Hressar kerlingar

Ég var uppi klukkan hálf sex í morgun og bjó mig undir að fara í Vornes til að vinna hálfan dag. Ég var með hálf lélega samvisku vegna þess að Valdís átti von á gestum í hádegismat í dag. Það voru konurnar fjórar sem hún hittir yfir hádegisverði einu sinni í mánuði. Það var Valdísar að taka á móti þeim í þessum mánuði. Hún sauð rófur og palsternaka í gærkvöldi, svolítið af lambakjöti einnig, og svo skárum við niður alveg helling af alls konar grænmeti. Hún ætlaði að bjóða konunum upp á það sem við hér heima köllum allsherjarsúpu. Það er kjötsúpa sem er þó að mestu grænmeti en með svolitlu kjöti til að fá ærlegt matarbragð af súpunni. Þessi súpa er gríðarlega matarmikil og að sama skapi góð. Ég leit yfir þetta í morgun og svo lagði ég af stað um hálfsjö leytið. Mér fannst sem pottarnir yrðu of þungir fyrir Valdísi.
 
Klukkan hálf tíu eftir morgunfund sem ég hélt í Vornesi kom ég inn á sjúkradeildina og hringdi heim. Ég mátti til með að heyra hvernig gengi. Þá heyrði ég að Valdís var önnum kafin og hún sagðist vera að setja grænmetið í stóra súpupottinn. Hún sagði bara að við mundum heyrast seinna. Þar með var því samtali lokið. Annelie hjúkrunarfræðingur hafði heyrt hvað ég var að hringja og spurði hvernig Valdis hefði það. Hún mátti ekkert vera að því að tala við mig svaraði ég henni. Ja, það er góðs viti varð henni að orði. Mér líkaði vel að heyra það.
 
Næst hringdi ég stutt eftir klukkan ellefu. Þá svaraði mikið spræk Valdís og sagði að þær hefðu verið að koma. Voða gaman. Nú ætluðu þær að fá sér kaffi og köku með. Hún lék á alls oddi og ég áleit það vera vegna þess að nú var súpan tilbúinn, fimm lítra potturinn fullur af allsherjarsúpu. Ég hlakkaði til að koma heim. Ég heyrði gegnum símann hvernig konurnar léku á alls oddi líka. Það var greinilega fjör á Sólvöllum.
 
Korter yfir eitt hringdi ég enn einu sinni heim og sagði að ég væri lagður af stað og bannaði konunum að fara heim fyrr en ég væri kominn heim. Þær ætluðu að hlýða því. Þegar ég kom heim upp úr klukkan tvö kom ég inn í mjög þægilegan selskap hér heima. Þær voru að fá sér kaffi og smákökur með. Ég hitaði mér súpu og borðaði hrikalega mikið. Þær voru oft búnar að koma hingað undanfarin ár þessar sjötugu konur en ég gat ekki munað að það hafi áður verið svo mild og góð stemming meðal þeirra við þessi tækifæri.
 
Um þrjú leytið bjuggu þær sig til heimferðar. Þær þökkuðu aftur og aftur fyrir þennan góða mat. Ég rölti með þeim út fyrir húsið og þá sneru þær sér að mér til að segja mér hvað maturinn hefði verið góður hjá Valdísi. Þær röðuðu sér fyrir framan mig til að leggja áhreslu á þetta. Já, ég sagði að Valdís væri góð heim að sækja og það færi enginn svangur frá henni. Nei, þær héldu nú ekki, voru mér aldeilis sammála. Svo röltu þær aðeins um kring hér úti og settust svo inn í bílinn. Heimsókninni var lokið. Ég fann á Valdísi að hún var líka ánægð með daginn og sinn þátt í öllu saman. Þrátt fyrir að hún hefði verið gestgjafinn var hún að mér fannst mikið hressari en oft áður.
 
Þessum konum þykir skemmtilegt að koma á Sólvelli. Þær koma mikið fyrr á deginum hingað en þegar þær hittast hjá þeim sem eiga heima inn í Örebro. Húsið, kyrrðin og umhverfið fer vel í þær. Það var bara ein þeirra sem lagði sig í dag meðan á heimsókninni stóð. Á sumardögum er eiginlega hægt að segja að þær leiki sér svolítið úti við og þá þurfa fleiri að leggja sig. Þegar það er berjatíð tína þær ber i eftirréttinn.
 
Þannig var dagurinn í dag. Gestgjafinn hefur nú lagt sig og les í bók. Ég er ekki lengur með samviskubit yfir að hafa farið í Vornes að vinna. Ég ætla að lokum að telja upp það sem ég man af grænmetinu sem var í allsherjarsúpunni: Rófur, palsternaka, sætar kartöflur, hvítkál, blómkál, brokkólí, rauðlaukur, púrrulaukur og grænkál. Kannski var það eitthvað fleira. Ég kalla þetta allt grænmeti. Það verður allsherjarsúpa á morgun líka. Namm, namm. Á morgun er svo kóræfing hjá Valdísi.


Kommentarer
Þórlaug

Þetta var gaman að heyra.

Bestu kveðjur til gestgjafans,

Þórlaug

Svar: Já, það var gaman að þessu og kveðja til baka.
Guðjón
Gudjon

2012-11-21 @ 23:18:49
Björkin.

Ekki hefði verið slæmt að vera með að borða súpuna góðu.Mammi nammmm.Stórt knússssssss.

Svar: Nei, það var ekki slæmt að vera með í því.
Gudjon

2012-11-21 @ 23:42:07
Valgerður

það er aldeilis að kjötsúpan er orðiðn forfrömuð, verði ykkur að góðu

Svar: Takk
Gudjon

2012-11-22 @ 12:29:16


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0