Hríseyingar í Örebro 4

Heimsókninni sem við öfum haft í heila viku lauk í morgun þegar hríseyingarnir fimm fóru með lestinni til Stokkhólms upp úr klukkan níu. Eftir á að hyggja fannst mikið meiri dýpt í þessari heimsókn en látið var í veðri vaka meðan á henni tóð. Ég skal þó viðurkenna að ég renndi huganum til liðins tíma án þess að taka það upp í umræðunni okkar á milli og gerði mér grein fyrir því að allt þetta fólk hafði á sinn hátt og misjafnlega mikið haft áhrif á mig og þann sem ég er í dag. Þannig er það með þetta óskrifaða lögmál. Við Valdís bjuggum í Hrísey í 30 ár. Þó að Anna Björg og Magnús hafi flutt þaðan nokkuð snemma á þessu tímabili hafa þau samt alltaf hríseyingar í huga mínum, svo ég tali ekki um Sigurhönnu og Friðbjörn sem eru bara nýflutt þaðan.




Þessar konur, Sigurhanna og Anna Björg, voru að verða unglingar þegar ég flutti til Hríseyjar. Eftir að ég fór að vinna hjá honum Björgvin pabba þeirra var oft drukkið morgun- og síðdegiskaffi þar heima. Það var ekki ósjaldan að þær sáu til þess að kaffið og brauðið væri til staðar þegar ég settist þar glorhungraður að matborðinu. Mikið var langt frá því þá að mig óraði fyrir því að ég ætti eftir að eiga þessa daga með þeim hér úti í Svíþjóð. Takk fyrir alla þessa kaffibolla og brauðsneiðar fyrir nærri hálfri öld stúlkur mínar.




Ég hafði trassað allt of lengi að skipta um hnífa í sláttuvélinni fyrir Valdísi. Eftir áminningu frá henni keypti ég nýja hnífa og sláttuvélinni veltum við á hliðina. Ekki var um annað að ræða en að Björgvin tæki þátt í þessu. Kambur undir vélinni sem hnífarnir eru festir við var all snúinn og undinn og ekki var um annað að ræða en taka hann undan og rétta eitthvað af. Ég ætlaði að fara bakvið húsið og leggja þennan kamb á planka sem þar var og slá hann til. En Björgvin var á öðru máli. Þetta hér er hreinn járnsmíðabekkur, sagði hann, og gekk að gamla flaggstangarfætinum. Svo hélt ég við og Björgvin hamraði járnið. Ekki var nú laust við að ég kannaðist við taktana og rólega yfirvegunina frá því forðum daga. Sláttuvélin varð sem ný við þessa lagfæringu.




Hvað gerir fólk svo í einnar viku heimsókn í Svíþjóð. Það var ekki laust við að okkur Valdísi þætti sem smekkur okkar og þeirra færi vel saman. Það var einfaldleiki og rólegheit sem réði ríkjum. Þarna völdum við að vera í skugganum bakvið Sólvallahúsið og Valdís smellti þessari mynd af okkur. En heyrðu mig Friðbjörn, hvað varð af þér þegar þessi mynd var tekin? Ég vissi ekki betur en þú hefðir verið þarna líka.

Valdís var byrjuð á matargerð og frampartur umlukinn birkilaufi og álpappír hvíldi á grillkolum í holu við skógarjaðarinn. Svo var spjallað og góða veðrið faðmaði okkur að sér. Lyktin úr grillholunni minnti okkur öðru hvoru á að brátt yrði matur.




Sigurhanna og Björgvin fóru út undir stóru Sólvallaeikina og tíndu sveppi í sósuna sem Valdís var að undirbúa. Ég veit að Björgvin er vanur og góður berjatínslumaður, en að sjá hann tína sveppi úti í Svíþjóð, ja, ég segi nú bara ekki meir.



Friðbjörn og Magnús slöppuðu af áður en Friðbjörn brúnaði kartöflurnar fyrir Valdísi.



Á hverjum degi notfærði ég mér að vanur byggingarmeistarinn Björgvin Pálsson var á staðnum og ráðgaðist við hann um komandi aðgerðir á Sólvöllum. Í gær, síðasta daginn á Sólvöllum, spurði ég hann hvort hann vildi ekki leggja sig. Það var af og frá að hann vildi leggja sig en ég sagðist samt ætla að sækja teppi sem væri í bílnum. Ég sá á honum að það var algerlega fjarri honum að vilja leggja sig. En þegar ég hafði slengt teppinu þarna á jörðina og vildi fá hann til að líta með mér inn undir húsið og spá í lagfæringu á gamla gólfinu var hann boðinn og búinn. Hinu fólkinu þótti við ögn hlægilegir liggjani þarna við húsvegginn og það voru teknar af okkur margar myndir.



Svíþjóð herfur virkilega skartað sínu fegursta þetta sumar eins og þetta land gerir ævinlega. Það þarf eiginlega ekki annað en snúa sér við, þá tekur við annað fallegt sjónarhorn. Þegar við Valdís fluttum hingað fyrir fimmtán og hálfu áru datt mér ekki í hug að ég gæti orðið svo ástfanginn af einu landi. Það sem við ferðuðumst saman þessa viku, við og hríseyingarnir,  voru bara fáein hundruð kílómetrar en ómótstæðilegu sjónarhornin voru þó óendanlega mörg. Við þökkum ykkur innilega fyrir heimsóknina hríseyingar. Og Valdís mín, þakka þér svo mikið fyrir kvöldmatinn í gær, hann var svo góður.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0