgefa þetta hús í einhverjar vikur að vetri til kemur þessi varmadæla til með að halda góðu lofti inni og þeim hita sem við óskum eftir. Ef hitastigið úti verður of lágt til þess koma rafmagnsofnarnir til með að grípa sjálfkrafa inn í. Svo þegar við komum á flugvöllinn í öðru landi á leiðinni heim sendum við sms heim til varmadælunnar og biðjum um 22 stiga hita. Svo verður gott að koma heim. Er þetta ekki stórkostlegt?



Hún Valdís kona mín er búin að sækja blaðið og segja mér helstu fréttir úr því. Nú er hún að fletta alls konar blöðum sem sem söfnuðust upp meðan við vorum í Stokkhólmi og athuga hvort þar sé nokkuð sem er mikilvægt.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0