Heimsókn lokið


Rósa og Pétur eru búin að dvelja á Sólvöllum í fimm vikur. Það er líklega lengsta heimsókn sem við höfum haft síðan við komum til Svíþjóðar en þó munum við ekki hvað barnabarnið Kristinn dvaldi lengi hjá okkur fyrsta sumarið okkar í Svíþjóð. En hvað um það. Eftir að hafa haft svo góða gesti í svo langan tíma var það auðvitað þungur missir þegar þau óku heim um miðjan dag í dag. Þau bjuggu á Sólvöllum allan tímann en við Valdís vorum þar flesta daga sem ég var ekki að vinna. Við vorum þar einnig nokkrar nætur. Þau höfðu nýja svefnherbergið alveg fyrir sig en það var ekki fórn af okkar hálfu. Pétur hjálpaði mikið til við ýmsan frágang. Rósa fékk hins vegar all góðan tíma við samningu doktorsritgerðarinnar sinnar, en að hún gæti unnið við hana á Sólvöllum var eiginlega búið að vera í bígerð lengi. Svo var alveg frábært að hafa þau með í að velta fyrir sér ýmsu sem við viljum framkvæma á Sólvöllum. Stundum hefur okkur Valdísi vantað einhvern til að hafa með í ráðagerðum. En sem sagt; nú er þessari heimsókn lokið og í tilefni af því fórum við á tveimur bílum á veitingahús sem heitir Hjälmargården og liggur í litlu þorpi við sunnanverðan Hälmaren. Þarna skildu leiðir. Rósa og Pétur héldu til Stokkhólms en við Valdís héldum ögn þögul heim á leið. Við fórum líka á þennan stað við Valdís, Rósa og Valgerður þegar ég varð 65 ára. Myndin fyrir ofan er tekin eftir matinn þegar við fengum okkur kaffi og litlar kökur á útisvæði eftir góðan fiskrétt sem var þarna í boði í dag.


Ég mátti til með að hafa mynd af mér líka. Við erum búin að borða og flestir aðrir búnir að borða og salurinn að tæmast. Húsnæðið þarna er frábærilega notalegt.


Á rölti kringum veitingahúsið eftir matinn fundum við þessa brú og stilltum þar upp Rósu og Pétri með Hjälmaren í baksýn. Það var hlýtt og svolítill andvari sem gerði útivistina voða notalega.


Eyjar, tangar skógur og vatn. Það er víða fallegt í þessu landi og þessi staður er svo sannarlega einn af slíkum. Ég verð að geta þess líka að þegar Guðný og fjölskylda voru í heimsókn í vor borðuðum við á Hjälmargården, einnig þegar Rósa Kára í Hrísey heimsótti okkur í fyrra. Við eigum von á stórheimsókn eftir rúma viku og þá geri ég ráð fyrir að við skreppum til Hjälmargården.


Pétur hefur langan handlegg sem kemur myndavélinni ótrúlega langt í burtu. Honum tókst vel til þarna og allir gátu verið með. Gaman, gaman.


Kommentarer
Valgerður

Flottar myndir sem lýsa vel notalegri stund. En hverjir eru að koma í STÓRHEIMSÓKN? Hér skín sólin enn og Jónatan er að mála glugga en ég prjóna peysu á Erlu og svo held ég áfram með peysuna á Bumbulíus. kveðja

V

2009-07-24 @ 22:33:43
Anonym

Laxinn var góður og svo eru myndirnar mikið fínar.



Kveðja,



R

2009-07-24 @ 23:06:17
Guðjón

Sammála Rósa. Og Valgerður, Björgvin Pálsson í Hrísey er að koma ásamt Önnu Björgu,Lóu og köllunum þeirra.



Kveðja,



Guðjón

2009-07-24 @ 23:12:34
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0