Blandað efni

Þann 31. desember fyrir rúmlega einu og hálfu ári kostaði sænska krónan rúmlega níu krónur íslenskar. Í dag kostar sænska krónan aftur á móti rúmlega átján krónur íslenskar. Íslensku lífeyrisgreiðslurnar okkar Valdísar hafa sem sagt lækkað um helming að verðgildi ef við þurfum að flytja þessa peninga til Svíþjóðar til þess að lifa. Fjármálaástandið íslenska hefur líka áhrif á velferð okkar hér í öðru landi. Heppinn ég að hafa vinnu þó að ellilífeyrisþegi sé. Jafnvel þó að þessi ástæða væri ekki fyrir hendi mundi ég vilja vinna eitthvað, en minna mætti gagn gera. Það er gott fyrir mig að finna að ég sé gjaldgengur á vinnumarkaði og ég finn vel að svo er. Ef ég dygði ekki í það sem ég er að gera mundi ég finna hressilega fyrir því og það hefur reyndar fólk fengið að upplifa sem er yngra en ég, og hluti vinnu minnar núna orsakast einmitt af því. Hins vegar er galli að Valdís er mikið ein á nóttunni þar sem mest af minni vinnu er kvöld- og næturvinna. Hún hins vegar sannar dugnað íslensku fjallkonunnar og stendur þetta af sér bein í baki. Þessi mikla næturvinna mín orsakast af því að við erum tveir ellilífeyrisþegar sem skiptum á milli okkar að leysa af við öll möguleg tækifæri, bæði nætur og daga, og þessi gamli vinnufélagi minn og góði vinur er orðinn full mettur á að vinna kvöld og nætur. Við svona aðstæður segir íslendingurinn; þá það, við björgum því samt. Þannig blómstrar samvinna mín og fyrrverandi fallhlífahermanns í friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna.

Þetta var eitthvað að brjótast í kollinum á mér áðan og samstundis var ég að skoða gamlar myndir í hinu nánast ægistóra myndasafni sem tölvan okkar heldur utan um. Ég var nefnilega að velta því fyrir mér að þegar ég minnka verulega vinnu mína, eða hætti alveg, þá þarf ég að gera gríðarlegt átak í að koma skipulagi á myndirnar. Ég tók nokkrar stikkprufur og leit á nokkrar myndir bara til þess að sjá að þær væru vel varðveislunnar virði. Bloggið er fyrir mig nokkurs konar dagbók og viti menn; hvílík dagbók er ekki þetta myndasafn. Ég varð svolítið uppnumin. Ég birti hér eina mynd frá 2005 og þrjár myndir frá 2007 sem komu upp af algerri tilviljun.


Það var lágskýjað veður einn júlídag 2005 þegar Rósa og Pétur voru í heimsókn og við skruppum tilo Nora, skammt norðan við Örebro, einn fallegasti staðurinn í Örebrohéraðinu, og þessa mynd tók ég af Rósu, Pétri og Valdísi í þeirri ferð.


Frá járnbrautastöðinni í Örebro 13. apríl 2007 þegar Valgerður og Rósa komu með stærðar kirsuberjatré með sér í lestinni í tilefni að 65 ára afmæli mínu.


Sama dag og síðasta mynd. Hér erum við á Hjälmaregården við sunnanverðan Hjälmaren. Við borðuðum þar mat í tilefni að afmæli mínu, spókuðum okkur í sólinni á bakka vatnsins og borðuðum súkkulaði með kaffinu á eftir.


Á leiðinni heim eftir matinn komim við við hjá mjög gamalli eik sem var nýlega fallin í valinn. Eikur deyja innan frá ef þær fá að vera svo gamlar. Þessi er ein slíkra. Síðustu árin var bolurinn svo holur að neðan að það hefði verið hægt að koma þar fyrir hægindastól og láta fara vel um sig.

Ég er búinn að nota eitthvað af þessum myndum áður í bloggi hef ég grun um. Látið mig vita ef þið verðið vör við þær í fimmta skiptið.


Kommentarer
Valgerður

Við kíkjum líka stundum á þessar myndir frá því ég skrapp í afmælið þitt. Jónatan hefur nefnilega aldrei komið að Sólvöllum en allir aðrir í þessum íslenska legg af fjölskyldunni. MAn ekki hvort það var Guðdís eða Erla sem spurði hvort amma og afi flyttu nú heim til Íslands út af þessu með gengið. Maður spyr sig

2009-08-28 @ 13:10:24
Gudjon

Ennþá hefur það bara gilt að vinna svo að það þurfi sem minnst að flytja af peningum. Mér er ekki vorkunn að vinna ennþá, held reyndar að það sé mjög gott fyrir mig. Það er svo spurning í hversu ríkum mæli. En látið ykkur ekki dreyma um slíkt fyrr en Jónatan hefur komið á Sólvelli. Við höfum ekkert velt þessu fyrir okkur.



Kveðja,



pabbi

2009-08-30 @ 14:48:56
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0