Finnkampen

Ég leit í gegnum nokkur af bloggum mínum áðan og komst þá að því að ég hafði ekki svarað öllum sem höfðu gert athugasemd. Það var lélegt af mér en nú hef ég bætt úr því.

Ég fékk um daginn flatkökuuppskrift frá honum Jónatan tengdasyni mínum. Hann var þá að tala um að fara að baka flatkökur og ég spurði eitthvað út í flatkökugerð og hann sendi mér þá uppskriftina. Þá áttaði ég mig allt í einu á því að mér fannst sem ég fynndi lykt af flatkökubakstri. Þá tók ég ákvörðun um að það skyldi sko verða af flatkökubakstri. Nú vorum við Valdís að ræða þetta og skipuleggja og ég er ekki í vafa um að í næstu viku mun finnast flatkökulykt á Sólvöllum. Að ég kem inn á þetta núna kemur til af því að ég var áðan að svara fyrirspurn frá Valgerði á gömlu bloggi um það hvort íslensk flatkökugerð væri hafin í Örebrosýslu.

Nú stendur yfir í Gautaborg árleg íþróttakeppni milli finna og svía sem heitir Finnkampen. Ég sat um stund fyrir framan sjónvarpið og fylgdist með. Ég hef lengi haldið að ég væri hættur að vingsa með fótunum þegar fólk er í hástökki, langstökki og svona löguðu, en nú veit að ég er alls ekki hættur því. Svíi var að kasta sleggju og þegar hann riðaði á barmi þess að stíga út úr hringnum eftir kastið reyndi ég svo mikið að hjálpa honum að ég var nærri því að snúa mig úr öklaliði og minna má nú gagn gera. Svo var það stangarstökk og þá reyndi ég líka að hjálpa til og lyfti hægri fæti hátt á loft þar sem ég sat fyrir framan sjónvarpið. Svolítið var það ýkt að ég hafi verið nærri að snúa mig úr öklaliði en alla vega, þá sneri ég vel upp á öklann. Þetta minnti mig á æfingu í frjálsum íþróttum í Hrísey fyrir meira en 40 árum þar sem Þóroddur heitinn Jóhannsson var þjálfari. Það var verið að æfa hástökk og fjöldi ungra manna og kvenna spreitti sig við slána. Ég reyndi að lyfta ekki fætinum en það var eiginlega alveg ómögulegt að ekki gera það. Svo fór ég að fylgjast með þeim öðrum sem voru nærstaddir og það var gaman að sjá. Ég held að nánast hver einasti sem á annað borð horfði á, hafi lyft fætinum þegar ákaft íþróttafólkið spyrnti sér á loft. Þjálfarinn gerði það líka. Þessi æfing átti sér stað á gamla vellinum rétt sunnan við núverandi grunnskóla í Hrísey og jafnvel inn á svæðinu þar sem skólinn stendur.

Ég kom heim úr vinnu um klukkan hálf þrjú í dag. Mitt fyrsta verk heima var að smakka plómumarmelaðið sem Valdís gerði í gær, úr plómum af okkar eigin plómutré. Mér lá á og þess vegna fékk ég mér marmelaði beint ofan á kexköku. En ég hef á tilfinningunni að þetta plómumarmelaði verði allra, allra best ofan á ost á ristuðu brauði. Og ekki verður það slæmt aðeins upphitað með ís um jól og áramót. En nú er veisla að ganga í garð og þar er hvorki um flatkökur eða marmelaði að ræða. Það er nýtt lambakjöt með hrísgrjónum og karrýsósu. Nú vitið þið sem kannski lesið þetta hvernig lykt er heima hjá okkur á þessari stundu.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0