Að skrifa dagbók

Hún Guðrún frænka mín frá Fagurhólsmýri, sú sem ég leigði herbergi hjá um 1960, ráðlagði mér eindregið að færa dagbók. Það gæti orðið mikils virði fyrir mig síðar taldi hún. Ég hef reynt þetta nokkrum sinnum en alltaf hafa mínar dagbókarfærslur dagað uppi, því miður. En svo velti ég því fyrir mér að ef ég yrði duglegur að blogga yrði það nokkurs konar dagbók fyrir mig. Oft koma þó gloppur í bloggskriftir mínar en að lesa gamalt blogg eftir sjálfan mig minnir mig þá alltaf á margt annað en akkúrat það sem ég skrifa. Núna er ég með síðastliðinn sunnudag í huga og það er komið þriðjudagskvöld.

Á sunnudaginn var fórum við Ingemar, minn gamli vinnufélagi til langs tíma, í heimsókn til hans Kjell sem liggur á Huddinge sjúkrahúsi í Stokkhólmi. Kjell er líka vinnufélagi og var skorinn upp þann 11. nóvember, en það hef ég talað um áður. Við Ingemar skipulögðum ferðina daginn áður og ákváðuum að hann skyldi koma hingað heim upp úr átta um morguninn, og eftir svolítið kaffisamsæti hér heima skyldum við leggja af stað til Stokkhólms á okkar bíl. Ingemar er oft kátur og þá skemmtilega fyndinn. Yfir kaffinu var því hlegið talsvert og tíminn flaug áfram. Svo kvöddum við Valdísi og lögðum af stað. Ingemar þótti notalegt að vera farþegi, setti svolítinn hita á sætið, hreiðraði vel um sig og lék síðan á alls oddi. Að koma til Huddingesjúkrahúss er ekki að koma á neinn smá stað. Einhver hefur sagt að svona stórt sjúkrahús sé jafn fjölmennt og meðalstór bær út á landi. En við kallarnir spjörðum okkur og innan skamms vorum við komnir inn á stofuna til hans Kjell.

Þarna lá hann á sterkum verkjastillandi lyfjum og þegar ég virti hann fyrir mér með hvíta plástursræmu ofan frá viðbeini og langleiðina niður að nafla, datt mér í hug að hann væri í raun sem slasaður maður sem búið væri að sauma saman. Brjóstkassinn hafði verið opnaður og spenntur sundur til að komast að innri líffærum. En einmitt meðan ég var að velta þessu fyrir mér sagði Kjell: þú ert með plástur Guðjón. Jú, ég var með þunna, smá plástursræmu á vísifingri vinstri handar og plásturinn var eiginlega alveg eins á litinn og húðin. Eftir þessu tók hann. Stuttu síðar spurði hann Ingemar hvernig henni Lenu hans liði. Nú varð ég ennþá meira hissa. Í sínu ástandi var hann að veita svona hlutum athygli. En glaður var hann og eftir hálfan annan tíma var hann orðinn afar þreyttur og við gáfum honum frí og héldum af stað í heimsókn til Rósu og Péturs.

Við vorum báðir orðnir kaffiþyrstir og svangir og vissum að við mundum fá bót á þessu þegar við kæmum til þeirra hjóna. Áður en við lögðum af stað frá bílageymslunni í kjallara sjúkrahússins hringdi ég til Rósu til að fá hjá henni númerið á dyrasímanum svo að við gætum opnað útihurðina til stigahússins. Ég át númerið upp eftir Rósu og lagði það á minnið. Svo ókum við af stað. Eftir nokkra kílómetra sagði Ingemar: Þú, Guðjón, þú þarft ekki að muna númerið. Ég hef það skrifað hérna. Svo rétti hann út hendina og ég sá að hann hafði skrifað það í lófann með kúlupenna.

Þegar við komum heim til Rósu og Péturs var kaffið þegar á borðinu og mikið af kjarngóðu brauði og áleggi. Við Ingemar hreinlega þömbuðum kaffið og rifum í okkur brauðið og vorum alveg rosalega fegnir að komast í þetta. Eiginlega hefði okkur átt að verða illt af þessu vegna græðginnar en það var nú öðru nær. Við lékum á alls oddi og Ingemar reytti af sér brandara. Allt í einu sagði hann: Ég er tattúeraður, sjáið þið. Hann rétti út handlegginn og sýndi númerið að dýrasímanum í lófa sér. Svo hlógum við öll.

Eftir veisluna fórum við aftur til Kjell og ræddum um lífið og tilveruna í klukkutíma. Síðan var mál að leggja af stað heim. Hvað eftir annað á leiðinni heim sögðum við að mikið hefði nú verið gott að fá kaffið. Við töluðum líka um það hvað eftir annað að mikið hefði brauðið verið gott. Merkilegt að okkur skyldi ekki verða bumbult af að háma svona í okkur. Takk fyrir kaffið og brauðið Rósa og Pétur.

Um fimmleytið í dag, tæpum tveimur sólarhringum eftir að við komum heim frá Stokkhólmi, hringi Ingemar og var ég þá staddur á Sólvöllum á fullu við að smíða. Eftir smá spjall sagði hann smá hlæjandi; heyrðu, ég get ennþá lesið númerið í lófa mér.

Guðjón


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0