Helgarlok

Gestirnir eru farnir og hversdagsleikinn er tekinn við hér á bæ. Hversdagsleikinn er ekki slæmur og þó að gestirnir séu farnir fylgja þeir með inn í þennan hversdagsleika þannig að heimsóknin lifir áfram á vissan hátt. Valdís er búin að eiga afmælið sitt og það var ekki bara að fara út að borða sænskt jólaborð sem afmælishaldið gekk út á. Að fá heimsókn var hluti af afmælishaldinu og þar sem ég var að hlusta á Valdísi tala við gamlan nágranna áðan, þá veit ég að stundin í gær sem ég var úti með Rósu og Pétri, hún var mikill þáttur í afmælishaldinu. Einmitt þá í næðinu sem þau höfðu, Valdís og Hannes Guðjón, þar sem hann sat á hné hennar, þá ræddu þau ýmislegt sem við hin vissum ekkert um. Innileg stund þar sem amma og drengur horfðust  stundum í augu, skoðuðu saman hluti sem voru mikilvægir eða töluðu um eitthvað sem var mikilvægt. Á svona stundum tala tvær manneskjur saman frá hjarta til hjarta. Það eru ekki ónýtar stundir það.
 
Þessi mynd var tekin af þeim við annað tækifæri en við svipaðar aðstæður. Þarna eru þau saman að horfa á barnaefni og hann með Dalahest í annarri hendinni. Þau eru vinir amma og Hannes.
 
Þarna er Rósa á buxum sem við köllum byggareBobb en ég er einfaldlega á sunnudagabuxunum en þó ekki með bindi sem ég þó ber við skriftirnar nú. Þetta var í dag, sunnudag. Þarna ræktaði Rósa matjurtir í viðarhólfum í sumar og ætlar að endurtaka það. Hún fór að hreinsa til í hólfunum í dag vegna þess að hún vildi alls ekki snúa við til Stokkhólms aftur fyrr en hún væri búin að gróðursetja hvítlauk. Hún ætlaði að gera þetta ein en svo fannst mér sem ég gæti bara ekki látið sem það kæmi mér ekki við. Svo hjálpuðumst við að litla stund en hún á allan heiður af því að þarna er nú búið að setja í mold mörg hvítlaukshólf. Síðan ætlar hún líka að sá grænmeti í þetta að vori og vísar konur segja að hvítlaukurinn verji grænmeti fyrir óværu. En þetta hvítlauksspjall var nú bara aukainnskot í allt aðra umræðu. Aftur að afmælisbarninu.
 
Hún lítur ekki illa út þarna kellan mín sem ég hitti þegar hún var 17 ára, saklaus fiskimannsdóttir og forvitin um lífið. Það er mikil ábyrgð að skaða ekki svona stúlkur. Hvernig mér hefur tekist til með það er ekki spurning sem svarað verður á þessum degi. En hitt er víst að hún er ekki 17 ára lengur heldur rúmlega 52 árum meira. Miðað við það sem hún er búin að ganga í gegnum að undanförnu er alveg ljóst að hún lítur vel út á þessari mynd.
 
Eða þá á þessari sem Rósa og Pétur sendu þegar þau komu heim áðan.
 
Það sést vel ef litið er á þessa mynd sem er frá því um 10. ágúst og borið saman við myndina fyrir ofan, að hún hefur nálgast lífið á ný um fjölda skrefa. Samt hefur hún fengið bakslag í batann oftar en einu sinni en nú er hún væntanlega búin að fá hjálp við því sem verður til frambúðar.

Þegar gestirnir okkar voru í þann veginn að leggja af stað í dag vildi Hannes alls ekki fara. Hann var snúinn og var tregur til að kveðja ömmu sína og afa. En duglegur var hann sem ferðamaður á járnbrautarstöðinni með bakpokann sinn og ferðatösku. Hann sér sjálfur um farangur sem hann líka velur sjálfur þegar hann kemur til okkar. Við höfum síðan frétt frá Stokklhólmi að hann hafi verið hinn besti á leiðinni og eitthvað talaði hann um ömmu og afa. Hér með er lokið umræðu um afmælishelgi Valdísar.


Kommentarer
Björkin.

Mikið eru þetta fallegar myndir af ykkur mín kæru hjón.

Svar: Takk mágkona, við tökum okkur bara vel út.
Gudjon

2012-11-25 @ 23:51:09


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0