Ég ÆTLA að blogga

Ég kom inn hér á Sólvöllum fyrir stuttu eða milli klukkan sex og sjö og það var byrjað að borða. Ég var alveg ákveðinn í því að blogga þegar við værum búin að borða. Svo vorum við búin að borða og ég gekk að tölvunni en var alveg galtómur. Þegar ég hafði ákveðið að fresta bloggi til seinni tíma vegna þessa tómleika fann ég allt í einu fyrir þráa og hugsaði sem svo að ég gæfi mig ekki svo létt. Svo byrjað ég.

Ég var að vinna í Vornesi í gærkvöldi og nótt og aldrei slíku vant var svoítið vesen á vinum mínum ölkunum þannig að ég fékk ekki nema um fjögurra tíma svefn. Og það er ekki að því að spyrja að ef ég fæ ekki mína átta tíma verð ég haltari og ef ég fæ ekki nema fjögurra tíma svefn verð ég draghaltur. Það hefur ekki alveg verið minn dagur í dag, síðan um hádegi eða svo.

Hún Binna mágkona mín er í heimsókn og þær systur virðast mjög samrýmdar. Nú erum við þrjú á Sólvöllum. Þær horfa á fréttir sem stendur en ég horfi út í skóg milli þess sem ég slæ inn einni setningunni eftir aðra.

Um daginn gaf hún Githa okkur eikarplöntu sem hún sáði fyrir í vor. Þetta var gert í ákveðnum tilgangi og það átti að vera táknrænt að það var sáð fyrir eikinni á þessu ári. Síðan var þessi litla eik gróðursett með miklum greftri og viðhöfn fyrir svo sem þremur vikum meðan Rósa og Pétur dvöldu hjá okkur. Svo þegar gróðursetningunni var lokið horfðum við á verkið með lotningu og vorum ánægð. Eikarplantan var falleg. Svo var ákveðið að setja hænsnanet í kringum plöntuna svona til vonar og vara en netið áttum við ekki. Það skyldi kaupa þegar ég fengi næsta frí frá vinnu. Svo yfirgáfum við Sólvelli og við Valdís komum til baka snögga ferð einum þremur dögum seinna. Fyrsta verkið þegar við komum inn á lóðina var að líta á litlu eikina. En viti menn; það var búið að éta af henni hvert einasta blað. Það varð sorg og svolítið álasaði ég mér fyrir að hafa ekki lagt umsvifalausa áherslu á hænsnanetið. En afhverju í ósköpunum þurftu dádýrin að velja "þessa" eikarplöntu af öllum þeim þúsundum plantna sem finnast bara í Sólvallaskóginum svo ekki sé talað um allt nágrennið.

Githa er ekki við eina fjölina felld. Þegar hún frétti af þessu slysi sagðist hún eiga aðra litla eik sem einnig var sáð fyrir síðastliðið vor. Þessa eik fengum við líka og þegar við komum með hana á Sólvelli eftir hádegið í dag get ég lofað ykkur því að hænsnanetið var með. Nýju plöntuna lagði ég nærri blaðlausu plöntunni og ætlaði í rólegheitum að búa mig undir nýja gróðursetningu. Heltin var farin að aukast eftir því sem leið á daginn og ég ákvað að fara gætilega. Í leiðinni leit ég á þennan blaðlausa fimmtán sentimetra háa stilk sem áður var svo falleg eikarplanta. En hvað? Jú! Möguleikar Skaparans eiga sér engin takmörk. Ég gat ekki betur séð en það væru farin að vaxa ný agnarlítil blöð litlu eikina.

Eftir súpudisk og flatbrauð fór ég í smekkbuxurnar og svo hófst verkið. Nýju plöntuna setti ég eina fimmtán sentimetra til hliðar við þá fyrri. Síðan rak ég niður fjóra litla staura og gekk síðan frá hænsnanetinu umhverfis plönturnar og einnig yfir. Svo fullvissaði ég mig um það öðru sinni að það væru farin að vaxa ný agnarlítil blöð á fyrri eikarstilkinn. Hun er á lífi. Í haust eða að vori getum við síðan valið um hvor plantan fær að vera á þessum stað, en hin sem verður tekin burt, verður sett niður ein hvers staðar annars staðar í Sólvallalandinu. Þrátt fyrir ótal sjálfsánar eikarplöntur í landinu okkar verður eikunum frá henni Githu sýnd sérstök virðing. Við vitum með vissu hvaða ár þær eru fæddar.

Kvöldhúmið er að leggja faðm sinn yfir skóginn. Laufblöðin á eikum og björkum utan við gluggann bærast varla. Reyniviður aðeins lengra burtu er svo hlaðinn rauðum berjum að greinarnar hníga undan klösunum. Lengra burtu er haf af öllum mögulegum tegundum og þar hefur rökkrið setst að.

Þá er ég búinn að gera það sem ég hélt að mér tækist ekki að þessu sinni; ég er búinn að blogga. Eftir að hafa staðið í hvíldarstöðu við hátt skrifborðið er mér farið að líða betur í fætinum. Ég er líka búinn að fá mér verkjatöflu. Í nótt ætla ég að vera eina níu tíma í draumalandinu með honum Óla lokbrá.


Kommentarer
Valgerður

Dónar geta þessi dýr verið að éta frá þér laufblöðin eins og þið eruð alltaf tillitssöm við þau. Þau ættu að skammast sín.

2009-08-15 @ 01:56:15
Guðjón

Það var alveg sérstakt að koma út úr þéttum skóginum og grípa einmitt þessa litlu plöntu. En ég hef lært mína lexíu; að ekki skilja við verk hálf unnið.

2009-08-15 @ 09:29:27
URL: http://gudjon.blogg.se/
Valgerður

Ertu farinn að baka flatkökur spyr Jónatan eða er þetta eitthvað sænskt flatbrauð sem þarna er nefnt?

2009-08-18 @ 13:27:37
Gudjon

Þetta var reyndar sænskt flatbrauð, hálfgerðar loftkökur. Ég vil hafa góðan tíma þegar ég fer í alvöru flatkökurnar og ég lofa að senda myndir af þeirri tilraun.



Kveðja,



pabbi

2009-08-30 @ 16:41:41
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0