Við vorum bæði á Sólvöllum í dag

Góður hefur dagurinn verið í dag. Valdís var með á Sólvöllum í fyrsta skipti síðan um áramót og fór yfir það sem ég hef gert á þessum tíma. Svo hældi hún mér á hvert reipi og ég mátti gæta mín að velta ekki út úr skónum af monti. Þegar ég er einn fæ ég mér næringu á sem allra einfaldastan og skemmstan máta. Núna sá Valdís um þetta á annan hátt og það voru alvöru kaffitímar sem voru mikið skemmtilegri og nytsamari en þegar ég gleypi smávegis í mig bara til að mæta brýnustu þörfum. Það gekk líka afburða vel að smíða í dag, til dæmis við að klæða með utanhússpanel og að smíða bráðabirgðahurð fyrir verðandi forstofu. Það er gaman að allri smíðavinnu á Sólvöllum og þess vegna er eiginlega allt í lagi þó að það gangi hægt á stundum. En þó er stórt atrið að ég þurfi ekki að rífa eftir mig og því má ég ekki gera neinar vitleysur. Valdís var eiginlega ekkert hress þegar við lögðum af stað og var mér ekki alveg sama, en meðan við vorum á Sólvöllum var eins og hún hresstist öll og allar hreifingar, athafnir og spjall tók á sig nýja mynd. Það var ekki slæmt það.

Eftir svo sem tvær helgar verður gott að taka gott helgarfrí frá smíðavinnunni. Þá verður búið að loka öllu og klæða með panel. Undir panelinn set ég texplötur sem eru á einhvern hátt olíuvarðar og eru gerðar fyrir þetta. Þær gegna tvennu hlutverki; að gera húsið vindhelt og þær einangra líka. Gluggar eru í pöntun og ekkert liggur á með þá. Það er plastdúkur fyrir gluggaopunum. Núna þarf húsið að taka sig og þorna vel áður en byrjað verður að einangra.

Ég vinn þannig að annan hvern mánudag hef ég frí. Undanfarið hef ég tekið sumarfrí hinn mánudaginn þannig að ég hef bara unnið fjóra daga í viku. Núna nálgast að ég hætti í Vornesi og fram að því ætla ég nú að láta mér nægja að hafa bara annan hvern mánudag frían. Annars á ég 27 sumarfrídaga óúttekna. Það er ýmislegt sem ég vil koma í verk áður en ég hætti og ætla ég nú að snúa mér að því.

Ég talaði um það áðan að taka frí frá smíðum eina helgi. Þá helgi ætlum við að skreppa til Stokkhólms og heimsækja Rósu og Pétur. Það er skemmtilegt að koma til þeirra og það er yfir höfuð gaman að koma til Stokkhólms. Í ferðinni ætlum við að færa þeim við í arininn en þið megið alls ekki segja þeim frá því.

Hafið góðan dag


Kommentarer
Rosa

Hwaa! Við í kakkalónann?! Handa okkur?! Í alvörtunni?!?

2007-01-30 @ 08:01:19
Guðjón

Jaá, handa ykkur

2007-01-30 @ 20:56:46
URL: http://www.gudjon.blogg.net
Rósa J

Það líður öllum betur eftir smá stund á Sólvöllum, það er svo gott loft og góður andi þar.

En gott að heyra að þið ætlið að taka ykkur frí og drífa ykkur til Stokkhólms. Þið hafið ekkert nema gott og gaman af því og það verður sárabót fyrir Valdísi sem missti af ferðinni með kórnum.

2007-02-01 @ 12:52:57


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0