Sunnudagskvöld

Jæja, er ekki komið sunnudagskvöld einu sinni enn. Það er óvenju blautt á þessu hausti og ef rignir hið minnsta myndast pollar um allt þar sem allur jarðvegur er gegnum mettaður. Það er líka þungbúið flesta daga og ekkert hægt að gera innan húss nema kveikja ljós. Nú reynir á að hafa líka sitt innra ljós og láta það loga til að útiloka rökkrið frá að komast inn í sálina. Hversu dimmt sem er úti er það ljósið sem streymir út í myrkrið en ekki myrkrið inn í húsið þegar útihurðin er opnuð. Þannig skal líka vort innra ljós streyma.

Við skruppum á Sólvelli í dag en Valdís hefur ekki verið þar í nokkra daga. Að kveikja upp í kapisunni og horfa á eldinn kvikna í viðnum er athöfn útaf fyrir sig. Það er nauðsynlegt að sitja um stund og horfa á eldinn koma til. Það er eins og það verði betri eldur með því móti. Svo er ekki verra að heyra í kaffikönnunni surra meðan kaffið rennur niður og ekki var það slæmt í dag þegar vöfflulyktin angaði frá vöfflujárninu hennar Valdísar.

Eftir vöfflukaffi smíðaði ég svolítið en Valdís sýslaði við eitt og annað innan húss. Það gengur vel að smíða þessa dagana. Allt passar um leið og það er mátað og allt er við hendina þegar á þarf að halda. Þá er gaman að smíða. Ég reiknaði út efnisþörf næstu daga og núna á eftir ætla ég að gera verðútreikninga og þar á eftir að áætla hvað er skynsamlegt að ráðast í eins og málum er nú háttað. Ekki stendur samt til að leggja upp laupana því að þádofnar líka innra ljósið.

Margir sem ég þekki til ganga ekki heilir til skógar um þessar mundir. En þó að ég sé stundum haltur hef ég ekki yfir miklu að kvarta. Í gær var ég með haltara móti og það dró vissulega úr afköstum mínum. Í dag er ég hins vegar eins og unglamb og hefði eiginlega getað unnið allan daginn með ánægju. Hins vegar er nú sunnudagur og best að virða það. Hann Kjell vinur minn sem ég hef áður nefnt í blogginu var skorinn upp á þriðjudaginn var og það var mjög stór aðgerð. Daginn eftir lék hann á alls oddi en svo dró úr ánægjunni. Önnur dóttir hans hringdi til mín í dag og hin sendi sms. Þunginn hvíldi yfir þeim báðum. Ég ætlaði að heimsækja Kjell á sjúkrahúsið í Stokkhólmi á þriðjudaginn og taka með vinnufélaga sem á heima hér í nágrenni við Örebro. Þær systur vöruðu mig við að hann gæti kannski ekki tekið á móti heimsókn.

Nú er spáð kólnandi og bjartara út vikuna. Þá getur orðið afar fallegt veður en líka hætta á næturfrosti. Maður sem sendi mér e-póst í gær talaði um að hlakka til vorsins. Það var frost heilan sólarhring hér fyrir einum tveimur til þremur vikum. Þá fór ég að hlakka til vorsins. Það verður gaman að sjá hvernig beykitrén koma til eftir veturinn, að mæla vöxt þeirra næsta vor. Það verður líka gaman að ganga um skóginn og líta eftir hvort nýjar tegundir skjóta upp kollinum meðal þess aragrúa smáplantna sem þá koma til með að teygja sig mót vorsólinni. Og það er margt annað að hlakka til og þar að auki koma margir vetrardagarnir til með að verða fallegir með snjóþekju og hrími á trjágreinum.

Hér eru tvær gamlar vetrarmyndir. Sú neðri sýnir allt annað hús en það
sem er að finna á Sólvöllum í dag.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0