Grisjun

Klukkan er að verða sjö á laugardagskvöldi. Það er glampandi sólskin, vestan andvari og 18 stiga hiti. Í gærkvöldi rigndi eina tólf millimetra og nú er skógurinn bakvið bústaðinn vel á sig kominn, safaríkur og fallegur. Reyndar er hann alltaf fallegur, en þó, til að halda honum þannig þarf að sinna honum. Það hef ég alls ekki gert á þessu ári þar sem ég hef verið við smíðar í bústaðnum og svo í talsvert mikilli vinnu eins og ég hef oft getið í blogginu. Svo hef ég líka verið að afsaka mig með því að ég sé með svo lélega mjöðm að ég geti ekki grisjað. Nú er ég búinn að afsanna það, ég get vel grisjað og prufaði það fyrr í vikunni. Það gekk alls ekki sem verst. Svo fór ég út í skóg í gærkvöldi til að taka myndir og viti menn; það var svona líka flott að ganga þar sem ég hafði grisjað á mikudaginn. Því fór ég aftur af stað síðdegis í dag með klippurnar mínar. Eiginlega fannst mér frekar að ég væri að hreinsa illgresi, en það var þó í fyrsta lagi reyniviður sem ég fjarlægði og svo dálítið af greni. Það lætur kannski hrokafullt að kalla reynivið illgresi, en þegar það þjóta upp reyniviðarplöntur um og yfir heilan metra á ári og vaxa jafnvel með tíu sentimetra millibili, þá nálgast nú að mér finnist sem ég berjist við illgresi. Við svona aðstæður hindrar reyniviðurinn aðrar trjátegundir að ná sér á strik. Ég vil að til dæmis eikur, hlynur, beyki, heggur og birki geti vaxið í friði. Hann kannast við þetta hann Arnold bóndi og nágranni okkar. Hann sagði eitt sinn þegar hann kom við hjá okkur og við töluðum um þetta; reyniviður er bölvað skítatré. Við erum með 6000 fermetra skóg en Arnold 600 hektara svo hann getur þurft að berjast við marga reyniviði. En samt sem áður, reyniviður í blóma á vorin er fallegur og hann er líka fallegur um þessar mundir svo hlaðinn berjum að greinarnar hanga.


Þessi mynd sem ég tók af reynivið bakvið húsið rétt áðan í kvöldsólinni er engin góð mynd, en það má samt greina hangandi greinarnar undan þunga berjanna. Það getur komið upp ein og önnur reyniviðarplanta af þessu eina tré ef afkoman verður sæmileg, ein og önnur planta fyrir mig að grisja síðar meir.

Það var enginn glæsibragur yfir þessari vinnu minni. Ég lagðist á hnén og klippti kringum mig allt sem ég náði til og ég vildi fjarlægja. Svo færði ég mig um set og endurtók þetta. Í hvert skipti sem ég færði mig barði ég klippunum í jörðina ef það skyldu leynast slöngur í óræktinni. Ég veit að þær eru til staðar  og svona aðstæður bjóða upp á að hittast. Þegar ég vann síðast í Vornesi fór ég um kvöldið inn í eldhúsið til að taka til morgunverðinn minn fyrir næsta dag. Þegar ég opnaði hurðina blasti við mér snákur mitt á eldhúsgólfinu og var þó ekki óræktinni fyrir að fara þar. Þetta var svo sem fet langur snákakrakki sem reisti strax upp framhlutann og virtist reiðubúinn til bardaga og gulu flekkirnir aftan við augun urðu sérstaklega áberandi. Þegar ég gekk inn gólfið lagði hann þó á flotta. Svo þegar ég kom við hann með sópnum var eins og hann missti alveg máttinn. Í fægiskúffu bar ég hann út í hæfilega fjarlægð og sleppti honum. Svíarnir segja að það eigi bara að taka snáka í afturendann og bera þá burtu, en ég fann upp þessa fægiskúffuaðferð við svipaðar aðstæður fyrir nokkrum árum og aðhyllist hana frekar. Ég veit líka að það þora ekki allir svíar að taka snák í afturendann þó svo að þeir séu ekki eitraðir. Það eru til bæði höggormar og snákar kringum Sólvelli en þeir eru afar sjaldséðir og líka skíthræddir við fólk.

En nú breytti ég skógarvinnufrásögn minni í hetjusögu af sjálfum mér. Ég verð að segja að ég hafði mikla hvatningu við grisjunina. Meðan ég var þarna í skóginum vissi ég að Valdís var að gera góðan kvöldmat. Ég hafði líka grun um að hún ætlaði að hafa ávexti og ís í eftirrétt. Namm namm. Ég hlakkaði til að koma til baka og kom alveg á réttu augnabliki til að raða í mig. Hún er búinn að ofdekra mig þessi kona. Annars horfir hún mikið á íþróttir um þessar mundir og er vel að sér um afrek sigurvegaranna og hvaðan þeir koma.

Þegar byggingarframkvæmdir verða aukaatriði á Sólvöllum á skógarvinnan að verða meira atriði. Sólvallaskógurinn á að verða vel hirtur laufskógur blandaður stórum furu- og grenitrjám. Ég er búinn að skrifa þetta í nokkrum áföngum. Úti er mikil kyrrð en íþróttafréttir rjúfa kyrrðina hér inni. Hitamælirinn er fallinn niður í 12 stig en spáin fyrir næstu fimm daga er 19 til 21 stigs hiti og vindur á að verða mjög hægur.


Kommentarer
Rósa

Loka hurðinni! Þá hverfur íþróttabullið.



Kveðja,



R

2009-08-23 @ 17:05:08
Anonym

Að vissu marki, annars getur maður orðið félagsskítur.

Var að enda að tala við Villy Svensson.



Kveðja,



pabbi

2009-08-23 @ 17:12:09


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0