Fiskimannsdæturnar

"Sensommar" segja svíarnir og það hefur verið vestan vindur í dag. Ég kom heim úr vinnunni um ellefu leytið í morgun og upp úr hálf eitt var kominn tími til að fara með mágkonu mína, Brynhildi, á lestarstöðina í Örebro. Síðustu heimsókn ársins sem við vitum um er þar með lokið. Þær systur, Valdís og Binna, kvöddust greinilega með trega og það er auðvitað skiljanlegt. Heimsóknin hefur aðallega gengið út á að vera saman og spjalla. Vermlandsferð var þó farin og það bloggaði ég um í fyrradag. Þær systur fóru í bæinn eins og gengur og kíktu til dæmis í búðir. Við vorum á Sólvöllum og ég vann líka hluta af þessum heimsóknartíma. Hvað gerir fólk svo sem þegar það heimsækir hvert annað. Alla vega á okkar bæ gildir þetta mikið að vera saman. Við getum líka skipst á að vera heima og á Sólvöllum.

Hún mágkona mín var ekki alveg afslöppuð vegna þessarar lestarferðar niður til Gautaborgar þar sem Jóhanna dóttir hennar tók á móti henni, en fólk ættað að Norðan lætur sér þó ekki allt fyrir brjósti brenna. Það gerði heldur ekki hún Binna mágkona mín. Það var þess vegna sem hún lét sig hafa það og ferðaðist ein með lest á ókunnum slóðum. Ég læt hér myndir tala.


Hér er Binna að læra hvernig skilti á lestarstöðinni í Örebro virkar og mér sýnist á henni að hún sé að átta sig á að þetta sé ekki svo alvarlegt. Hún hefur gert þetta áður og hún kom líka með lest hingað fyrir viku síðan.



Svo var komið að kveðjustundinni og þær hlógu. Samt hlógu þær nú eiginlega ekki. Það var meira gert fyrir myndavélina og mig. Svo knúsuðust þær og sögðu bless, bless og bless hvað eftir annað og svo var ekki um annað að ræða en stíga um borð. Svo sáum við Valdís inn um glugga hvar hún mágkona mín var komin í sæti. Það erfiðiðastsa við ferðalög er um garð gengið þegar lagt er af stað. Svo var það líka að sjá að þessu sinni. Þakka þér fyrir komuna mágkona mín og velkomin aftur hvort sem það verður 14. desember eða einhvern annan dag (nokkuð sem við notuðum til að gera að gamni okkar í morgun).


Nú er það svo að fiskimannsdæturnar hef ég líka oft kallað Kidda Villadæturnar og þær eru ekki bara Valdís og Binna. Árný Björk býr í Garðabæ og hún hefur líka komið í heimsókn til okkar á árum áður með kallinum sínum. En þetta blogg er bara systrablogg og við verðum að hafa Árnýju mágkonu mína með.



Þessi mynd af henni Árnýju var tekin önnur jólin okkar á Sólvöllum, eða 2004. Þá komu þau í heimsókn um jól Arný og Gústi. Við tókum okkur tima til að grisja skóg og vorum öll fjögur út í skógi að vinna við þetta til að jólamaturinn skyldi ekki allur setjast utan á okkur. Hér greip hún bogasögina og hamaðist við að brytja niður grennri grenistofn.



Það voru jú jól og ekki alltaf verið að grisja skóg. Þessi mynd var tekin af Árnýju við jólatréð heima í Örebro árið 2004. Hún er broshýr þarna hún mágkona mín.



Og á Sólvöllum líðst engin óreiða. Það logar fallega í kamínunni og Árný hreinsar upp öskuna. Síðan má setjast niður og njóta þess að horfa í eldinn. Mig minnir líka að þessi jól hafi verið spilað á Sólvöllum.


Þá er ég búinn að kynna mágkonur mínar þær sem eru systur konu minnar bæði í þessu og fyrri bloggum. Það er orðið dimmt og vestan vindurinn er genginn niður. Ég er orðinn lúinn og er til í að sofa níu tíma í nótt eftir að hafa unnið síðustu nótt. Fimm daga spáin gerði áðan ráð fyrir 18 til 24 stiga hita.  Það er hlýtt þó að það sé "sensommar" og eins og ég hef oft sagt áður þá er skógurinn svo ótrúlega fallegur. Það er nokkuð sem aldrei getur orðið hversdagslegt.


Kommentarer
Guðmundur Ragnarsson

Sæl verið þið.

Ég er nýlega búinn að uppgötva bloggið þitt, Guðjón og heg óskaplega gaman af. Í fyrradag sátu foreldrar mínir (þeir voru hér í augnlæknastússi) við tölvuskjáinn og lásu bloggin um fiskimannsdæturnar, hríseyingana og fleira.

Þú ættir að hugleiða að skrifa bók, nú eða bækur!

Bestu kveðjur,

Mummi



2009-08-19 @ 22:46:14
Gudjon

Þakka þér fyrir Mummi, það voru ljúf orð. Skilaðu okkar bestu kveðju til foreldra þinna.



Með bestu kveðju,



Guðjón

2009-08-20 @ 09:21:09
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0