Frá Fjaðrá til Fatmomakke

Klukkan var hálf sjö þegar ég vaknaði morgun einn í vor. Eftir ferð fram eins og við segjum hér á bæ lagði ég mig aftur. Lagði mig á magann eins og mér var kennt af velviljuðu fólki áður en ég fékk nýja mjaðmarliðinn.
 
Þegar ég hafði dregið ullarfeldinn upp að hnakka og ég fann ylinn umvefja mig var ég allt í einu staddur við Fjaðrá vestan við Kirkjubæjarklaustur og árið var 1956. Þar var ég í hópi brúarvinnumanna að byggja fyrstu brúna yfir Fjaðrá stuttu neðan við hin þekktu Fjaðrárgljúfur. Fjórtán ára gamall var ég. Það var sunnudagur og yngri menn í brúarvinnuhópnum höfðu ákveðið kvöldið áður að ganga austur að Kirkjubæjarklaustri. En ég sem var lang yngstur valdi að fara ekki með. Þeir gengu austur á bóginn og upp með Hunkubökkum þar sem Ragnheiður og Hörður bjuggu upp í brekkunum með börnum sínum. Síðan héldu þeir austur á bóginn eftir fjallabrúnunum.
 
Sjálfur gekk ég upp með Fjaðrá. Ég gekk upp eina brekkuna af annarri þar til ég sá í Heiðarsel. Ég hafði aldrei komið þangað en vissi að það væri að finna á þessum slóðum. Þegar ég sá í Heiðarsel í nokkurri fjrlægð varð ég gersamlega hugfanginn af öllum þeim gróðri sem við mér blasti. Það var eins og endalaust grasi gróið land væri til norðurs, til austurs og vesturs og dágóðan spöl til baka. Aldrei hafði ég séð neitt því um líkt, ég sem var vanur við mjóar grasræmurnar meðfram fjallsrótunum í Fljótshverfinu. Síðan settist ég í grasið og var einn með kyrrðinni. Eflaust hefur einn og annar spói látið til sín heyra og eflaust hafa einhverjir fuglar verið á sveimi. Ég held að það hljóti að hafa verið kindur svolítið hingað og þangað til að njóta af gjöfulum gróðrinum. Svo sneri ég til baka og var í tjaldbúðunum löngu áður en Klausturverjar komu úr sinni ferð.
 
Síðan ég upplifði þetta eru liðin rúmlega sextíu ár. Það væri gaman að endurtaka þessa gönguferð svo löngu seinna og sjá hversu vel minningin hefur varðveitt upplifunina. Kannski er raunveruleikinn allt öðru vísi, kannski stenst þetta nokkuð eða alveg. En svo sterk var þessi upplifuni frá því að ég var 14 ára að ég minnist gönguferðarinnar oft enn í dag eins og til dæmis þennan vormorgun.
 
Það var sem sagt fyrir klukkan sjö þennan morgun sem dagurinn byrjaði með þessu ferðalagi sem var fyrir mér svo ótrúlega ljóslifandi. Síðan velti ég fyrir mér að það byrjaði snemma áráttan hjá mér að njóta þess að vera einn í félagsskap tilverunnar. Ég þekkti þetta líka svo vel úr Kálfafellsheiðinni, heiðinni heima. Í þessum hugsunum minum var ég allt í einu kominn til Fatmomakke upp í sænska Norrland, um það bil 650 km í beinni línu til norðurs frá Sólvöllum. Fatmomakke var kirkjustaður Sama frá því upp úr 1700 eða svo og langt fram á síðustu öld. Kirkjustaður og ráðstefnustaður væri sagt í dag. Fólk kom þangað vor og haust til að gifta sig, skíra, jarða og ráða ráðum sínum. Við Susanne gengum inn á svæðið eftir snyrtilegum malarstíg í dásamlegu sænsku sumarveðri. Við höfðum hljótt um okkur eins og nánast allir sem við urðum vör við þarna. Við héldumst hönd í hönd og töluðum saman í hálfum hljóðum. Susannes hönd fór vel í minni og það virtist vera gagnkvæmt.
 
 
 
Við komum að húsi sem ég get ímyndað mér að hefði kallast þinghús á Íslandi hér á árum áður. Rúðuglerið hleypti inn birtu en allt útsýni varð dálítið snúið og úr lagi fært gegnum þetta gamla gler. Á veggjum voru rammar með textum sem voru um sögu hússins og staðarins. Ég man mjög lítið af því sem þar stendur en á þeirri stundu sem við vorum þarna inni vorum við samofin Fatmomakke. Það var upplifun.
 
 
 
 
Við héldum síðan áfram eftir bugðóttum stígnum sem nú lá upp dálítinn halla og umhverfis var mikill fjöldi af Lappatjöldum, það var heilt þorp.
 
 
 
 
Við komum í kirkjuna og stoppuðum þar all lengi. Það var stillt og hljótt þar inni og einhvers konar virðing meðal allra sem stigu inn yfir þröskuldinn. Einn maður kom þó á töluverðri ferð og opnaði dyrnar til hálfs, kom inn með efri hluta líkamans, signdi sig og hvarf álíka hratt og hann kom. Annars var kyrrð og friður. Við héldum áfram stíginn þar til hann mætti sjálfum sér. Við höfðum gengið í all stóran hring og héldum þar með til baka út af svæðinu. Við vorum sammála um að koma hér aftur að ári eða árum. Við vorum undir sterkum áhrifum af hljóðlátum niði sögunnar.
 
 
                                                                                                          Framhald kemur síðar
 
Hún er einföld og stílhrein kirkjan í Fatmomakke.
 
 
Einn af textunum í þinghúsinu í Fatmómakke.
 
 
Trackback
RSS 2.0