Plómutíð

Við erum með eitt plómutré á Sólvöllum sem gefur af sér grænar plómur. Þegar blómgunartíminn var í vor vorum við á Íslandi svo að við vissum ekki hvernig blómgunin hefði gengið. Við skoðuðum tréð þegar við komum til baka og það var ekki hægt að sjá að neinar plómur væru á leiðinni. Við endurteknar athuganir þegar leið á sumarið sáum við að það var ekkert annað að gera en sætta sig við að plómuuppskeran mundi bregðast í ár. Þegar leið að mánaðamótum júlí-ágúst merktum við þó að nokkrar plómur fengjum við þó að lokum. Þegar fimm hríseyingar voru hjá okkur í byrjun ágúst gengum við undir krónuna á plómutrénu okkar og sýndum þeim þær örfáar plómur sem væru að verða full þroskaðar.

Eftir hádegi í gær fórum við á Sólvelli til að vera þar í einn og hálfan dag. Þegar við gengum heim að húsinu tókum við eftir því að það lágu margar plómur undir trénu og það gerði okkur forviða. Við nánari athugum komumst við að því að uppskeruspá okkar hafði verið á alröngum rökum reist. Það var hellingur af plómum á trénu og hellingur á jörðinni. Þær höfðu bara verið svo líkar laufblöðunum meðan þær voru að þroskast að við sáum þær alls ekki. Þó var þetta ekki í fyrsta skipti sem við fengum ávexti af þessu tré svo við hefðum átt að geta séð betur.

Plómur beint af trénu eru afar góðar, svo góðar að það er vel hægt að borða yfir sig af þeim og þá skrækir maginn. Alla vega er það mín reynsla. Ég get vel ímyndað mér að sem barn og unglingur hefði ég getað borðað þær án vandræða. Í Vornesi eru nokkur plómutré og sum ár hefur uppskeran verið makalaust mikil og erfitt að láta vera að teygja sig eftir einni og annarri handfylli þegar framhjá var gengið. Eitt árið sligaðist tré þar undan plómuklösunum og klofnaði nánast í herðar niður eins og sagt var um íslenska vopnagarpa á fyrri öldum.


Namm, namm


Það er gaman að tína af trénu og fatan fyllist fljótt.


Á morgun ætlar Valdís að prufa uppskriftir sem við höfum fengið á feisbókinni en ég ætla í vinnuna til að vinna fyrir sykrinum.


Kommentarer
Rósa

Fær maður svo mynd af sultunni líka?



Kveðja,



R

2009-08-29 @ 23:28:04
Gudjon

Það var svona fullt af krukkum þegar ég kom heim og hún segist vera búin að senda myndir. Ég er að bíða eftir kaffinu sem ég hellti upp á og svo ætla ég að smakka.



Kveðja,



pabbi

2009-08-30 @ 14:43:56
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0