Gamall er ég ekki

Að ég tali um ónýta mjöðm og aðgerð þar að lútandi getur gengið út í öfgar en ég má nú til með að skjalfesta ögn um þetta. Ég fór upp til sjúkrahússins í Lindesberg fyrir tíu dögum og hitti helling af skemmtilegu og góðu fólki. Sá fyrsti sem ég hitti var bæklunarskurðlæknir sem heitir Sune, lágvaxinn, grannur, líflegur kall, trúlega á sextugs aldri sem væntanlega gerir á mér mjaðmaaðgerð einhvern tíma í október. Hann snaraðist þarna í kringum mig, prufaði hreifanleika á löppunum á mér, sýndi mér röntgenmynd á stórum tölvuskjá, lagðist á hnén á gólfið og tók í vinstri fótinn og hló þegar það brakaði í liðamótum. Hann spurði hvernig ég notaði tíma minn og bara um allt mögulegt. Svo talaði hann um hvað ég gæti ekki gert eftir aðgerð og á hverju ég þyrfti að gæta mín. Og svo kom rúsínan í pylsuendanum. Þú verður að gera þér grein fyrir því, sagði hann, að það er ekki bara vinstri mjöðmin sem er sextíu og sjö ára. Þú ert allur sextíu og sjö ára. Og viti menn. Ég góndi á manninn og hugsaði; hvernig dettur honum í hug að ég sé svona gamall, ég sem er svo langt frá því að vera sextíu og sjö ára. Ég er mikið yngri.

Já, þetta eru nú hugmyndir mínar um sjálfan mig. Sjálfgóður! eða hvað? Sannleikurinn er sá að mér finnst ég vera mikið yngri en ég er þrátt fyrir helti og mér líkar það afar vel. Ég er heima og horfi núna suður yfir Suðurbæjarskóginn sem er farinn að dökkna í kvöldhúminu. Skógurinn er gróskumikill og fallegur og svo oft sem ég er búinn að sitja hér og horfa á hann, þá finnst mér það alltaf jafn gaman.


Kommentarer
Rósa

Eh, vertu ekkert að hlusta á þennan lækni. Aldur er bara eitthvað númer sem þýðir ekki neitt.



Kveðja,



R

2009-08-01 @ 10:56:51


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0