Ekki veikur

Klukkan er að nálgast hálf níu á þessu sunnudagskvöldi og ég held bara að ég verði að blogga. Valdís var líka að segja mér áðan að einhver hefði verið að tala um að það væru nú ár og dagar síðan ég bloggaði síðast. Fólk getur farið að halda að ég sé veikur. En veikur er ég nú ekki og ef veikur þá minna veikur en ég var fyrir svo sem viku. Ég er nefnilega minna haltur núna en ég var fyrir nokkrum dögum. Ég er nokkuð duglegur við að tala um það þegar ég verð minna haltur en ég er mjög tregur til að tala um þegar ég verð meira haltur á ný. Fyrir um tveimur vikum keypti ég göngustaf, alveg sérstakan göngustaf. Hann er gerður úr einhvers konar rörum sem hafa munstur sem minnir á marmara. Rörbútarnir eru fimm og er þeim stungið upp í hvern annan og innan í þeim er teygja sem heldur þeim all sterklega saman. Ef ég nú vil setja stafinn minn í tösku eða láta fara virkilega lítið fyrir honum, þá tek ég fyrst neðsta hlutann og dreg niður úr þeim næsta og legg síðan þennan neðsta hluta við hliðina á stafnum. Eiginlega get ég sagt að ég dragi og snúi hann úr liði. Síðan dreg ég niður næsta hluta og geri það sama, legg hann líka við hliðina á því sem eftir er af stafnum. Þannig held ég áfram þangað til stafurinn er orðinn að smá hlut sem kemst fyrir í smá poka eða tösku. Þetta er mesti munur og ég hefði getað byrjað fyrr að nota staf segir Valdís en það er nú svo að ég, eins og aðrir, þarf að verða tilbúinn fyrir breytinguna áður en hún gengur í garð.

Ég kom heim nokkru eftir hádegi í dag eftir all stranga vinnuviku í Vornesi. Ég vann þrjú kvöld og nætur í vikunni og samtals fara í þetta 72 tímar ef ég reikna tímann í hvert skipti frá því ég fer að heiman og þangað til ég kem heim aftur. Svo ber þess að geta að ég get sofið allt upp að sex tímum á hverri nóttu svo lengi sem sjúklingarnir ekki hringja vegna einhvers sem bjátar á. Þeir hafa bara vakið mig einu sinni á síðustu þremur árum svo ég get ekki kvartað. Ég fæ líka svolítið greitt fyrir að sofa þessa klukkutíma. Sjúklingarnir kunna vel við mig með stafinn og mitt annars góða samband við þá varð jafn vel heldur betra eftir að ég fékk mér þetta eldri manna tákn.

Ég ímynda mér að ég verði kallaður í mjaðmaaðgerð á bilinu september - nóvember. Það verður nú meiri munurinn. Allir mögulegir eru að segja mér frá einhverjum sem þeir þekkja og hafa farið í þessa aðgerð og orðið að hálfgerðum unglingum á eftir. Hugsið ykkur mig á sextugasta og áttunda aldursári verða að ungum manni samkvæmt öllum þessum frásögnum. Af hverju þá að gera þetta ekki fyrir löngu síðan? Jú, meðal annars sama ástæða og þetta með göngustafinn; maður verður að vera tilbúinn sjálfur.

Hún Pernilla var í eldhúsinu í Vornesi í dag. Í fjölda ára vann hún sem sjúkraliði en hefur nú unnið í fáein ár í Vornesi við allt mögulegt. Pernilla hefur verið viðstödd margar mjaðmaaðgerðir. Hún lýsti því fyrir mér í dag hvernig svona aðgerð fer fram. Það hafa líka tveir hjúkrunarfræðingar gert sem hafa aðstoðað við margar mjaðmaaðgerðir. Sjúkraþjálfarinn sem ég geng til hefur líka lýst þessu fyrir mér. Ég fer að verða fær um að gera þetta sjálfur. Ég ætla ekki að fara hér nákvæmlega út í lýsingar þessa fólks en get þó sagt að það er meðal annars farið svolítið líkt að og ég nefndi með göngustafinn minn þegar hann er brotinn saman og þannig er komist að liðnum. Sjúkraþjálfarinn lauk lýsignu sinni með því að segja: þeir saga, fræsa, meitla, hamra, slípa og steypa og það sprautast og þýtur um loftið. Virkileg verkstæðisvinna sagði hann. Og eftir svona aðgerð fer ég á ný að iðka mínar gönguferðir, spengilegur kall með hnitmiðuðum, örum hreyfingum, beinn í baki og með hressu augnaráði.



Kommentarer
Þórlaug

Gaman að heyra frá þér Guðjón. Skilaðu kveðju til Valdísar.

2009-07-05 @ 22:53:06
Brynja

thad verdur yndislegt ad ödlast tilbaka thau lifsgaedi sem fylgja nyjum mjadmalid, veit ad thu att eftir ad ganga galvaskur um sem endranaer svossum, alltaf sama harkan i ther. Kram fra Brynju

2009-07-05 @ 23:43:26
Valgerður

Verst ef þú ferð að stökkva um eins og kálfur að vori

2009-07-06 @ 11:49:20
Anonym

Takk fyrir þessi innskot og kveðja til baka frá okkur Þórlaug. Einhvern tíma hafði ég skrifað e-póst að því er mig minnir og talaði þar um göngur mínar fyrr og nú. Jónatan tengdasonur minn svaraði þessu og gaf mér þar nafnið Skaftfellingurinn fótfrái. Ég kem nú tio með að standa undir nafninu.



Kveðja, Guðjón

2009-07-06 @ 23:20:31


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0