Morgunstund

Það er afskaplega rólegur dagur hér í Örebro. Það er í rauninni ótrúlegt þar sem ég sit við suðurgluggann í úthverfi borgar á stærð við Reykjavík að ég heyri ekki minnsta hljóð frá umferð eða neinum athöfnum fyrir utan ég heyrði aðeins í vörubíl sem kom á svæðið áðan vegna byggingarframkvæmda stutt hérna vestan við okkur. Samt er það svo að þegar við komum í sveitina, á Sólvelli, þá verður kyrrðin fullkomnari og náttúran byrjar strax við úitveggina.

Í gær heimsótti ég hann Kjell á sjúkrahúsið í Eskilstuna. Fyrir honum er það í frásögur færandi að hann er farinn að ganga yfir hundrað metra með aðstoð göngugrindar. Það er ekki svo langt síðan hann hafði það markmið að ganga tíu metra í einum áfanga með þessari grind. Þar áður hafði hann ekki gengið einn einasta meter síðan í byrjun desember. Hans sjúkrasaga er mikið lengri en svo en ég ætla ekki að rekja hana hér. Kjell er sextíu ára og mér finnst hann mikið yngri en ég. Þrátt fyrir helti mína er ég þakklátur þegar ég hitti þennan mann.

Ég hitti marga í Eskilstuna í gær. Meðal annars mann sem hefur oft verið hjá okkur í Vornesi en ekki fundið beinu brautina. Þegar hann sá mig hafði hann orð á því að ég væri með staf. Ég sagði honum að ég hefði fengið stafinn í tilefni af því að ég hefði orðið fimmtugur í vor og hann væri virðingartákn fyrir mig. Ha! sagði maðurinn snöggt, ert þú ekki að verða sjötugur? Glöggur hann, eða hitt þó heldur, að sjá ekki að ég á næstum þrjú ár í það að verða sjötugur. Ég fyrirgaf honum strax þar sem hann hefur ekki enn fundið beinu brautina.

Þetta minnti mig á atvik norður í Hrísey fyrir einum fjörutíu árum. Ég gæti hafa verið tuttugu og sjö eða átta ára. Tveir strákar voru að leika sér þar sem ég fór um og annar spurði mig hvað klukkan væri. Þegar ég hafði svarað því sagði hann við félaga sinn; klukkan er fimm, við verðum að fara heim. Hvernig veistu það sagði vinurinn. Kallinn sagði það svaraði hann og benti á mig. Og mér finnst ég ekki vera orðinn kall ennþá.

Vestan gola bærir mjúklega við laufskrúðinu sunnan við gluggann og í Suðurbæjarbrekkunni. Sólin sendir geisla sína niður um stóra glugga á skýjafarinu og stundum dragast stórir skuggar yfir skóginn. Nú fer ég að borða síðbúinn morgunverð og eftir nokkra stund legg ég af stað upp í Lindesberg þar sem bæklunarlæknir ætlar að skoða á mér mjöðmina með uppskurð fyrir augum. Ég minnist orðið oft á þessa slitnu mjöðm mína sem segir jú að hún hefur mikil áhrif á líf mitt. Það verður ekkert líf í sveitinni í dag. Seinni partinn koma Rósa og Pétur í heimsókn til okkar í Örebro. Dvöl þeirra á Sólvöllum fer að styttast að þessu sinni. Það verður mikil breyting þegar þau fara aftur til heimahaganna í Stokkhólmi. Í byrjun ágúst koma svo fimm gamlir grannar frá Hrísey í heimsókn og dvelja hjá okkur í viku.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0