Já, hvað gerir maður?

Hvað gerir afi sem er á sextugasta og níunda aldursári þegar hann finnur að einhver snertir hnéð. Afi lítur niður og sér lítið brosandi andlit og tvær litlar hendur sem teygja sig upp eins langt og litli kroppurinn leyfir. Brosið er ómótstæðilegt og fallegu augun segja; afi, taka. Aldursmunurinn er rúm 67 ár. Jú, afi leggur frá sér það sem hann er að gera og tekur undir litlu handleggina og lyftir upp litlum dreng.

Nafni er bara fimmtán mánaða. Þegar afi hefur lyft honum upp ýtir hann kanski á nefið, eða tekur í annað eyrað eins og hann hafi aldrei séð það fyrr. Gleraugun lætur hann nánast alveg í friði eða fer varlega höndum um þau með litlu fingrunum sínum. Svo tala afi og drengur um lífið litla stund og svo er eitthvað annað sem þarf að skoða eða athuga og drengur þarf því að fara þangað. Oft kemur hann fljótlega aftur og allt endurtekur sig. Stundum leggur hann höfuðið upp að öxl afa og segir; aaaaaaaa.

Hér á bæ hjá Rósu og fjölskyldu gekk málarinn út daginn fyrir Þorláksmessu, kvaddi og óskaði gleðilegra jóla. Hans er von aftur á mánudag. Rafvirkinn gerði sama á Þorláksmessu og hans er líka von aftur eftir jól. Það hefur því verið í ýmsu að snúast við að koma hlutunum í röð og reglu og það var ekki fyrr en núna seinni hluta aðfangadag sem hlutirnir voru komnir í gott horf.

Ég fór tímanlega á aðfangadagsmorgun með rusl í litla endurvinnslu sem er hér stutt fyrir ofan götuna. Hér hefur ekki snjóað svo hættulega mikið en það er kalt. Ég hafði smá andvara á eftir mér á leiðinni þangað og nokkrir litlir hérar voru á rjátli undir eldri Volvó fólksbifreið og virtust vera á heimaslóð þó að þeir væru næstum inn í miðjum Stokkhólmi. Þegar ég gekk til baka og hafði andvarann í fangið beit frostið hressilega í andlitið. Þá voru hérarnir líka orðnir margir og voru mikið að vasast innan um síðustu arssprota runna í lítilli brekku. Það er hætt við að börkur þessara runna hafi orðið aðfangadagsmatur héranna. Líklega varð ég var við tvo bíla á
í ferðinni og eina konu á gangi í þessari morgunferð minni. Rólegur aðfangadagur það í miðbæ Stokkhólms.

Ég laumaðist til að hlusta á stóran hluta aðfangadagsmessunnar í íslenska útvarpinu. Þar talaði hún Anna Pálsdóttir um fæðingu barns fyrir 2000 árum. Ásama tíma sat hann Hannes Guðjón á gólfinu rétt hjá mér og skoðaði fyrsta hluta af jólagjöfunum sínum. Anna sagði frá för ferðamanns að fæðingarstað Jesú og reynslu hans af því og Hannes Guðjón hélt áfram að sýsla með jólagjafirnar sínar áhyggjulaus af heiminum. Svo sýnir hann ömmu, mömmu og pabba sama hýja viðmótið og hann hefur sýnt mér. Ég er ekki einn um þessi lífsgæði.


Á þessari mynd erum við nafnarnir reyndar að syngja og dansa. Nafni virðist ánægður með söng afa þó að hann sé ekki svo lagviss. Það eru til margar myndir og ekki bara af okkur. Fljótlega koma myndir af fleirum og einnig skýring á því hvers vegna ég hef verið svo hljóður um jólin.



Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0