Vetrarkoma

 
Ég sagði í bloggi í fyrradag að það hefði verið búið að spá snjókomu og kaldara veðri í nokkra daga. Ég var svolítið í kapphlaupi við vetrarkomuna þar sem ég var ekki búinn að ganga frá drenlögn og fleiru umhverfis nýja húsið Bjarg. Mér tókst að ljúka við vesturhliðina, þá sem keyrt er um inn í bílageymsluna, en hinar eru eftir. Ég fann fyrir svolitlum kvíða vegna þessa og ég vildi ekki að það kæmi frost að grunninum fyrr en þetta væri búið. Það eina sem gæti bjargað mér í klípunni var að það kæmi nægjanlega mikill snjór að húsinu áður en frysti. Það lítur út fyrir að svo verði.
 
Í dag skruppum við Valdís til Fjugesta og þegar við komum til baka ætlaði ég út að vinna að nýbyggingunni. Veðrið var orðið þess eðlis að frekari vinna kringum grunninn var útilokuð. Ég hafði samt nóg að gera en var eitthvað óákveðinn og hringlaði hér innan húss og fékk mér nokkrum sinnum aðeins meira kaffi. Að lokum sagði Valdís að það færi bráðum að skyggja ef ég ætlaði að gera eitthvað úti. Hún spurði einnig hvort það væri ekki rétt fyrir mig að ljúka við að negla panelinn og setja upp þau fáu panelborð sem eftir væri að setja upp. Ég fann um leið og hún lauk setningunni að það væri nú réttast að gera svo. Síðan fékk ég mér ríkulega vatn að drekka og dreif mig af stað.
 
Þegar ég negldi upp panelinn í haust negldi ég bara annan hvern nagla og ætlaði svo að negla hinn naglann seinna. Því var ekki alveg lokið. Nú byrjaði ég í ákafa að negla en varð fljótlega kalt og varð að fara inn til að bæta á mig fötum. Það virkaði og mér varð aftur hlýtt. Þá áttaði ég mig á þessu með kvíðann. Það fjallaði ekkert um grunninn, það fjallaði um veturinn. Og nú var veturinn kominn, ég búinn að bæta á mig fötum, farinn að vinna á fullu í vetrarveðri, var hlýtt og hljóp kapp í kinn. En hvað þetta var notalegt. Það var ekkert athugavert við veturinn og ég minntist stunda þegar ég hef spurt sjálfan mig hvort sé fallegra, sumar eða vetur. Slíkar spurningar koma þó aðeins upp þegar vetrarveður er sem allra fallegast.
 
Valdís hafði rétt fyrir sér. Það var nú best að ljúka þessari panelvinnu. Ég er alveg með það á hreinu hvað ég ætla að gera í fyrramálið. Ég er líka alveg með það á hreinu að á eftir ætla ég að taka fram síðu nærbuxurnar og leggja þær hjá útifötunum mínum. Ég ætla að láta mér líða vel í vetrarveðrinu á morgun með hamarinn minn og þriggja tommu sauminn. Þegar skyggir verð ég væntanlega búinn með neglingarnar mínar, en hvort heldur, þá ætla ég að leggja nagla og verkfæri til hliðar, fara í sturtu og svo í betri fötin. Annað kvöld förum við Valdís á konsert með honum Kalla frá Orsa og fleiri snillingum. Valdís fékk tvo miða frá Rósu og fjölskyldu í afmlisgjöf og hún ákvað að það yrði ég sem fengi að fara með. Hún er góð við mig hún Valdís.
 
 
 
Þarna nefnilega sést að það vantar eitt panelborð efst uppi. Það er nú komið á sinn stað. Svo vantar tvö á hina hliðina. Þakskeggin verða svo ekki klædd að neðan fyrr en í vor. Þegar Rósa og þau voru hér í heimsókn fyrir einhverjum vikum negldi hún heilmikið af panel, það er að segja seinni naglanum. Þá dundu hamarshöggin ótt og títt hér í sveit.
 
 
Ps.
Þessi mynd er frá góðum sumardegi. Nora og Norakirkja í baksýn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0