Bylta

Í nokkrar vikur hef ég haft óþægindi undir herðablöðunum og oft hringinn í kringum mig og kenndi ég um að hryggjarliðir væu orðnir fastir saman. Þetta getur valdið býsna miklum óþægindum og hefur oft skeð áður og hef ég þá farið til hnykkis til að fá þetta lagað. Ég hafði þráast við all lengi að þessu sinni sem oftar og vonast til að þetta lagaðist af sjálfu sér sem það gerir sjaldnast. Í fyrrinótt dreymdi mig svo að ég var innan um fullt af fólki hingað og þangað og ég hef ekki hugmynd um hvar. Maður einn, sem ég held að hafi verið Guðni á Maríubakka, ætlaði að hjálpa mér að losa um festuna að þessu sinni. Ég fann strax á mér í draumnum að honum mundi ekki takast það sem og gekk eftir. Svo var ekkert meira með það og ég vaknaði af draumnum og fór í vinnuna. Óþægindin eltu mig allan daginn en ekki kom ég því í verk að hringja í hnykkinn. Það var þó jákvætt að ég var alveg óvenju góður í verri mjöðminni.

Ég fór snemma af stað úr vinnunni þar sem ég þurfti að sinna erindi fyrir Vornes niður í miðbæ hér í Örebro. Að því erindi loknu fór ég inn í stóra matvöruverslun þarna í miðbænum til að kaupa brokkólí. Ég geri það oft að kaupa holl matvæli þegar mér er eitthvað misdægurt. Þegar ég hafði fundið fallegt brokkólí á ótrúlega lágu verði tók ég stefnuna að afgreiðslukössunum með ákveðnu göngulagi gamals skaftfellsks smalamanns. Svo þegar ég gekk fyrir horn á hillusamstæðu steig ég víst ofan á illa farið lík af rauðu vínberi sem lá þar í safapolli af sjálfu sér á gólfinu. Breyttist þá mitt knálega göngulag með leifturhraði í einhverjar óskiljanlegar sveiflur sem hugsanlega líktust polkasveiflu drukkins Dalakarls á Jónsmessunótt. Síðan var sem ég lægi láréttur í loftinu í svo sem meters hæð eitt sugnablik, en að því loknu skall ég niður á gólfið og kom niður á annan olnbogann og verri mjöðmina. Maður einn sem var nálægur gekk að mér og horfði niður á mig, að því er virtist frá mér séð úr gríðarlegri hæð, og spurði hvort allt væri í lagi. Ég svaraði því játandi og stóð upp með mitt brokkólí sem ég hafði aldrei sleppt í danssveiflunni og tók þá eftir því að maðurinn var alls ekki svo hár sem hann virtist vera meðan ég lá flatur á gólfinu. En nú tók ég eftir nokkru. Það hafði losnað um hryggjarliðina og strengurinn sem hafði legið hringinn í kringum mig undir neðstu rifbeinunum var horfinn. Mér leið mikið betur þrátt fyrir að mjöðmin hefði versnað á ný. Svo sótti ég starfsfólk sem tók að sér að hreinsa gólfið og átti von á að það mundi vorkenna mér svolítið sem það gerði alls ekki. Þannig fór það að það sem Guðna á Maríubakka tókst ekki að laga nóttina áður lagaðist þegar ég kom niður á olnbogann. Ég var vel klæddur svo að olnboginn slapp óskaðaður. Tíminn hjá hnykki kostar allt að 500 kr sænskar (5000 ísl) svo að ég datt á góðum launum.

Nú er spáð heldur meiri vetri og ætla ég að vera í byggingarvinnu á Sólvöllum um helgina en hafa stutta vinnudaga þar. Valdís ætlar að vera heima og láta sér batna lungnabólgan en hún er nú á batavegi. Svo heldur lífið áfram og dagurinn lengist um sitt hænufet dag hvern eins og á fyrri árum.

Með bestu kveðju til hugsanlegra lesenda frá Valdísi og Guðjóni


Kommentarer
Rosa

ég er búin að læra æfingu sem á að koma í veg fyrir að hryggjarliðirnir festast svona saman. er hjá sjúkraþjálfa núna til að bæta þetta. kenni þér hana næst.

2007-01-19 @ 09:50:37
Valgerður

Mér dettur nú bara í hug byltan sem Rósa fékk á Hlemmi forðum. Henni tókst ekki að halda á skólatöskunni allan tímann eins og þér tókst með brokkólíið.

Hér er enn snjór en það hefur hlýnað aðeins. Enn er víst fimbulkuldi á Akureyri.

Kv
Valgerður

2007-01-19 @ 12:54:39


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0