Að skemma bílinn sinn

Í gær var ég með bílinn hjá umboðinu og þar var farið yfir allt mögulegt til að sjá að hlutirnir væru í lagi. Það var líka skipt um olíur og bara allt mögulegt. En þetta er ekki bara gert af gæðunum einum hjá þeim. Það þarf líka að borga. Ég beið meðan þetta var unnið, fór inn í bílasöluna og fékk mér ókeypis kaffi og skoðaði bílablöð. Ég varð þó fljótlega leiður á því, hélt mér við kaffið og horfði á fólk skoða bíla, máta sig í sæti og stimamjúka bílasala sem sýndu þolinmæði. Svo gekk hann Veijo framhjá. Ég talaði við Veijo í vor og sýndi honum þá rispu sem hafði komið á listann undir dyrunum hægra megin og hann giskaði á hvað lagfæringin mundi kosta. Hann er nefnilega verkstæðisformaður. Það var ótrúlega ódýrt fannst mér og gladdi það peningapúkann í mér. En núna var það nokkuð meira sem um var að ræða og grunaði mig að þar mundi peningapúkinn ekki verða glaður. Það var nefnilega þannig að ég var að fara frá Vornesi seinni partinn í sumar og í þröngum trjágöngunum mætti ég bíl sem í sátu tvær konur, trúlega aðeins eldri en ég. Það var búin að vera ausandi rigning og vegurinn var mjúkur og ég þorði ekki að fara út í kantinn. Ég vildi sýna þessum konum svolítinn riddaraskap og bakkaði því dágóðan spöl þangað til ég sá færi á að víkja. Eftir speglinum vék ég út i kantinn og allt gekk eins hjá góðum bílstjóra sæmir -þangað til bíllinn stoppaði með dynk. Ég lét eins og ekkert hefði í skorist og konurnar óku framhjá og við brostum og vinkuðum. Þegar þær voru komnar fyrir næstu beygju fór ég út og kveið fyrir að sjá hvað hefði nú skeð. En það var mun minna en ég óttaðist. Það var stimpill á stuðaranum hægra meginn, stimpill á srærð við botninn á kaffibolla. Ég taldi það vel sloppið þar sem ég taldi fyrst að ég hefði fengið beyglu langt upp eftir bílnum að aftan.

En nú stóðum við þarna við bílinn, ég og Veijo (Veijo er finnskt nafn) og hann gaf upp verðið. Veskið ryktist til í vasa mínum þegar ég heyrði upphæðina því þessi litli stimpill átti að kosta mig urmul af peningum. Sjálfsábyrgðin á þessu er nefnilega all há. Svo töluðum við um tryggingar og sjálfsábyrgð og ég þóttist vera glaður þegar ég tók við lyklunum að lokum. Svo þegar ég kom út að bílnum skeði nokkuð skrýtið. Ég virti bílinn fyrir mér, tandur hreinan og vissi að hann væri í góðu standi þrátt fyrir allt. Ég gat ekkert verið að röfla við sjálfan mig út af þessu. Ef ég man rétt er þetta fyrsti skaðinn á bíl hjá mér sem ég þarf að leggja út peninga fyrir, fyrir utan venjulegar bilanir og sjálfsábyrgð á framrúðu einu sinni. Svo ók ég heim á leið og var ótrúlega ánægður.

Í dag var ég að smíða á Sólvöllum. Þetta var einn af þessum dögum þegar allt passar áður en ég máta það. Svoleiðis dagar eru góðir dagar og þá er alveg sérstaklega gaman að smíða. Valdís fór niður á umferðarmiðstöð og keypti handa okkur farmiða til Stokkhólms. Við ætlum nefnilega í leikhús þann 3. desember og sjá My Fair Lady ásamt Rósu og Pétri. Við ætlum líka á Skansinn og virða fyrir okkur jólamarkað eins og við gerðum í fyrra. Við ákváðum þá að gera þetta að erfðavenju. Það er ágætt að rölta þarna um eina dagstund í vetrarjakka og með húfu og vetlinga og enda svo á góðum kaffibolla og vænni köku eða brauðsneið.

Nú er komið mál að sofa fyrir smiðinn sem ætlar líka að hafa góðan dag við smíðar á morgun. Eftir morgundaginn þarf ég svo að fá rafvirkja og þar á eftir verður allt mögulegt skemmtilegt að sýsla á sveitasetrinu. Mig grunar líka að Valdís komi til með að bjóða upp á pönnukökur þegar hallar að helgi og ég hlakka til þess.

Guðjón


Kommentarer
Brynja

en yndislegt skemmtið ykkur vel á my fair lady, sá leikritið hjá leikfélagi Akureyrar þegar ég var 12 ára eða svo, dreymdi lengi vel á eftir að verða leikkona. Njótið samverunnar elsku hjú, það á gott fólk skilið

2008-12-02 @ 22:23:09


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0