Það er kominn 10. júlí

Já, það er kominn 10. júlí og þó að það þurfi trúlega að slá lóðina á Sólvöllum um mánaðamótin október-nóvember þá sígur á þetta sumar. Í gær var rigningardagur frá morgni til kvölds. Það var drjúg rigning en ekkert úrhelli. Ef það hefði verið úrhelli hefði rigning gærdagsins getað komið á einum klukkutíma. Það eru til skráðar lýsingar af svoleiðis rigningu á Sólvöllum. Víða í Svíþjóð hafa komið svoleiðis rigningar undanfarna daga og þá hafa mörg frárennsliskerfin ekki haft undan og þá hafa orðið flóð með mismunandi afleiðingum. Eitt er þó sameiginlegt með þessum afleiðingum öllum; þær hafa verið blautar. Nú sit ég heima og horfi suður í Suðurbæjarskóginn og dáist að hversu veltigrænn hann er. Blaðríkar greinarnar hníga undan safaríkum, nánast óendanlegum blaðaklösunum. Það hafa ekki verið allt of langir hlýindakaflar þetta sumar og það hefur ringt all oft og það skilar sér í frískara laufblaðahafi.

Við Valdís erum heima en förum eftir morgunverð á Sólvelli til Rósu og Péturs. Það er 25 km leið þangað svo að það er ekki tiltökumál að keyra það morgna og kvölds en þó alls ekki umhverfisvænt, jafnvel ekki á etanolbíl eins og okkar. Í dag verður sett í ein innihurð og þá verður auðveldara fyrir okkur að sofa þar öll fjögur eftirleiðis. Það er nú meiri höllin sem þetta lágreista hús undir skógarjaðrinum er að verða. Talandi um skógarjaðar, þá þarf að fella nokkrar bjarkir og tvo reyniviði bakvið húsið svo að þar verði dálítil grasflöt sem ver okkur fyrir skordýrum, músum og slöngum. Það hafa ekki verið felld nein tré á Sólvöllum á þessu ári. Ég hef ekki gefið mér tíma í svoleiðis og þar að auki leyfir mjöðmin það ekki. Talandi um mjöðmina, þá kom pósturinn að vanda í gærmorgun. Valdís fór niður og sótti póstinn og þegar hún horfði á hann sagði hún; jæja, nú er það bréf frá Lindesberg. Ég fann hvernig eins og heitur bursti með nokkuð stífum, fíngerðum hárum dróst fyrst niður allt höfuðið og síðan niður efri hluta líkamans. Svo stakk gamalkunnur verkurinn til í innanverðu lærinu og í hnénu og þá fann ég fyrir ánægju yfir að bréfið frá Lindesberg var loksins komið.

Og hvað með bréf frá Lindesberg sem er 40 km norðan við Örebro. Jú, það er nefnilega svo að þar er sjúkrahús sem hefur sérhæft sig í mjaðmaaðgerðum og fólk frá Örebro er gjarnan sent þangað í þessar aðgerðir. Því vissi ég hvað var að nálgast þegar bréf barst þaðan því að ég vissi þegar að ég ætti að fara þangað í þessa aðgerð. Ég á að koma þangað í skoðun í næstu viku var boðskapur bréfsins. Að öðru leyti er ég alls ekki vanur að fá bréf frá Lindesberg. Ég hélt reyndar að ég væri búinn að aðlaga mig því fullkomlega að þessi aðgerð væri framundan, en þegar ég fann fyrir fyrrnefndum bursta renna niður eftir líkamanum og skilja ekki eftir svo sem fingurgóms stóran blett, jú, þá vissi ég að ég var ekki alveg tilbúinn. En verkurinn stakk til á alveg réttum tíma, kannski var því stjórnað einhvers staðar frá, og þá komst ég áfram í aðlöguninni. Ég hef ekki gefið eftir undan þessum mjaðmasjúkdómi mínum hingað til og oft látið mig hafa það, en það er orðið langt síðan ég hef verið frjáls maður. Það verður gott að verða frjáls aftur, frjáls eins og ég fann mig vera á Kálfafelli fyrir 60 árum þegar við fórum í fyrsta skipti í stuttbuxurnar á vorin.

Það er farið að rigna á ný og mér finnst það allt í lagi. Samt veit ég að meiri hluta svía, sem eru svo margir í sumarfríi núna, finnst það alls ekki í lagi. Ég er í fríi þessa viku og það er margt á Sólvöllum sem kemst í stand og gefur rólegri daga síðar. Valdís er að borða síðbúinn morgunverðinn og ég ætla að slást í hópinn. Síðan förum við í sveitina.


Kommentarer
Eva

Elsku Gudjón, það er alltaf jafn gaman ad lesa bréfin þín, og fylgjast með ykkur úr fjarlægð, frá Norrtalje. Ykkar er saknað. Gangi þér vel í Lindesberg. Það eru duglegir læknar þar, hef smá reynslu af þeim frá skurðdeildinni. Bestu kveðjur, Eva

2009-07-13 @ 17:16:02
Guðjón

Takk Eva fyrir þín fallegu og hughreystandi orð. Viltu dansa við mig á jólaballinu?

Kveðja,

Guðjón

2009-07-13 @ 22:24:25
URL: http://gudjon.blogg.se/
Guðjón

En samt mest af öllu Eva, gangi þér allt í haginn!

GB

2009-07-13 @ 22:25:49
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0