Sex ára -eða sextíu og sex ára

Ég hef unnið tvö kvöld í Vornesi þessa viku. Að vinna kvöld þýðir að ég er í Vornesi um hádegi og kem heim aftur á tímabilinu hálf ellefu til tólf daginn eftir. Fyrir þetta fæ ég dágóðan gjaldmiðil sem dugir fyrir helling af einangrun, fyrir vinnu rafvirkja með tilheyrandi rörum, leiðslum og rofadósum með meiru, eða þá fyrir slatta af krossviðar- og gipsónettplötum. Í dag var ég óvenju seint heima eftir að hafa unnið kvöld, eða klukkan að verða eitt.

Nú í nokkrar vikur höfum við talað um að við þyrftum að kaupa nýja síu í uppþvottavélina og einnig körfuna sem hnífapörin eru sett í þar sem báðar eru úr sér gengnar. Einnig vantar okkur hillu í ískápshurðina sem brotnaði strax eftir að við keyptum ísskápin fyrir fáeinum árum. Hilluna reyndar notum við en það er nú best að fá nýja meðan þessi tegund finnst í verslunum. Svo ætluðum við í sömu verslunarferð að koma við í tölvuverslun til að spyrjast fyrir um skrítin hljóð sem eru farin að gera vart við sig í tölvunni. Þessu hefur verið slegið á frest viku eftir viku vegna þess að Sólvellir hafa alltaf legið í fyrirrúmi. Ég hef alltaf orðið svo glaður þegar Valdís hefur sagt að við gætum svo sem gert þetta aðeins seinna og svo hafa vikurnar liðið.

Á leiðinni heim frá Vornesi í dag var ég í huganum að undirbúa smíðavinnu næstu daga á Sólvöllum. Ég sá fyrir mér einangrunina í þakinu sem á að ná alveg upp í mæni. Ég er búinn að setja þessa einangrun upp í þakið fyrir utan alveg upp við mæninn þar sem það vantar um 40 sm sitt hvoru megin við mæninn. Ég ákvað að byrja á þessari einangrun upp við mæninn þegar við kæmum á Sólvelli í dag og þegar hún væri kominn upp væri komin einangrun á alla fleti herbergisins og þar með yrði mikið auðveldara og ódýrara að halda uppi nægum hita í herberginu svo að þar yrði gott að vinna og einnig að viðir færu að þorna og setja sig. Svo hugsaði ég út hvernig ég ynni við langbönd sem eiga að koma innan á útveggjastoðir og neðan á sperrur sem veggja- og þakplötur eiga síðan að festast á. Síðan sá ég fyrir mér fallega málaðar veggjaplötur og hvernig ég mundi setja upp loftplöturnar sem við ætlum að kaupa málaðar og tilbúnar í verslun. Þær eru hvítmálaðar með viðarmunstri, munstri eins og við sjáum á vel söguðum greni- eða furuplanka sem er þurrkaður og vel með farinn. Að lokum sá ég fyrir mér að rúmið væri komið inn í herbergið, ég lægi þar á bakinu einn sunnudagsmorgun og horfði upp í þetta fallega, súðarlaga loft, upplýst af birtunni sem læðist svo hljóðlega inn um gluggann hátt uppi á norðurstafninum. Ég upplifði hámark lífsgæðanna sem voru verðlaun fyrir margar vinnustundir, daga, vikur, mánuði og ár sem þessi bygging hefur tekið tíma minn og okkar beggja. Ég ætlaði að liggja lengi á bakinu og horfa upp í þakið þennan morgun og bara njóta.

Nú var ég kominn áleiðis veginn sem liggur síðasta spölinn frá Vornesi og liggur beint til norðurs til Örebro. Þar er lítið samfélag, kannski á stærð við Kirkjubæjarklaustur, sem heitir Ekeby og vegurinn liggur við jaðar þorpsins. Þar er hámarkshraði 70 km og þar er hraðamyndavél. Það var þarna sem ég var farinn að slappa svo notalega af í nýja svefnherberginu og virða fyrir mér loftið og ég hafði ekki hugmynd um á hvaða hraða ég fór framhjá Ekeby og hraðamyndavélinni. Mér brá og ég snar hægði á ferðinni en var þá þegar kominn framhjá. Það var eins og ég reiknaði með að myndavélin mundi fyrirgefa mér ef ég hægði á þó að það væri kominn 90 km vegur. En alla vega; ég sá ekkert leyftur frá myndavél en það var túlega ekki mér að þakka heldur því að hún var alls ekki í gangi.

Að lokum var ég kominn heim eftir sólarhrings fjarveru. Ég kom upp stigann og heilsaði Valdísi. Umsvifalaust að því loknu lagði Valdís fyrir mig áætlun fyrir þennan dag. Hún hljóðaði upp á að við færum fyrst í verslunina varðandi uppþvottavélina og ísskápinn og lykjum erindum okkar þar. Að því búnu færum við inn í miðbæ í Örebro þar sem Valdís ætlaði að skipta einhverri bók í bókaverslun. Að því búnu færum við í tölvuverslun og reyndum að fræðast um hvað gengi að tölvunni. Síðan færum við heim og tækjum því rólega til morguns og færum þá á Sólvelli.

Ég féll næstum saman. Eftir alla mína skipulagsvinnu á leiðinni heim og draumana um gott líf á Sólvöllum þegar allt væri komið í kring og tilbúið, þá átti bara að eyðileggja þennan dag. Ég fann hvernig ég á einu andartaki varð að sex ára strák sem hafði orðið fyrir meiri háttar vonbrigðum með eitthvað spennandi sem hann átti von á. Ég fann hvernig ég hljóðnaði (sem sex ára strákurinn hefði kannski ekki gert) en reyndi þó að líta hress út og reyndi líka að vera jákvæður þegar ég samþykkti að það væri best að gera svo. Ég var kominn í fýlu. Svo barðist ég við sjálfan mig og reyndi að verða fullorðinn aftur en fann hvernig það stóð mér alveg upp í hálsinn. Eftir að hafa litið í Morgunblaðið í tölvunni og séð að það gekk hægt að rétta við íslenska fjárhaginn og eftir að hafa athugað gengi íslensku krónunnar sem ekkert hafði lagast, þá lögðum við af stað. Ég fann hvernig fullorðins árin smám saman komu til mín á ný, enda vann ég að því fullum hálsi, og það gekk alveg ágætlega að ljúka þeim verslunarerindum sem fyrir lágu. Í tölvuversluninni fengum við að vita að það væri allt lí lagi með harða diskinní tölvunni og þar með virtist peningaveskinu líða betur í jakkavasa mínum. Ég fór að hlakka til að koma heim og var ákveðinn í að blogga um þetta. Ég var líka ákveðinn í að fá mér svolítið julmust (ákveðinn gosdrykkur, öðru vísi gosdrykkur, sem er seldur yfir há vetrarmánuðina). Einnig var ég ákveðinn í að leggja mig í sófann og slappa af. Ég er nefnilega alltaf þreyttur þegar ég hef unnið þessar tveggja kvölda vikur sem ég reyndar geri oft í seinni tíð. Svo ætlaðið ég að hlusta á hana Sófíu Källgren syngja. Sófía er alveg sérstök söngkona sem ég er eiginlega svolítið skotinn í þó að hún sé meira en 30 árum yngri en ég. Ég var alveg ákveðinn í að hafa afskaplega gott og endurnærandi kvöld heima.

Nú er ég búinn að blogga og ég er aftur orðinn sextíu og sex ára. Það er best þannig. Hafið öll góða helgi, þið sem hugsanlega lesið þetta.

Með bestu kveðju,

Guðjón


Kommentarer
Brynja

hefði alveg viljað hitta þig 6 ára, ég hefði knúsað þig og gefið þér kleinu og snúð. Hér færðu rafrænt knús á þig og þína óháð aldri

2008-11-09 @ 20:27:01
Guðjón

Og ef það hefði verið kakó með kleinunni og snúðnum hefði allt verið fullkomið.

2008-11-09 @ 23:11:23
URL: http://www.gudjon.blogg.net


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0