Fiskimannsdæturnar

Það fóru systur út í skóg í dag til að tína ber. Ég fór með myndavélina og tók myndir til að geta sett af þeim í bloggið mitt, en þegar til átti að taka var snúran ekki með, snúran til að færa myndirnar af myndavél inn á tölvu. Ég er lélegur í þessari tækni og mér finnst sem hálfa lífið sé farið að ganga út á snúrur. Heima í Örebro er kommóðuskúffa sem er sannkölluð snúruskúffa og þar vildu oft myndast flækjur áður. Valdís kom góðu skipulagi á þessa skúffu þegar hún vafði snúrunum upp í snyrtilegar hankir og brá svo bandi utan um hankirnar. Þar með var hver snúra orðin að snyrtilegu, svolítið aflöngu knippi með kló á öðrum endanum og straumbreyti á hinum og engin flækja finnst í snúruskúffunni lengur. En mér finnst gott að hafa farsíma, myndavél og tölvu og vil ekki vera án. Þó hefur mér oft dottið í hug að það væri gaman að prufa að vera einn í fjallakofa langt frá mannabyggð, án útvarps, sjónvarps og tölvu en hafa þó farsíma til að geta látið vita af mér daglega, að ég sé á lífi. Flestum finnst þetta vitlaus hugmynd en þó er til fólk sem myndi gjarnan vilja reyna þetta líka. Það væri fróðlegt að vita hvaða minningar og hugsanir kæmu upp á yfirborðið á einni viku. Þetta yrði án efa mikil hreinsunarvika.

Aftur að systrunum sem fóru út í skóg að tína ber. Konan mín var að sjálfsögðu önnur þeirra og ég hef oft kallað hana fiskimannsdótturina frá Hrísey. Hún var huguð nóg til að fylgja mér til annars lands fyrir meira en 15 árum. Dvölin átti að vera aðeins fáein ár en það fór á annan veg. Ég hef oft orðið undrandi á því að hún tók þátt í þessu með mér. Í fyrsta skipti sem ég varð virkilega undrandi var upp í Falun á fyrstu árum okkar hér, þegar hún var í skóla sem er kenndur við fullorðinsfræðslu og þar lærði hún sænsku. Það var komið að lokum annarinnar og ég fór með Valdísi til skólans þar sem hún þurfti að sækja eitthvað. Hún hitti konur utan við skólan og þær tóku tal saman. Ein þeirra var frá Sri Lanka en ég man ekki hvaðan aðrar voru. Þarna stóðu þær í þyrpingu utan við aðalinnganginn og töluðu saman á sænsku. Ég sat í bílnum, horfði á og var hissa.

Nú eru fiskimannsdæturnar frá Hrísey tvær hérna á Sólvöllum. Binna er í heimsókn. Binna hefur lengi verið tengd Svíþjóð þar sem dóttir hennar hefur búið hér í áratugi. Núna eru dætur hennar í Svíþjóð tvær þannig að hún á meira erindi hingað en áður. Ég spurði hana áðan hvernig henni liði í þessu landi og hún svaraði "bara, bara mjög, mjög vel". Ég held reyndar að hún segi þetta alveg dagsatt hún mágkona mín. Núna sitja þær frammi í stofu hér á Sólvöllum, prjóna og tala rólega saman. Núna vantar bara hana mágkonu mína úr Garðabænum svo að fiskimannsdæturnar frá Hrísey væru hér allar þrjár.

Út við skógarjaðarinn rýkur úr holu. Það er ekki í fyrsta skipti. Í holunni er lambakjöt að grillast, lambakjöt kriddað með pipar og salti og vafið í birkilauf og álpappír. Hvítlaukur mun leynast í því líka. Fiskimanndsóttirin mín frá Hrísey er snillingur í þessari matargerð. Núna er hún að leggja á borð og eftir smá stund á ég að sækja kjötið. Svo verður veisla.


Kommentarer
Rósa

vonandi voru berin góð!



kveðja,



r

2009-08-16 @ 15:53:01
Gudjon

Þau voru góð, voru notuð út í morgunkornið, full með antioxidanter.



Kveðja,



pabbi

2009-08-16 @ 18:04:07
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0