Á Sólvöllum á ný

Dvölinni í Stokkhólmi er lokið og við amma erum tvö á ný í kyrrðinni á Sólvumöllum. Þessi heimsókn þróðaðist á annan veg en óskað var af minni hálfu. Þegar leið að jólamatnum á aðfangadag fór mér að verða kalt og ég bætti á mig fötum. Eftir að hafa borðað ofnsteikta íslenska lærið svo gott sem það var varð mér ennþá kaldara og ég bætti á mig meiri fötum og svo virtist allt í lagi. Um þrjúleytið um nóttina vaknaði ég og var heitt og hjartað sló kröftugum slögum. Snemma dags skreið svo magapestin fram úr fylgsni sínu og eftir það var ekki svo skemmtilegt á köflum. Það er ekkert fyndið, ekki hvað mig áhrærir alla vega, að vera jólagestur og þurfa svo að uppfylla kröfur miskunnalausrar magapestar. Svo er það mál úr sögunni og þrátt fyrir allt tókst þetta jólahald vel.

Þegar við komum heim til fjölskyldunnar okkar í Stokkhólmi nokkrum dögum fyrir jól man ég ekki hvort það var mamman eða pabbinn sem hélt á Hannesi Guðjóni. En alla vega, hann brosti þegar hann sá okkur og rétti svo fram hendurnar. Við áttum að taka hann. Hvað geta amma og afi beðið um meira en að barnabarnið þekki þau eftir þriggja mánaða fjarvistir og vilji þar að auki að þau taki við honum. Nei, þetta voru bestu móttökurnar sem við gátum fengið þó að við fengjum kannski ekki að halda svo lengi á honum í það skiptið.

Litla húsið á Sólvöllum kúrði undir snjóþekjunni og hádegissólin lýsti það upp þegar við komum heim um eittleytið í dag. Ekki svo löngu síðar, eða tveimur tímum, var hún gengin til viðar en húsið hélt áfram að vera um kyrrt. Gamla jólaserían hennar Valdísar sem lýsti upp þakskegg í Hrísey lifði á vesturstafninum eins og við höfðum skilið við hana. Ungu grannarnir, Lars og Stína, höfðu verið hér á eftirlitsferðum og um leið hreinsað snjó upp úr slóðinni heim að húsinu. Það var því ekki svo mikið fyrir mig að hreinsa þegar við komum. Það var ellefu stiga hiti inni og við hækkuðum á ofnum og kveiktum upp í kamínunni. Svo bar ég inn úr bílnum og eftir það var hitinn kominn í þrettán stig. Þetta gekk sem sagt nokkuð vel. Það er spáð mismiklu frosti næstu tíu daga, allt niður í 19 stiga frost. Og næstu tíu daga á daginn að lengja um 17 mínútur en þó bara um eina mínútu á dag fyrstu fimm dagana.

Ég hvíldi mig all lengi eftir heimferðina og Valdís sauð ýsu og kartöflur eins og við höfðum talað um á leiðinni heim. Við ætluðum að stappa ýsuna saman við kartöflur og smjör. Svo þegar til átti að taka varð Valdísi flökurt af lyktinni af ýsunni og tók því fram kalt hangikjöt. Þá varð mér flökurt af hangikjötslyktinni og svo sátum við hvort á móti öðru við matborðið og borðuðum með ólyst á hvors annars mat. Það er mikill flökurleiki í gangi í þessu landi um þessar mundir og mér skilst að svo sé í fleiri löndum. Ég er búinn að aflýsa vinnu á morgun og það telst til meiri háttar tíðinda í Vornesi að Íslendingurinn geti ekki mætt vegna veikinda.

En eins og mikið er talað um á förnum vegi og í fjölmiðlum er landið frábærilega fallegt um þessar mundir með þessa mismjúku snjóþekju yfir öllu frá suðri til norðurs. Daginn er tekinn að lengja og þar með eru mörg skemmtileg verkefni sem fara í gang hvert af öðru eftir því sem vikurnar líða. Það eru ekki nema rúmir þrír mánuðir þangað til ég fer að fara tíðar ferðir út í skóg til að kíkja á hina ólíku brumhnappa þroskast, ekki síst okkar kæru beykitrjáa. Í apríl leggjum við upp í Íslandsferð, meðal annars til fjölskyldunnar okkar í Vestmannaeyjum þar sem það á að ferma yngsta barnabarnið þar, hana Erlu, þann tíunda apríl.

Nú skal ég ganga snemma til náða og vænti þess að vinur vor Lokbrá verði nærstaddur. Hitinn inni er kominn nokkuð hærra en ætlast var til, eða upp í 26 gráður. Hann lækkar niður í viðunanlegra hitastig fljótlega og kosturinn við þetta er að í fyrramálið verður skorsteinninn ennþá volgur og þannig jafnast hitinn mikið þó að við kyndum ekki í eina átta tíma.

Ég ætlaði að birta myndir með þessum texta en þar sem netið varð svo seigt þegar líða tók á kvöldið læt ég það bíða. við erum með margar skemmtilegar myndir og ég býst líka við að Valdís setji myndir á Flickrsíðuna sína á morgun.


Kommentarer
Þórlaug

Velkomin heim í jólahúsið ykkar.

Vonandi lætur magapestin undan síga sem fyrst.

Bestu kveðjur til ykkar beggja,

Þórlaug

2010-12-28 @ 23:39:19


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0